Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptafulltrúi Almannavarna, sagði við RÚV í morgun að allar breytur verði settar inn í hraunflæðilíkön sem reikna má með að liggi fyrir með morgninum.
Segir Hjördís ekki ólíklegt að hraunið fari yfir Grindavíkurveg og það sé eitthvað sem fólk þekkir vel. Það sé ekki jafn mikið vandamál og áður.
Ný gossprunga opnaðist í nótt við norðurenda fyrri sprungunnar og er virknin langmest í nyrðri hlutanum, skammt frá Stóra-Skógfelli.
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði við RÚV í morgun að þetta gos væri frábrugðið öðrum vegna þess hversu norðarlega virknin er. Aflögun haldi áfram norðan við nýju sprunguna og það gæti bent til þess að kvika sé að finna sér leið í jarðskorpunni.
Grindavík er ekki í hættu og ekkert hraunflæði á leið þangað en hraunið rennur nú í átt að Litla-Skógfelli, framhjá Stóra-Skógfelli og til austurs og norður.