fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Manndráp á Íslandi – Karlmenn alla jafna gerendur og fórnarlömb – Hnífur algengasta vopnið en hnefarnir einnig notaðir

Ritstjórn DV
Föstudaginn 23. ágúst 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Manndráp á Íslandi eru fátíð, og hafa síðastliðin 20 ár að jafnaði verið framin tvö manndráp á ári. Sé litið lengra aftur í tímann er tíðnin lægri.

Fregnir um manndráp vekja jafnan óhug meðan þjóðarinnar, en á sama tíma samkennd enda landið lítið og tengsl milli manna oft mikil. Mörg manndrápsmál hafa fengið mikla umfjöllun og hafa heltekið þjóðina, og leita þau ítrekað aftur í umræðuna, nægir þar að benda á Guðmundar- og Geirfinnsmálið frá 1974, en fyrsti dómur í málinu féll í desember 1977. 

Sé aðeins litið til nokkurra síðustu ára er fjöldi manndrápsmála meiri en verið hefur síðustu áratugi. Fimmtán einstaklingar hafa verið myrt­ir í þrettán mann­dráps­mál­um frá árinu 2020.  Eitt morð var framið árið 2021, fjögur árið 2022 í þremur málum, fimm árið 2023 og fimm morð hafa verið framin það sem af er ári í fjórum málum. Það skal hins vegar bent á þó að í öllum málum bendi flest til þess að saknæmt athæfi hafi átt sér stað þá á eftir að ákæra í sex af framangreindum málum.

Tíu létust í níu manndrápsmálum árin 2021 – 2023. Flest þeirra voru framin á heimili hins látna eða sex þeirra, tvö áttu sér stað í heimahúsi, eitt á skemmtistað og eitt á bílaplani. Fjögur morð voru framin í Reykjavík, tvö í Hafnarfirði, tvö á Blönduósi, eitt á Ólafsfirði og eitt á Selfossi. 

Í sjö málanna voru tengsl milli fórnarlambs og geranda, en aðeins í tveimur þeirra voru þau náin. Engin tengsl voru milli fórnarlambs og geranda í tveimur málum.

Tvær konur voru fórnarlömb, en karlmenn átta. Tíu karlmenn voru gerendur, en aðeins ein kona. Í einu máli voru ein kona og tveir karlmenn dæmdir fyrir samverknað og í öðru máli var stúlka undir lögaldri dæmd fyrir brot á hjálparskyldu. Ekki hefur verið ákært í tveimur málanna. 

Hnífur er algengasta morðvopnið, en eggvopni var beitt í þremur málum. Í tveimur málum var skotvopni beitt, í þremur málum var  hnefunum beitt með barsmíðum og/eða spörkum. Í einu málanna er banamein kyrking samkvæmt krufningaskýrslu.

Í einu málinu lést gerandi einnig á vettvangi eftir að hann var yfirbugaður. Maðurinn sem yfirbugaði hann var ekki ákærður og mál gegn honum fellt niður á grundvelli neyðarvarnar.

2021

Armando Beqiri Mynd/Facebook

Armando Beqiri, 32 ára, var skotinn níu sinnum fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Angjelin Sterkaj játaði að hafa banað Armando og var hann dæmdur í 16 ára fangelsi í héraðsdómi, Landsréttur þyngdi dóminn í 20 ár, en Hæstiréttur mildaði hann í 16 ár. 

Samverkamenn Sterkaj, Claudia Sofiu Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi voru sýknuð með dómi héraðsdóms. Selivrada var sagður hafa vísað Carvalho á tvær bifreiðar í umsjón Beqiri sem hún sat fyrir og gerði Sterkaj viðvart um ferðir Beqiri þetta kvöld. Qerimi var sakaður um að hafa ekið Sterkaj að heimili Beqiri.  Landsréttur þyngdi dóminn yfir þeim þremur í 14 ára fangelsi, en Hæstaréttur mildaði dóminn og var Carvalho dæmd í 3 ár, Selivrada í 4 ár og Qerimi í 10 ár. 

Dagsetning: 13. febrúar 2021
Staður: Reykjavík
Fórnarlamb: Armando Beqiri
Gerandi: Angjelin Sterkaj
Samverkamenn: Claudia Sofiu Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi
Dómar: 3, 4, 10, 16 ár

Sjá einnig: Rauðagerðismálið: Morðið sem skók þjóðina – Eitt umfangsmesta morðmál Íslandssögunnar rakið

2022

Magnús Aron Magnússon Mynd:Ernir

Gylfi Bergmann Heimisson, 47 ára, fannst látinn fyrir utan heimili sitt í Barðavogi í Reykjavík. Nágranni hans í sama húsi, Magnús Aron Magnússon, 21 árs, játaði að hafa myrt Gylfa. Magnús bjó hjá móður sinni, sem var á sjúkrahúsi þegar morðið var framið. Gylfi er sagður hafa bankað hjá Magnúsi til að ræða við hann atvik frá kvöldinu áður þar sem Magnús réðist á annan nágranna þeirra.

