Fjölmiðlamaðurinn Sigurjón M. Egilsson rifjar upp sögu af Guðna Th. Jóhannessyni fyrrverandi forseta Íslands í færslu á samfélagsmiðlum. Sögu sem sýnir óvænta kunnáttu hans.
Sigurjón rifjar upp eitt skipti þegar Guðni kom í sjónvarpsviðtal til Sigurjóns á stöðina Hringbraut, en þar var Sigurjón lausamaður á meðan hún lifði. Þetta var snemma á árinu 2022, eftir að Rússar höfðu ráðist inn í Úkraínu.
„Katrina var förðunarmeistari Hringbrautar. Þegar forsetinn mætti vísaði ég honum veginn til Katrinu og sagði: „Guðni, þessi ágæta kona er frá Úkraínu.“ Guðni þótti það nokkuð merkilegt,“ segir Sigurjón. „Ég heyrði þegar Guðni bað fyrir bestu kveðjur til ættingja Katrinu í Úkraínu.“
Sigurjón nefnir að móðurmál Katrinu sé rússneska.
„Þegar upptakan var búinn og Guðni farinn til annara starfa spurði ég Katrinu hvort þau hafi ekki spjallað vel saman,“ segir Sigurjón. „Jú, heldur betur, sagði hún. Við töluðum saman á rússnesku. Og var Guðni ágætur í rússnesku? Já, sagði hún og þótti gaman að hitta Guðna forseta og gekk næst til að senda sínu fólki í Úkraínu kveðjur frá forseta Íslands.“