fbpx
Fimmtudagur 22.ágúst 2024
Fréttir

Dagur er fokvondur: „Einhver vanstilltasti og orðljótasti leiðari Morgunblaðsins sem ég hef lesið“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. ágúst 2024 14:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra og núverandi formanni borgarráðs, var ekki hlátur í huga þegar hann las leiðara Morgunblaðsins í dag. Í leiðaranum er farið hvössum orðum um Dag og hann meðal annars kallaður „orlofssuga“ og „orlofssugu óhemja“.

Dagur tjáir sig um leiðarann á Facebook-síðu sinni og segir meðal annars:

„Enn einn – en þó einhver vanstilltasti og orðljótasti leiðari Morgunblaðsins sem ég hef lesið birtist í morgun. Tilefnið ætti að vera ánægjuefni. Óvissunni hefur eytt um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með undirritun í gær. Ritstjórinn ræður sér ekki fyrir bræði – eignar mér greinilega heiðurinn af þessum tíðindum – en textinn er hlaðinn óbótaskömmum í minn garð,“ segir Dagur sem spyr hvort hlæja eigi eða gráta.

„Ég veit að fáir lesa leiðara-rausið í Mogga. En ég þurfti að lesa tvisvar í morgun til að fullvissa mig um að upphafsorðin væru sannarlega: „Yfirgengilega orlofssugan Dagur B. Eggertsson“.“

Orðið á götunni: Leiðarahöfundur Morgunblaðsins kastar grjóti úr glerhúsi

Í leiðaranum er skrifað um samgöngusáttmálann en jafnframt vegið að Degi vegna frétta um orlofsmál hans sem verið hafa talsvert í umræðunni síðustu daga.

„Þegar upp komst um strákinn Dag B. og hvernig hann hefði hagað sér, er hann saug ólöglegar orlofsgreiðslur til sín og sinna upp úr botnlausum borgarsjóði, sem hann hafði gert gjaldþrota, þá svaraði hann, eins og aðeins sá einn getur, sem kann ekki að skammast sín. Hann sagði að þessar ótrúlegu orlofsgreiðslur til sín hefðu komið „algjörlega sjálfvirkt“,“ segir meðal annars í leiðaranum.

Rangur og villandi fréttaflutningur

Í færslu sinni á Facebook segir Dagur að fréttaflutningur Morgunblaðsins varðandi orlof hans sé beinlínis rangur og villandi. Vísar hann í frétt RÚV í gærkvöldi um orlofsuppgjör sveitarstjóra á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kom að farið sé að sömu reglum varðandi orlofsuppgjör alls staðar, uppgjörin séu sambærileg í alla staði. Þannig séu dæmi um sambærileg uppgjör í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ.

„Það stendur ekki steinn yfir steini í fréttum Morgunblaðsins,“ segir Dagur og bætir við að sjálfsagt sé að fjalla um launakjör og orlofsmál.

„Það sem afhjúpast hins vegar  þegar Rúv fjallar um sambærileg mál af fagmennsku og yfirsýn er að fréttir Morgunblaðsins undanfarna daga eru ekki blaðamennska til að koma réttum upplýsingum á framfæri heldur hluti af herferð. Hún er ekki ný og takmarkast ekki við skammir í minn garð en hefur versnað og orðið svæsnari undanfarna mánuði og misseri. Í orlofsmálinu blasir við að blaðið hefur frá upphafi vitað betur en svo að mitt orlofsuppgjör hafi skorið sig frá öðrum en leynir því vís vitandi í öllum sínum fréttum. Og gerir enn.“

Blaðið er breytt

Dagur segir alrangt að hann hafi fengið greitt orlof tíu ár aftur í tímann. „Það er vissulega verið að gera upp eftir tíu ár í embætti en einsog gögn málsins bera með sér voru fluttir 48 orlofsdagar frá fyrri árum. Orlofsréttur hvers árs eru 30 dagar þannig að þetta er eitt og hálft ár aftur í tímann en ekki tíu. Orlofsréttur fyrstu átta og hálfa ársins hefur verið fullnýttur. Mjög svipaða sögu er að segja af öðrum bæjarstjórum, skv. frétt RÚV. Og sérfræðingar í vinnurétti hafa vitnað um það í fréttum síðustu daga að þessi afgreiðsla mála sé ekki óalgeng þegar stjórnendur eru annars vegar. Hjá Reykjavíkurborg lítur allt starfsfólk sömu reglum.“

Dagur kveðst ekki gera sér vonir um að Morgunblaðið leiðrétti fréttir sínar, blaðið sé í allt öðrum leiðangri og hann tengist ekki blaðamennsku.

„Fréttir Morgunblaðsins síðustu daga og vinnubrögðin þeim að baki undirstrika einnig að það er mikilvægt að aðrir fjölmiðlar og almenningur átti sig á því að þetta gamla blað er breytt. Það er ekki hægt að taka upp eða vísa í umfjöllun blaðsins um mál sem tengjast pólitík eða þjóðmálum án þess að gera sjálfstæða athugun á heimildum eða efnisatriðum. Því miður eru líkur á að þetta muni frekar versna en batna nú í aðdraganda þingkosninga.“

Dagur er ómyrkur í máli í garð Morgunblaðsins og segir ekki skrýtið að lestur þess fari minnkandi. Spyr hann hvort við getum ekki virkilega staðið saman um að uppnefni eigi ekki heima í opinberri umræðu.

Færsluna endar Dagur svona:

„Mín niðurstaða er þessi: Morgunblaðið er gjörbreytt. Ritstjórnargreinar, leiðarar og Staksteinar eru á vægast sagt lágu plani og það sem verra er: Í ákveðnum tegundum frétta og umfjöllunar blasir við að blaðið hefur ýtt faglegum og hefðbundnum vinnubrögðum blaðamennsku til hliðar í þágu pólitískra markmiða og til að þjóna lund og ólund ritstjóra og lítils hóps blaðamanna sem eitra út frá sér. Ég finn til með fagfólkinu sem er sannarlega fjölmargt og vinnur enn á blaðinu. Það hlýtur að hugsa sitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Úkraínumenn eyðilögðu þrjár mikilvægar brýr í Rússlandi

Úkraínumenn eyðilögðu þrjár mikilvægar brýr í Rússlandi
Fréttir
Í gær

Máttu neita barni um skólaakstur

Máttu neita barni um skólaakstur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Braut framrúðu með slökkvitæki og stakk eigandann með hnífi

Braut framrúðu með slökkvitæki og stakk eigandann með hnífi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þjóðverjar „loka ríkissjóði“ fyrir Úkraínu

Þjóðverjar „loka ríkissjóði“ fyrir Úkraínu