fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Segir að ekki eigi að refsa kindum fyrir lausagönguna – Miklir áverkar á fjölda kinda eftir hundsbit

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 20. ágúst 2024 13:30

Áverkar á júgrum kinda sem þær hlutu nýlega eftir hundsbit. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega kom upp atvik á ónefndum stað hér á landi þar sem hundur komst í návígi við hóp kinda sem var í hefðbundinni sumarbeit. Eftir fjölda bita hundsins stórsá á mörgum þeirra einkum á júgrunum og voru áverkarnir á hluta hópsins svo miklir að aflífa þurfti þær kindur. Fyrrverandi formaður Dýraverndarsambands Íslands segir sum viðbrögð við frásögn hennar af atvikinu séu áminning um að það eigi ekki að refsa kindum fyrir lausagöngu um landið með því að telja það ásættanlegt að hundar komist í þær.

Hallgerður Hauksdóttir fyrrverandi formaður Dýraverndarsambandsins vakti athygli á málinu á samfélagsmiðlum og birti myndir sem hún fékk sendar frá eiganda kindanna. Í samtali við DV segist hún hafa litlar upplýsingar um atvikið eins og til að mynda hvar á landinu það gerðist og hvernig það kom til að hundurinn komst í tæri við kindurnar. Eigandi umræddra kinda vildi ekki ræða málið opinberlega en veitti leyfi sitt fyrir því að myndir af áverkum þeirra yrðu birtar með þessari frétt. Hallgerður segir þetta tiltekna atvik hins vegar vera langt frá því það eina af þessu tagi sem átt hafi sér stað undanfarin misseri.

Fleiri myndir af áverkunum á kindunum.

Geti ekki leikið sér saman

Hallgerður segir atvik af þessu tagi oft eiga sér stað með þeim hætti að hundar séu á ferð með eigendum sínum á dreifbýlli svæðum landsins að sumri til á sama tíma og kindur eru í hefðbundinni sumarbeit út um allt land. Hundarnir fái þá oft að ganga lausir og fari jafnvel á flakk í nokkra klukkutíma án þess að eigendur þeirra viti nákvæmlega hvað þeir séu að gera en þá komist þá á þessu flakki í tæri við kindur og fari að eltast við þær og um leið bíta. Hundarnir líti líklega á að um leik sé að ræða og það sé viðkvæðið hjá sumum eigendum þegar hegðun hundanna sé hermd upp á þá og einnig hjá öðrum sem sjái ekki ástæðu til að gera mikið úr slíku athæfi hjá hundum.

Hallgerður segir það lýsa vanþekkingu á þessum dýrategundum að halda því fram að það gangi alveg upp að hundar leiki sér með því að eltast við kindur og bíta í þær. Ólíkt hundum þá leiki kindur sér ekki með því að hlaupa heldur hlaupi þær aðallega ef þær séu hræddar og séu að forða sér. Auk mála þar sem hundar hafa bitið kindur segist Hallgerður þekkja dæmi þess að kind hafi örmagnast eftir hlaup undan hundi og það hafi dregið hana til dauða. Hallgerður segir einnig að það atvik sem hér um ræðir sé ekki það grófasta sem hún viti um. Fyrir nokkru hafi tveir hundar sem voru á einhverju flakki frá eigendum sínum komist í sauðfé, meðal annars lömb, og bitið það svo illa að þeir hafi nagað heilu stykki úr skrokkum skepnanna.

Lausagangan réttlæti ekkert

Lengi hefur verið deilt um lausagöngu sauðfjár á Íslandi. Til að mynda eru margir landeigendur sem halda ekki sauðfé ósáttir við að kindur í eigu annarra séu að valsa um þeirra land og gæða sér á gróðri þar. Í sumum athugasemdum við færslu Hallgerðar má lesa sjónarmið af þessu tagi að kindurnar sem urðu fyrir bitunum hafi líklega verið einhvers staðar þar sem þær áttu ekki að vera og passa þurfi betur upp á kindur en ekki bara hunda:

„En getum við líka sett ábyrgðina á bændurna? Af hverju mega kindur valsa um mitt land þar sem ég bý í sveit …  og ef minn hundur fer í þá kind, þá er það samt hundurinn sem er í órétti. Af hverju eru bændur stikkfríir gagnvart sínum skepnum? En við hundaeigendur erum alltaf skyldugir að passa okkar skepnur?“

„Ég er sammála því að hundaeigendur þurfi að bera meiri ábyrgð á sínum hundum. Það er allt of mikið af fólki sem sleppir hundunum sínum án þess að pæla nokkuð í umhverfinu og það er mikið vandamál, ekki bara fyrir kindur heldur líka fyrir aðra hunda. En ég er líka sammála því sem margir benda á hér að bændur ættu að passa betur uppá féð sitt. Það er ósanngjarnt að hundaeigendur geta hvergi farið í lausagöngu í góða veðrinu af því að það eru kindur alls staðar og enginn að fylgjast með þeim.“

Hallgerður bendir á að deilur um lausagöngu og hvar kindur megi vera á beit réttlæti það ekki að þær þjáist með þessum hætti. Mannfólkið eigi að leysa úr slíkum deilum án þess að það bitni á heilsu dýranna. Þau skilji ekki landamörk. Hallgerður tekur undir þau sjónarmið að vissulega geti það verið á ábyrgð eigenda sauðfjár að halda þeim innan girðingar en bendir á að kindur hafi oft verið ansi lunknar við að koma sér framhjá girðingum.

Hallgerður segir að þó vísað sé til lausagöngu sauðfjár þegar greint er frá atvikum af því tagi sem hér um ræðir séu þó flestir á því að það eigi ekki að valda dýrum óþarfa þjáningum:

„Fólk vill að farið sé vel með dýr.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Ágreiningur í VG um aðild Íslands að NATO: Svandís vill út en Finnur segir það ekki tímabært

Ágreiningur í VG um aðild Íslands að NATO: Svandís vill út en Finnur segir það ekki tímabært
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kona á Vesturlandi óttaðist um líf sitt þegar eiginmaðurinn beindi að henni haglabyssu – „Ég kvaddi börnin mín í huganum“

Kona á Vesturlandi óttaðist um líf sitt þegar eiginmaðurinn beindi að henni haglabyssu – „Ég kvaddi börnin mín í huganum“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum
Fréttir
Í gær

Formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ lést í Tungufljóti

Formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ lést í Tungufljóti
Fréttir
Í gær

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Í gær

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum