fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Notuðu kaffivél til kókaíninnflutnings – „En ég er ekkert að ljúga að þér bróðir minn“

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 27. ágúst 2024 11:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrír menn hafa verið dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness fyrir þátttöku í innflutningi á miklu magni kókaíns hingað til lands í þeim tilgangi að selja það. Í dómnum er að finna mjög ítarlegar lýsingar á atburðarásinni en það voru tollverðir sem fundu kókaínið í póstsendingu og létu lögreglu vita. Hlustunar- og eftirlitsbúnaði var komið fyrir í pakkanum sem innihélt sendinguna og eru samskipti á milli mannanna sem náðist að taka upp með búnaðinum, ásamt samskiptum með símaskilaboðum, rakin all ítarlega í dómnum.

Mennirnir bera allir erlend nöfn og komu tveir þeirra sérstaklega til landsins til að sækja sendinguna en sá þriðji var hælisleitandi hér á landi.

Í málinu var ákært vegna tveggja sendinga sem komu til landsins í mars á þessu ári. Í fyrsta lagi var um að ræða sendingu á útvarpstæki frá Sviss sem innihélt einnig 815,38 grömm af kókaíni. Tollverðir fundu kókaínið við eftirlit í póstmiðstöð Íslandspósts og létu lögreglu vita sem kom á staðinn, rannsakaði kókaínið lagði hald á það og kom pakkanum á pósthús. Tveir af mönnunum voru ákærðir í þessum lið málsins og var annar þeirra handtekinn þegar hann var talinn vera á leiðinni á pósthúsið til að sækja pakkann.

Játa og neita

Tollverðir fundu sama dag einnig 887,60 grömm af kókaíni, í póstmiðstöð Íslandspósts, í sendingu sem kom frá Frakklandi og innihélt kaffivél. Lögregla gerði það sama við pakkann og í fyrra tilfellinu. Annar áðurnefndra tveggja manna sótti sendinguna á pósthús og hitti síðan hinn en sá fyrrnefndi hitti þriðja manninn sem ákærður var í málinu og afhenti honum pakkann. Var þriðji maðurinn skömmu síðar handtekinn.

Þriðji maðurinn var aðeins ákærður vegna sendingarinnar frá Frakklandi og eins og hinir mennirnir tveir játaði hann sök í því máli. Þeir síðarnefndu neituðu hins vegar sök þegar kom að sendingunni frá Sviss.

Lögregla kom fyrir eftirlits- og hlustunarbúnaði í pakkanum sem kom frá Frakklandi.

Samskipti

Mennirnir tveir höfðu ítarleg samskipti á samskiptaforritinu Signal vegna málsins. Lögregla rannsakaði síma þeirra beggja og í dómnum segir að samskiptin hafi farið fram á frönsku en einnig notuðu þeir orð úr arabísku.

Hluti samskiptanna, sem koma fram í dómnum, eru eftirfarandi:

„Ég veit ekki hvað hann er að segja/rugla.“

„Hvað hann er erfiður ég er ekki að grínast – Hvað er í gangi /-Kannski sá hann hvernig þetta fór/stefnir–og hugsaði skítt með það.“

„Ég veit það ekki en við sjáum til.“

„Já.“

„Hann gerir mann brjálaðan.“

„Hvað segir hann – En ég er ekkert að ljúga að þér bróðir minn – þetta er er mjög dularfullt ef við gerum þetta ég sver það – Láttu mig vita hvað hann segir – Gerðu það.“

Dularfulli maðurinn

Á upptöku úr hlustunarbúnaði sem lögreglan kom fyrir í sendingunni frá Frakklandi mátti heyra mennina hringja símtal á samskiptaforritinu Signet og tala við ónefndan mann á frönsku. Veitti sá maður þeim leiðbeiningar um mótttöku og afhendingu á pökkunum tveimur og sagði þeim meðal annars að rífa miða af pökkunum.

Annar mannanna tveggja sagði fyrir dómi að þeir hefðu verið neyddir til að fremja brotið sem varðaði sendinguna frá Frakklandi. Sá sem fengið hefði þá til þess hefði nýtt sér ungan aldur og barnaskap þeirra. Fullyrti hann að þeir hefðu hins vegar aldrei ætlað sér að sækja sendinguna frá Sviss. Sagðist hann hafa skuldað manninum umrædda peninga. Hann sagðist hafa komið til landsins, frá Frakklandi, ásamt hinum manninum, sem hann hefði þekkt lengi, og að þeir hefðu ætlað úr landi strax næsta dag.

Hinn maðurinn tók undir að þeir hefðu verið neyddir til verknaðarins.

Þriðji maðurinn í málinu sagðist ekkert slíkt hafa gert áður og hann þekkti ekki hina mennina tvo. Hann sagðist vera umsækjandi um alþjóðlega vernd á Íslandi en ekki njóta þjónustu af hálfu ríkisins. Baðst hann afsökunar á gjörðum sínum.

Sakfelldir og sýknaðir

Eins og áður segir játuðu mennirnir þrír sök sína hvað varðar sendinguna frá Frakklandi og voru því sakfelldir fyrir þann þátt málsins. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness segir að þegar kemur að sendingunni frá Sviss þá beri gögn málsins, þá einkum samskipti í gegnum síma, með sér að mennirnir tveir, sem ákærðir voru einnig í þeim þætti málsins, hafi verið sendir hingað til lands til að sækja tvær sendingar með fíkniefnum og koma þeim áfram.

Í dómnum er rakið í all löngu máli hvort forsendur hafi verið fyrir því að sakfella fyrir sendinguna frá Sviss. Mennirnir fullyrtu fyrir dómi að eftir að þeir voru búnir að sækja sendinguna sem kom frá Frakklandi hafi þeir verið harðákveðnir í að sækja ekki sendinguna frá Sviss. Komst dómari að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri mennina af þeim lið ákærunnar sem sneri að sendingunni frá Sviss. Vísaði dómarinn einkum til samskipta þeirra á Signal þar sem þeir sögðu báðir að þeir væru „off“ og annar þeirra sagðist vera búinn að láta „hann vita“ að þetta væri „ónýtt.“ Sagðist dómarinn telja að þar væri átt við skipuleggjandann. Vísaði dómarinn einnig til þess að annar mannanna hafi verið handtekinn á föstudegi eftir lokun pósthússins, þar sem sendingin frá Sviss, var og að ekkert lægi fyrir í málinu sem benti til að mennirnir ætluðu að bíða á landinu fram til mánudags.

Dómarinn segir ljóst að mennirnir þrír hafi verið hlekkir í innflutningi fíkniefna til landsins og ekki verið skipuleggjendur. Mennirnir tveir sem ákærðir voru fyrir báðar sendingarnar hlutu eins árs fangelsi en sá þriðji tíu mánuði. Gæsluvarðhald sem mennirnir höfðu setið í frá því í mars var dregið frá dómunum.

Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri