Krafa hefur verið gerð af hálfu lögreglustjórans á Austurlandi um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir 45 ára karlmanni sem handtekinn var í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag í tengslum við andlát hjóna á áttræðisaldri á Neskaupstað. Hann var áður úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun til 30. ágúst.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi kemur fram að dómari hefur fallist á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um geðrannsókn á hinum grunaða.
Rannsókn málsins miðar vel. Enn er þó unnið að gagnaöflun hverskonar og úrvinnslu, svo sem á rafrænum gögnum og gögnum af vettvangi. Sú vinna mun taka tíma, segir einnig í tilkynningunni.