Kom til átaka þeirra á milli í stigaganginum sem bárust út á malarplan fyrir framan húsið þar sem Magnús ítrekað sparkaði og kýldi Gylfa með þeim afleiðingum að hann lést. Magnús var dæmdur í 16 ára fangelsi í héraðsdómi sem staðfestur var af Landsrétti.

Dagsetning: 4. júní 2022
Staður: Reykjavík
Fórnarlamb: Gylfi Bergmann Heimisson
Gerandi: Magnús Aron Magnússon
Dómur: 16 ár

Sjá einnig: Rafmagnað andrúmsloft við aðalmeðferð í Barðavogsmálinu – „Ég var illa sofinn ég man það, ég var þreyttur afar þreyttur“

Frá vettvangi á Blönduósi. Mynd/Anton Brink

Eva Hrund Pét­urs­dótt­ir, 43 ára var skotin til bana á heimili sínu á Blönduósi og eiginmaður hennar særðist alvarlega í árásinni. Gerandinn Brynjar Þór Scheel Guðmundsson, 35 ára, fannst einnig látinn á vettvangi. 

Brynjar kom inn á heimili hjónana vopnaður afsagaðri haglabyssu og veiðihníf, en fór út þegar sá að gestir voru á heimilinu. Kári gekk út á eftir honum og kom til orðaskipta milli þeirra og skaut Brynjar Kára í kviðinn.Fór Brynjar þar næst aftur inn í húsið og skaut Evu í höfuðið þar sem hún stóð inni í stofu. Sonur hjónanna náði að afvopna Brynjar þegar hann var að endurhlaða byssuna og yfirbuga hann með þeim afleiðingum að hann lést út frá súrefnisskorti. Sonur hjónanna var ekki ákærður og málið fellt niður á grundvelli neyðarvarnar. Lögregla hafði áður haft afskipti af Brynjari vegna hótana í garð hjónanna. 

Dagsetning: 21. ágúst 2022
Staður: Blönduós
Fórnarlamb: Eva Hrund Pét­urs­dótt­ir
Gerandi: Brynjar Þór Scheel Guðmundsson
Dómur: Gerandi lést á vettvangi, sonur hjónanna var ekki ákærður og málið fellt niður á grundvelli neyðarvarnar

Sjá einnig: Rannsókn lokið á skotárásinni á Blönduósi – Farið yfir hryllilega atburðarásina í fréttatilkynningu lögreglu

Héraðsdómur Norðurlands eystra

Tómas Waagfjörð, 47 ára, lét lífið vegna hnífstungu. Hnífinn mætti hann með í íbúð á Ólafsfirði þar sem til átaka kom milli hans og Steinþórs Ólafssonar, 37 ára, sem lyktaði með því að Steinþór stakk Tómas tvisvar sinnum í vinstri síðu. 

Steinþór bar við nauðvörn í átökunum og sagði hann að Tómas hefði verið vopnaður og ráðist á sig að fyrra bragði og að vörn hans hafi ekki verið óhóflega mikil miðað við ofbeldið sem hann hafi orðið fyrir.

Var Steinþór dæmdur í átta ára fangelsi með dómi héraðsdóms og sagði verjandi hans dóminn vonbrigði og honum yrði áfrýjað.

Dagsetning: 3. október 2022
Staður: Ólafsfjörður
Fórnarlamb: Tómas Waagfjörð
Gerandi: Steinþór Einarsson
Dómur: 8 ár

Sjá einnig: Steinþór dæmdur í átta ára fangelsi fyrir manndráp á Ólafsfirði

2023

Myndbandi af árásinni við Fjarðarkaup var dreift á samfélagsmiðlum.

Aðfaranótt föstudagsins 21. apríl fannst Bartlomiej Kamil Bielenda, 26 ára, látinn á bílastæði við verslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Þrír drengir, tveir þeirra undir lögaldri, voru handteknir fyrir að hafa ráðist gegn Bartlomiej með höggum, spörkum og hnífsstungum með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Stúlka undir lögaldri tók árásina upp á síma sinn, en upptakan var lykilsönnunargagn ákæruvaldsins í málinu.

