Í viðtali við CNN lýsir Stevens, sem er búsettur í Austin í Texas, atvikinu.
Hann segir að hann hafi meðal annars tekið myndir af dóttur sinni á leiðinni til baka úr hellinum og dottið í hug að skipta um linsu á myndavélinni sinni til að ná öðruvísi myndum. Þar sem röð var farin að myndast fyrir aftan hann hafi hann ákveðið sleppa því til að tefja ekki aðra.
„Mér fannst dónalegt af mér að láta aðra standa fyrir aftan mig meðan ég skipti um linsu þannig að ég sleppti því og við löbbuðum út,“ segir hann.
Hann segir að um það bil mínútu eftir að þau fóru úr hellinum hafi hann heyrt mikinn hávaða fyrir aftan sig, ísveggurinn hafði hrunið. „Ef ég hefði skipt um linsu þá væri ég 100% dáinn núna. Við stóðum á nákvæmlega þessum stað,“ segir hann.
Eins og komið hefur fram lést bandarískur ferðamaður í slysinu og slasaðist konan hans töluvert. Grunsemdir vöknuðu um að tveir ferðamenn til viðbótar væru undir ísnum en síðdegis á mánudag var leit hætt þar sem umræddir ferðamenn fóru ekki í ferðina.
Scott segir að ýmislegt hafi farið í gegnum huga hans og dóttur hans eftir slysið. „Hún er búin að hugsa mikið um að ég hefði getað dáið á meðan ég var að taka myndir af henni. Ég hef hugsað um aumingja manninn sem var þarna í fríi og eflaust á leiðinni heim til sín.“
Hann segir við CNN að tveir hópar hafi verið nær samtímis í hellinum, en hann var í fyrri hópnum og maðurinn sem lést í seinni hópnum. Hóparnir ferðuðust engu að síður saman en voru með mismunandi leiðsögumenn. Þegar ísveggurinn hrundi segist Scott hafa verið að tala við leiðsögumanninn úr sínum hóp.
„Hann horfði á mig og ég horfði á hann. Svipurinn á okkur báðum var á þá leið að þetta væri ekki gott.“ Hann segir að hann og leiðsögumaðurinn hafi drifið sig á vettvang og strax séð konu sem var augljóslega sárþjáð. Leiðsögumenn og læknir í hópnum veittu henni aðhlynningu og segir Scott að leiðsögumaðurinn sem hann hafði rætt við skömmu áður hafi verið í miklu áfalli.
„Hann var tárvotur … Hann kom aftur og það var blóð á honum, líklega úr manninum sem lést. Hinn leiðsögumaðurinn var líka eyðilagður og augljóslega í gríðarlegu áfalli.“ Scott segist síðar hafa frétt að um par hefði verið að ræða.
CNN segir frá því að bandarísk yfirvöld hafi staðfest að bandarískur karlmaður hafi látist í slysinu og bandarísk kona slasast. Sagði talsmaður bandarísku utanríkisþjónustunnar að yfirvöld væru tilbúin að veita fjölskyldu fólksins aðstoð vegna slyssins.