„Í dag var minn fyrsti heili dagur á Íslandi og ég eyddi deginum í og við borgina. Mér tókst samt að taka kjánalega ákvörðun sem var að hluta til mér að kenna og að hluta til óheppni,“ segir ferðamaðurinn sem var á ferð með kærustu sinni.
Eins og flestir Íslendingar eflaust vita er mikilvægt að fara varlega þegar farið er út á Gróttu enda geta sjávarföll haft mikil áhrif. Grótta er nefnilega í raun eyja sem er tengd við land af mjóum granda og fer hún á kaf í flóði. Þessu áttaði ferðamaðurinn sig ekki á.
„Ég rak augun í Gróttuvita á Google Maps og sá að þessi staður var með fínar umsagnir svo ég ákvað að kíkja þangað,“ segir hann.
Hann segir að á svæðinu hafi verið talsvert af fólki sem lagði leið sína að vitanum. Hann segir að hann og kærastan hans hafi farið yfir en tekið eftir því að sjórinn var kominn nokkuð nálægt gönguleiðinni yfir. Þetta töldu þau eðlilegt en áttuðu sig ekki á því að það var að koma flóð.
Eftir um hálftíma dvöl við vitann var komið að því að halda til baka og þegar ferðin var hálfnuð var sjórinn kominn nánast yfir gönguleiðina og virtist yfirborðið hækka með hverri sekúndunni. „Það rann upp fyrir okkur að ef við kæmumst ekki til baka myndum við sitja föst við vitann og sennilega þurfa að hringja eftir aðstoð.“
Maðurinn segir að þau hafi drifið sig yfir en það gekk ekki slysalaust fyrir sig. „Ég rann alls fjórum sinnum og hruflaði mig á leggnum, hnjánum, ökklunum og höndunum og fór nánast á bólakaf í hvert skipti sem ég rann. Ég var í vatnsheldum fatnaði en hann er augljóslega ekki hannaður fyrir sjósund,“ segir maðurinn og bætir við að kærastan hafi komist yfir að mestu slysalaust.
Maðurinn segir að lokum að það þurfi að vera skýrari merki á svæðinu um að fólk þurfi að passa sig á flóðum.
„Var ég vitlaus að fara yfir og átta mig ekki á því að ég gæti lent í vandræðum? Mögulega. Það er alveg rétt að ég hafði ekki kynnt mér flóðatöflur en maður telur að þetta sé nokkuð öruggt þegar maður sér fullt af fólki, jafnvel börn, ganga þarna út. Það var meira að segja skokkari sem yfirgaf svæðið um 10 mínútum á undan okkur.“
Maðurinn segir að lokum að það sem er mest pirrandi er að hann var búinn að plana gönguferðir um landið næstu tvær vikurnar en nú þegar hann er meiddur á fleiri en einum stað séu þær áætlanir í uppnámi. „Ég verð að vona að ég nái mér svo ég geti notið ferðarinnar. Ég hvet aðra til að skoða flóðatöflur áður en þeir halda út í vitann. Hann er mjög fallegur.“