Í viðtalinu var farið um víðan völl og komu útlendingamál meðal annars til umræðu. Bjarni sagði að kostnaður ríkisins við útlendingamál væri hrein sturlun og eitthvað verði að gera til að stemma stigu við því. Inga kveðst í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag vera sammála Bjarna hvað þetta varðar en það var annað sem vakti athygli hennar.
„Það sem kemur hins vegar á óvart er að forsætisráðherra skuli lýsa yfir vanhæfni sinni til að koma í veg fyrir að málin þróuðust í þá átt sem raun ber vitni. Í viðtalinu reyndi Bjarni að skola af sér alla ábyrgð með því að segja:
„Ég spurði margoft spurninga og dómsmálaráðherra fór ítrekað með mál inn í þingið sem enduðu bara í málþófi og menn voru úthrópaðir fyrir að sýna mannvonsku. Það er fyrst núna á undanförnum tveimur árum sem hefur verið hægt að ná einhverjum breytingum í gegnum þingið og stjórnmálin almennt eru að vakna um að þessi þróun getur ekki gengið.“
„Það er ekki hægt að réttlæta þetta lengur gagnvart skattgreiðendum“
Inga vill meina að Bjarni sé að firra sig ábyrgð með ómaklegum hætti.
„Það sætir furðu að formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og þess flokks sem ber langmesta ábyrgð á þeirri þróun sem átt hefur sér stað, skuli virða völd sín og ábyrgð að engu þar sem hann segir „algjörlega óásættanlega“ þróun hafa orðið í útlendingamálum.“
Inga segir að Sjálfstæðisflokkurinn, með aðstoð samstarfsflokka sinna, hafi stuðlað að fjölda róttækra breytinga á útlendingalöggjöfinni undanfarin þrjú kjörtímabil. Bendir hún á að með löggjöf sem lögfest var sumarið 2017 hafi verið innleiddar sérreglur sem gerðu það að verkum að Ísland varð eitt eftirsóknarverðasta land í Evrópu fyrir hælisleitendur.
„Nú keppast fulltrúar Sjálfstæðisflokksins við að afneita sjálfum sér og eigin ábyrgð á löggjöfinni í þeirri veiku von að kjósendur verði búnir að gleyma. Enn og aftur keppast ráðherrar við að firra sig ábyrgð. Við erum flest komin með upp í kok af yfirklóri og bulli.“
Inga segir að þegar allt er komið í skrúfuna og af veikum mætti eigi að freista þess að vinda ofan af ruglinu þá standi samstarfsflokkurinn VG í vegi fyrir því.
„Það er aumkunarvert að horfa upp á hvernig valdagræðgi örfárra er tekin fram yfir velferð samfélagsins í heild sinni. Hvernig verklaus ríkisstjórn sér ekki sóma sinn í því að pakka saman og pilla sig.“
Inga lætur ríkisstjórnina heyra það og líst ekki á blikuna.
„Endalaus töf og samstöðuleysi ríkisstjórnarinnar í breytingum á löggjöfinni um útlendinga hefur kostað almenning tugi milljarða króna árlega. Til að bíta hausinn af skömminni sitjum við í umboði ríkisstjórnarinnar uppi með stórhættulega margdæmda glæpamenn sem ekki er hægt að vísa úr landi þar sem þeir hafa hlotið hér alþjóðlega vernd. Sérreglur þær sem áður eru nefndar tryggja þeim þann rétt. Og enginn axlar ábyrgð frekar en fyrri daginn.“