Georg segir þetta í samtali við Morgunblaðið í dag.
Blaðið ræddi í gær við Halldór B. Nellett, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni, sem sagði að strandlengjan við Ísland væri meira og minni eftirlitslaus. Engar ratsjár væru við ströndina til að fylgjast með skipum og bátum sem ekki væru virk í AIS-auðkenningarkerfinu.
Georg tekur undir þetta og segir meðal annars:
„Við vitum um nokkuð mörg dæmi þess að skip og bátar láti hvergi vita af sér og séu ekki með kveikt á AIS-auðkenningarkerfinu. Það er hending ef við vitum af því hvað er að gerast inni á fjörðum og á afskekktum stöðum,“ segir Georg við Morgunblaðið.
Hann segir að þetta sé grafalvarlegt og beinir skýrum skilaboðum til stjórnvalda. „Við verðum að horfast í augu við þann vanda sem fyrir hendi er. Við getum ekki haft fullnægjandi eftirlit með hafsvæðinu í kringum landið og ströndum þess,“ segir hann og bætir við:
„En það er til stórrar skammar að Ísland, eyja úti í miðju Atlantshafi sem byggir afkomu sína á sjónum meira og minna, skuli ekki hafa nein tæki til þess að fylgjast með hafsvæðinu í kringum landið nema með radarmyndum sem við fáum gefins frá Evrópusambandinu. Það er aumt að geta ekki einu sinni haldið úti einni flugvél. Ef vel á að vera þyrftum við tvær.“