Eins og flestir ættu að vita varð slys í íshellaferð á Breiðamerkurjökli síðastliðinn sunnudag. Bandarískur ferðamaður lést þegar stórt stykki af ís hrundi á hann og unnustu hans sem slasaðist en lifði af og það gerði barn þeirra, sem hún ber undir belti, einnig. Ferðin var í umsjá fyrirtækisins Ice Pic Journeys sem er í eigu tveggja Bandaríkjamanna. Fyrirtækið hefur í kjölfar slyssins fjarlægt margvíslegar upplýsingar af heimasíðu sinni meðal annars um eigendurna og ferðir sem verið hafa í boði hjá fyrirtækinu. Athygli var hins vegar vakin á því á samfélagsmiðlinum Reddit að á Instagram-síðu fyrirtækisins er enn aðgengilegur, þegar þessi orð eru rituð, fjöldi myndbanda þar sem fyrirtækið auglýsir ferðir sínar. Þar á meðal eru myndbönd þar sem íshellaferð að sumri til er auglýst með því að kveikja á að því er virðist stórum kertum eða blysum víða um hellinn. Í einu myndbandinu virðist einnig vera kveikt í einhverju sem er erfitt er að sjá nákvæmlega hvað er en sjá má loga í hellisgólfinu. Á myndböndunm má einnig glöggt sjá nokkra bráðnun á ísnum og meðal annars lítinn læka flæða í gegnum hann.
Sætt hefur þó nokkurri gagnrýni að slík ferð hafi verið farin að sumri til þegar ísinn í hellinum er sem óstöðugastur.
Ekki er annað að sjá en að myndböndin séu þrjú en tvö þeirra eru styttri útgáfa af hinu þriðja. Voru þau öll birt um miðjan maí síðastliðinn.
Texti með myndböndunum er allur á ensku en í færslunni með lengsta myndbandinu stendur að verið sé að skemmta sér með blysum í íshelli sem kallaður er „Blue Flame Ice Cave.“ Ekki er fyllilega ljóst af færslunni hvort um er að ræða íshellinn á Breiðamerkurjökli þar sem slysið varð.
Ef þú sérð ekki myndböndin er ráð að endurhlaða síðuna (e. refresh)
View this post on Instagram
Tengill á færsluna er hér.
Í færslu með öðru af styttri myndböndunum er auglýst að hægt sé að bóka sumarferð í þennan sama íshelli.
Tengil á þá færslu er að finna hér.
View this post on Instagram
Í þriðja myndbandinu stendur að verið sé í góðum gír í sumar-íshellinum.
Tengil á færsluna með þessu myndbandi er að finna hér.
View this post on Instagram
Eftir á að hyggja virðist vera vafasamt að kveikja elda, þótt litlir séu, inni í íshelli, í ljósi ábendinga sérfræðinga um óstöðugleika íssins. Hér verður þó ekki kveðið upp úr um hversu skynsamlegt það kann að hafa verið og það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á.
Eins og áður segir er ekki sérstaklega tekið fram í þessum Instagram-færslum að „Blue Flame Ice Cave“ sem auglýstur er sé íshellirinn á Breiðamerkurjökli. Því er ekki hægt að fullyrða að í færslunum sé verið að auglýsa þá ferð sem var í gangi þegar slysið varð. Sé þetta heiti slegið inn í Google koma upp meðal annars myndir á heimasíðu annars ferðaþjónustufyrirtækis af íshelli sem kallaður er „Blue Ice Cave“ og er sagður í Breiðamerkurjökli. Þær myndir eru afar líkar því umhverfi sem sést í umræddum myndböndum og því ekki ólíklegt að um sama helli sé að ræða en ekki er hægt að slá því algjörlega föstu.