fbpx
Sunnudagur 25.ágúst 2024
Fréttir

Steingrímur var við störf á götulokunarstöð vegna Reykjavíkurmaraþonsins og segir Svein hafa keyrt á sig – Sveinn neitar því alfarið og segir Steingrím hafa valdið skemmdum á bíl hans

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 24. ágúst 2024 22:56

Steingrímur Ólafsson (t.v) sakar Svein Elías Elíasson (t.h) um að keyra á sig þegar hann var að sinna starfi sínu við eina af lokunarstöðvum Reykjavíkurmaraþonsins. Sveinn neitar því alfarið að hafa keyrt á Steingrím og segist hafa verið að forða bíl sínum frá skemmdum vegna þess að Steingrímur hafi barið í hann. Myndin er samsett, á myndinni með Sveini er Ósk Norðfjörð eiginkona hans

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steingrímur Ólafsson sem var við störf í dag við eina af lokunarstöðvunum sem sett var upp vegna Reykjavíkurmaraþonsins segir að maður nokkur hafi verið ósáttur við að vera ekki hleypt í gegnum lokunarstöðina og hafi á endanum keyrt á hann. Steingrímur ætlar að leggja fram kæru á hendur manninum og segir að um sé að ræða Svein Elías Elíasson sem var lengi þekktur undir gælunafninu NO1DAD. Sveinn Elías hafnar ásökunum Steingríms alfarið og segir hann þvert á móti hafa keyrt framhjá honum til að forða því að sá síðarnefndi myndi valda frekari skemmdum á bílnum en hann hefði þegar ollið og ætlar að kæra Steingrím fyrir eignaspjöll.

Sveinn sem er einna þekktastur fyrir að hafa keppt í frjálsum íþróttum á árum áður er barnmargur og vakti mikla athygli þegar hann fékk sér einkanúmerið NO1DAD sem hann hefur löngum verið kenndur við síðan. Sveinn er hins vegar löngu hættur frjálsíþróttaiðkun og keppir í dag í bekkpressu.

Steingrímur segist þekkja Svein vel í sjón vegna fyrri samskipta sinna við hann í starfi sínu sem dyravörður. Sveinn segir það hins vegar ekki rétt þar sem hann hafi sárasjaldan drukkið áfengi og hafi ekki farið á skemmtistað í meira en áratug.

Í samtali við DV segir Steingrímur að lokunarstöðin hafi verið við þjónustustöð N1 á Hringbraut. Segir Steingrímur að aðeins fólki sem þurfti að komast á Landspítalann við Hringbraut og til að skila bílaleigubílum á BSÍ hafi verið hleypt í gegnum lokunarstöðina. Hvorugt þessara skilyrða hafi átt við Svein.

Hin meinta ákeyrsla

Steingrímur segir að þegar hann hafi tjáð Sveini að honum yrði ekki hleypt í gegnum lokunarstöðina hafi Sveinn blótað honum í sand og ösku og sagt honum að „fokka sér“. Steingrímur segist þá hafa snúið sér við og gengið í burtu. Þá hafi hann heyrt kallað:

„Passaðu þig.“

Hafi þá engum togum skipt að Sveinn, sem hefði þá náð að koma sér framhjá lokunarstöðinni hafi ekið beint á Steingrím með þeim afleiðingum að hann endaði á húddi bílsins. Steingrímur segir lokunarstöðina hafa samanstaðið af pallbíl og nokkrum vegkeilum sem raðað var í röð og Sveinn hafi komist þar í gegn.

Ekki var sjúkrabíll kallaður til en Steingrímur segist vera nokkuð lemstraður eftir ákeyrsluna, með verki og rispaður á hnjánum. Þegar hann ræddi við DV fyrr í dag sagðist hann ætla á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans þegar hann hefði lokið vinnu sinni við lokunarstöðina og þegar þeir keppendur í Reykjavíkurmaraþoninu sem þurfi á þjónustu slysa- og bráðamóttökunnar að halda séu farnir þaðan. Segist Steingrímur gera þetta til að forðast að þurfa að bíða í marga klukkutíma. Hann benti fréttamanni DV einnig á að þótt hann hafi ekki slasast það alvarlega að kalla hafi þurft til sjúkrabíl geti áverkar eftir ákeyrslu komið fram nokkru eftir að hún hefur átt sér stað.

Báðir leggja fram kæru

Steingrímur segir Svein bersýnilega hafa átt erindi á þjónustustöð N1 þar sem hann hafi keyrt beint inn á athafnasvæði stöðvarinnar eftir ákeyrsluna. Vegna starfsins við lokunarstöðina var Steingrímur með talstöð sem hann gat notað til að kalla til lögreglu. Lögreglumenn á mótorhjólum hafi komið fljótlega og rætt við Svein en ekki handtekið hann. Steingrímur segir að hann muni leggja fram kæru á hendur Sveini.

Í samtali við DV hafði Sveinn talsvert öðruvísi sögu að segja af samskiptum sínum við Steingrím. Sveinn segir að hann hafi komið akandi að lokunarstöðinni ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Tilgangurinn hafi verið sá að komast inn á þjónustustöð N1 til að ná í úlpu sonar hans sem hefði gleymst þar, og var sími drengsins í einum úlpuvasanum, en drengurinn var að keppa í Reykjavíkurmaraþoninu á meðan þessu stóð. Sveinn segist hafa beðið kurteislega um að fá að keyra að þjónustustöðinni en Steingrímur hafi sýnt bæði honum og eiginkonu hans dónaskap og barið í bílinn, hellt yfir hann drykk og sýnt af sér ógnandi hegðun sem hafi hrætt dóttur hans mjög. Sveinn segir dóttur sína hafa spurt hvort bíllinn væri ekki örugglega læstur.

Sveinn segir að til að komast burt og forða frekara tjóni á bílnum hafi hann keyrt framhjá Steingrími sem hafi á meðan barið í bílinn og hellt yfir hann drykk. Sveinn segist hafa ekki átt annarra kosta völ en að keyra áfram því næsti bíll fyrir aftan hafi verið það nálægt að illmögulegt hafi verið að bakka. Sveinn segir að hefði hann virkilega keyrt á Steingrím hefðu lögreglumenn sem komu á vettvang handtekið hann sem þeir gerðu ekki. Segist Sveinn hafa sýnt þeim myndbandsupptöku úr myndavél bifreiðar hans sem hafi rennt frekari stoðum undir að hann hefði ekki keyrt á Steingrím. Sveinn segist ætla að leggja fram kæru á hendur á Steingrími fyrir eignaspjöll.

Myndir og myndbönd

DV hefur undir höndum myndir og myndbönd af hluta atburðarásarinnar. Myndband sem tekið er úr öðrum bíl úr eilítilli fjarlægð sýnir Svein keyra áfram, á að því er virðist á takmörkuðum hraða, á meðan Steingrímur stendur fyrir framan bílinn og reynir að hindra för hans og framfylgja þannig lokuninni. Steingrímur sést bakka undan bílnum, á meðan Sveinn keyrir áfram og stoppar nokkurn veginn á víxl, sá fyrrnefndi sést lemja í húddið á bílnum og hella yfir það drykk, sem hann er með í dós, þar til hann víkur sér á endanum undan og þá keyrir Sveinn framhjá. Myndbandið sýnir hins vegar ekki upphaf atburðarásarinnar.

Á myndum af bifreið Sveins má sjá þó nokkrar skemmdir á húddi hennar. Á myndum og myndbandi sem teknar eru nær atburðarásinni sést Steingrímur lemja af, að því er virðist, nokkrum krafti í húddið og hella drykk yfir það. Hann stendur fyrir framan bifreiðina á meðan Sveinn keyrir áfram en virðist svo stöðva og þá víkur Steingrímur undan og sá fyrrnefndi keyrir framhjá. Eins og í hinu myndbandinu þá sést atburðarásin ekki í heild sinni. Þetta myndband er einnig styttra en hið fyrrnefnda.

Hér verður ekki kveðið upp úr um hvor aðilinn ber meiri sök í þessu máli en þar sem báðir aðilar ætla sér að leggja fram kæru virðist ljóst að málinu er ekki lokið. Skjáskot úr báðum myndböndum má sjá hér að neðan.

Uppfært

Neitun Sveins um að það sé rétt að Steingrímur hafi rekist á hann í starfi sínu sem dyravörður hefur verið bætt við upprunalega útgáfu fréttarinnar.

Skjáskot úr fyrrnefnda myndbandinu.
Skjáskot úr síðarnefnda myndbandinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ekki verður hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á Íslendingabók.is

Ekki verður hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum á Íslendingabók.is
Pressan
Í gær

Segir að ótrúleg mistök hafi verið gerð þegar snekkjan sökk

Segir að ótrúleg mistök hafi verið gerð þegar snekkjan sökk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrstu myndir af eldgosinu úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af eldgosinu úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gos er hafið á Reykjanesi

Gos er hafið á Reykjanesi