Eldri hjón fundust látin í heimahúsi í Neskaupstað í nótt. Um þrjúleytið var karlmaður handtekinn eftir mikinn viðbúnað lögreglu við Snorrabraut í Reykjavík.
Maðurinn tengist hjónunum ekki fjölskylduböndum, það staðfestir Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Austurlandi við Vísi.
Sjá einnig: Eldri hjón fundust látin í heimahúsi á Norðfirði – Einn handtekinn vegna málsins í Reykjavík
Karlmaðurinn liggur einn undir grun í málinu, enn á eftir að yfirheyra hann, en Kristján segir sterkar vísbendingar benda til þess að hann tengist málinu. Tengsl mannsins við hjónin er eitt af því sem sé til rannsóknar.
Lögreglan fékk tilkynningu frá íbúum sem voru farnir að undra sig á hjónunum. „Við fáum tilkynningu rétt um klukkan hálf eitt í dag og í kjölfarið berast ábendingar um hver kunni að hafa verið að verki.“
Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi segir að í dag kl. 12:35 barst lögreglu tilkynning um tvo einstaklinga látna í heimahúsi í Neskaupstað. Um íbúa í húsinu var að ræða, hjón á áttræðisaldri. Aðstæður á vettvangi bentu til saknæms athæfis.
„Grunur beindist að einstaklingi sem síðar, eða um klukkan 14 í dag, var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar máls. Gert er ráð fyrir að gæsluvarðhalds verði krafist.
Vettvangsrannsókn stendur yfir og nýtur lögreglan þar aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og réttarmeinafræðings.
Við eftirgrennslan og handtöku grunaðs naut lögreglan á Austurlandi aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurlandi og Suðurnesjum, auk sérsveitar ríkislögreglustjóra og þyrlusveitar Landhelgisgæslu. Aðstoð var og veitt í kjölfar atburðar frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.“