Mun fólkið hafa sameinast í neyslu fíkniefna við borð á Íslenska rokkbarnum án þess fara leynt með neysluna. Athæfið var ekki liðið af starfsfólki staðarins  sem vísaði fólkinu á dyr. Þegar út var komið mun hafa komið upp ósætti milli fólksins, sem snerist um að ungmennin hafi krafið Bartlomiej um greiðslu á þeim efnum sem hann neytti með þeim inni á barnum. Slagsmál hófust sem færðust yfir á bílastæðið við Fjarðarkaup.

Sæmundur Tryggvi Norðquist Sæmundsson, 19 ára, hlaut 10 ára dóm í héraðsdómi, en Landsréttur þyngdi dóminn í tólf ár. Tveir félagar hans undir lögaldri fengu tveggja ára dóm fyrir stórfellda líkamsárás í héraðsdómi en Landsréttur þyngdi dóminn í fjögur ár. Sautján ára stúlka fékk tólf mánaða skilorðsbundinn dóm til fimm ára í héraðsdómi fyrir að koma Bartlomiej ekki til aðstoðar. Landsréttur mildaði hennar dóm í sex mánuði skilorðbundna til fimm ára.

Dagsetning: 20. apríl 2023
Staður: Hafnarfjörður
Fórnarlamb: Bartlomiej Kamil Bielenda
Gerandi: Sæmundur Tryggvi Norðquist Sæmundsson
Samverkamenn: Tveir ónafngreindir karlmenn undir 18 ára aldri, 17 ára stúlka sem tók árásina upp
Dómur: 6 mánaða skilorð, 4 ár, 4 ár, 12 ár

Sjá einnig: Manndrápið við Fjarðarkaup: Þyngsti dómur 10 ára fangelsi

Sofia Sarmite Kolesnikova

Sofia Sarmite Kolesnikova, 28 ára, fannst látin í heimahúsi á Selfossi, en stjúpbræður á þrítugsaldri voru handteknir vegna andláts hennar. Öðrum þeirra var fljótlega sleppt, en hinn sat í gæsluvarðhaldi í langan tíma áður en honum var sleppt. Maðurinn hefur ekki verið ákærður.

Bráðabirgðaniðurstöður krufningar sýndu að líkleg dánarorsök konunnar hafi verið kyrking með hendi.  Í gæsluvarðhaldsúrskurði frá því um miðjan ágúst kemur fram að maðurinn viðurkenndi að hafa fært lík konunnar og þannig spillt vettvangi fyrir rannsakendum.

Rannsókn á andlátinu stendur enn yfir og í lok júní var greint frá að héraðssaksóknari biði enn eftir gögnum erlendis frá. Málið var sent frá lögreglunni á Suðurlandi til héraðssaksóknara í desember síðastliðnum.

Dagsetning: 27. apríl 2023
Staður: Selfoss

Fórnarlamb: Sofia Sarmite Kolesnikova
Gerandi: Enginn hefur verið ákærður
Dómur: Enginn hefur verið ákærður 

Sjá einnig: Selfossmálið:Tilkynnti lát Sofiu tæpum hálfum sólarhring síðar og spillti sönnunargögnum

Maciej Jakub Talik, Myndin var tekin við upphaf réttarhaldanna í október. Mynd: DV/KSJ.

Jaroslaw Stanislaw Kaminski, 46 ára, var stunginn til bana af meðleigjanda sínum, Maciej Jakub Talik, 39 ára. Morðið var framið eftir að mennirnir höfðu setið lengi að sumbli. 

Talik bar við sjálfsvörn, en það var ekki tekið trúanlegt fyrir dómi. Hann sakaði hinn látna einnig um að hafa beitt sig fjárkúgunum. Talik var dæmdur í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Verjandi hans sagðist eiga von á að málinu yrði áfrýjað til Landsréttar.

Dagsetning: 17. júní 2023
Staður: Hafnarfjörður
Fórnarlamb: Jaroslaw Stanislaw Kaminski
Gerandi: Maciej Jakub Tali
Dómur: 16 ár

Sjá einnig: Dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið í Drangahrauni

Karolis Zelenkauskas, 25 ára, lést í kjölfar líkamsárásar á skemmtistaðnum Lúx í Austurstræti. Samkvæmt heimildum töldu vitni að maðurinn hefði látist vegna eins höggs í hnakka frá hinum grunaða. Bráðabirgðakrufning hefur staðfest að banameinið var eitt höfuðhögg.

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn vegna árásinnar, en honum var sleppt úr haldi lögreglu. Enginn hefur verið ákærður vegna málsins, en maðurinn hefur áfram réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins. Í byrjun desember í fyrra var greint frá því að rann­sókn væri í eðli­leg­um far­vegi og málið ekki enn komið á borð héraðssak­sókn­ara.

