Minningarstund verður haldin í Norðfjarðarkirkju í Neskaupstað kl. 18 í dag.
Vika er liðin síðan fjölskyldufaðir á fertugsaldri lést af voðaskoti á Vesturöræfum og á fimmtudag fundust hjón á áttræðisaldri látin í heimahúsi. Karlmaður var handtekinn í Reykjavík og úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að vera valdur að andláti hjónanna.
Eftir minningarstundina verður áfallamiðstöðin í Egilsbúð opnuð. Þar getur fólk komið til að fá samtal og sálrænan stuðning. Miðstöðin verður einnig opin frá klukkan 16-19 á morgun.
Þeim sem eiga um sárt að binda er bent á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er opinn allan sólarhringinn. Einnig er hægt að fá samband við geðheilbrigðisteymi HSA með því að senda póst á netfangið afallahjalp@hsa.is, hafa samband við presta í gegnum netfangið afallahjalp@kirkjan.is eða hafa samband við félagsþjónustu Fjarðabyggðar í síma 470 9000 eða með því að senda póst á netfangið fjardabyggd@fjardabyggd.is.