Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt tvö myndbönd í aðdraganda þess að rafbyssur verða teknar í notkun. Annað fjallar einvörðungu um þær en hitt um allan búnaðinn sem lögreglumenn bera.
„Það sem rafvarnarvopnið gerir er að það heftir tímabundið viljastýrðar vöðvahreyfingar einstaklinga í fimm sekúndna hrinum. Að þessum fimm sekúndum loknum rýfur rafvarnarvopnið strauminn sjálfkrafa þannig að það er ekki eitthvað sem við þurfum að muna eftir í mjög streituvaldandi aðstæðum heldur gerist það bara sjálfkrafa,“ segir lögreglukona í myndbandinu sem birt var á Youtube í dag.
Lögregluembættin fá rafbyssur, sem kallaðar eru „rafvarnarvopn“ í myndböndunum, í byrjun september. Rafbyssuvæðingin hefur verið mikið til tals á undanförnum árum og skiptist fólk í hópa á með eða móti. Samkvæmt könnun styðja um 50 prósent að lögreglumenn beri rafbyssur en 30 prósent eru mótfallin.
Í öðru myndbandinu er greint frá því að lögreglan muni nota vopn að gerðinni Taser 10. Sagt er að þetta séu nýjustu og öruggustu vopnin á markaði sem hafi jafn framt lægri spennu en eldri gerðir. Aðeins menntaðir lögreglumenn sem hafi farið á námskeið beri slík vopn.
Rafbyssurnar geri lögreglumönnum kleift að beita valdi úr meiri fjarlægð, það er úr allt að 12 metra fjarlægð. Það veiti bæði lögreglumönnum og öðrum borgurum meira öryggi ef ekki þurfi að fara í návígi við hættulega einstaklinga til að handtaka þá.
Lýst er fimm stigum í stigmögnun valdbeitingar, það er tilraun til að lækka spennustigið í aðstæðunum. Fyrsta skrefið er að tilkynna viðkomandi að lögreglumaður sé með rafbyssu. Annað skrefið er að taka hana úr slíðrinu og sýna viðkomandi hana. Þriðja skrefið er að taka öryggið af og ræsa tækið. Fjórða er að senda viðvörunarhljóð úr rafbyssunni.
„Þetta sýnir að okkur er alvara um að beita tækinu,“ segir í lögreglukonan í myndbandinu og leyfir áhorfendum að heyra hvernig þetta hljóð er.
Fimmta stigið er svo að beita rafbyssunni. Þá er að minnsta kosti tveimur pílum skotið í einstaklinginn. Þessar pílur verða að rjúfa húðina og ná tengingu í líkamanum til þess að raflömunin geti átt sér stað.
Þegar rafbyssan er tekin úr slíðrinu fer búkmyndavélin sjálfkrafa í gang og tekur upp. Þetta á að auðvelda allt eftirlit með notkun rafbyssanna. Dómsmálaráðherra hafi þegar skipað nefnd sem fari yfir hvert einasta tilfelli sem rafbyssa komi við sögu, ekki aðeins þegar þeim sé beitt.
Segir lögreglukonan að það sé skiljanlegt að almenningur hafi áhyggjur af þessu nýja valdbeitingartæki og því sé mikilvægt að kynna virknina. Það sé hins vegar trú lögreglunnar að þessi vopn verði lítið notuð, rétt eins og önnur valdbeitingartæki lögreglunnar.
Í hinum myndbandinu fer lögreglumaður yfir helstu tæki og tól sem lögreglumenn bera á sér. Það er skot og stunguhelt vesti, talstöð, búkmyndavél, verkfæri, sjúkrabúnað, vasaljós og valdbeitingartæki eins og handjárn, piparúða, kylfu og rafbyssu.