Dagsetning: 24. júní 2023
Staður: Reykjavík
Fórnarlamb: Karolis Zelenkauskas
Gerandi: Enginn hefur verið ákærður
Dómur: Enginn hefur verið ákærður

Sjá einnig: Staðfest að banamein Karolis var eitt höfuðhögg

Dagbjört Rúnarsdóttir. Mynd: Facebook.

Karlmaður, 58 ára, fannst látinn á heimili sínu í Bátavogi í Reykjavík. Maðurinn var talinn hafa látist af völdum misþyrminga sem stóðu yfir í um sólarhring en fjöldi áverka var á líki mannsins. Sambýliskona hans, Dagbjört Rúnarsdóttir, 42 ára var handtekin, grunuð um að hafa banað manninum. Upptökur fundust á síma hennar sem sýndu pyntingar hennar á manninum.

Dagbjört gat helst gefið þær skýringar á áverkum sem voru á líkinu að hinn látni hafi alltaf verið að detta, sídrukkinn og reikull í spori. Hann hafi meðal annars dottið á höfuðið inni á baðherbergi.

Héraðsdómur komst að þeirri niður­stöðu að Dag­björt væri ekki sek um mann­dráp sam­kvæmt 211. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga. Hún var hins veg­ar dæmd fyr­ir brot á 218. gr. 2. máls­grein þar sem seg­ir:

Hver sem end­ur­tekið eða á al­var­leg­an hátt ógn­ar lífi, heilsu eða vel­ferð nú­ver­andi eða fyrr­ver­andi maka síns eða sam­búðaraðila, niðja síns eða niðja nú­ver­andi eða fyrr­ver­andi maka síns eða sam­búðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með hon­um á heim­ili eða eru í hans um­sjá, með of­beldi, hót­un­um, frels­is­svipt­ingu, nauðung eða á ann­an hátt, skal sæta fang­elsi allt að 6 árum.

Dagsetning: 21. september 2023
Staður: Reykjavík
Fórnarlamb: Dagbjört Rúnarsdóttir
Gerandi: Dagbjört Rúnarsdóttir
Dómur: 10 ár

Sjá einnig: Bátavogsmálið: Dómur kveðinn upp yfir Dagbjörtu

2024

Það sem af er árinu eru málin orðin fjögur og fórnarlömb fimm. Ítrekað er þó það sem sagt var í upphafi að þó að í öllum málum benti atvik á vettvangi og rannsókn til að saknæmt athæfi hafi átt sér stað þá á eftir að ákæra í tveimur málanna. 

Þann 31. janú­ar fannst sex ára dreng­ur lát­inn á heim­ili sínu á Nýbýlavegi í Kópavogi. Móðir drengs­ins hefur verið ákærð fyrir að hafa orðið honum að bana og fyrir tilraun til manndráps gagnvart 11 ára bróður drengsins. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 3. maí.

Sjá einnig: Drengurinn á Nýbýlavegi lést vegna köfnunar

Þann 20. apríl fannst 37 ára gamall karlmaður frá Litháen látinn í sum­ar­húsi í Kiðjabergi, hafði hann verið hér á landi við störf í byggingarvinnu í þrjá mánuði. Fjórir samlandar hans voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en tveimur þeirra var sleppt úr haldi tveimur dögum síðar. Hinir tveir hafa báðir stöðu sakbornings í málinu, í byrjun júní var greint frá að annar sætti farbanni vegna málsins en hinn er afplánar nú eldri fangelsisdómi.

Sjá einnig: Manndráp í Kiðjabergi: Gæsluvarðhald tveggja manna framlengt til 10. maí

Þann 22. apríl fannst kona um fimm­tugt lát­in á heimili sínu í Naustahverfi á Akureyri, en sambýlismaður hennar og barnsfaðri á sjötugsaldri var handtekinn. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa orðið konunni að bana og einnig er hann ákærður fyrir stórfellt heimilisofbeldi gegn konunni á heimili þeirra tveimur mánuðum fyrr. Málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 6. ágúst.

Sjá einnig: Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Í gær fundust hjón á áttræðisaldri látin á heimili sínu í Neskaupstað. Grunur er um að saknæmt afhæfi hafi átt sér stað og var karlmaður handtekinn í Reykjavík seinni partinn í gær. Í dag úrskurðaði dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur karlmanninn í gæsluvarðhald til 30. ágúst.

Sjá einnig: Sá ókunnugan mann ganga inn á heimili hjónanna – „Ég heyrði aldrei nein óp eða öskur“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt