Birgir skrifar um málið í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Nú er sótt að kirkjugörðum landsins, helgum kristnum grafreitum þjóðarinnar í þúsund ár. Krossinn skal víkja úr merki Kirkjugarða Reykjavíkur segir framkvæmdastjórinn í undarlegu viðtali í sjónvarpsfréttum RÚV. Í staðinn skal setja laufblað, sem minnir þá helst á garðyrkjustöð.“
Birgir veltir fyrir sér hver hafi beðið um þennan gjörning. Ljóst sé að ekki hafi verið uppi almennur vilji eða krafa borgarbúa um að fjarlægja skyldi krossinn, enginn undirskriftarlisti hafi gengið eða mótmæli farið fram.
„Ég veit satt best að segja ekki um neinn sem hefur verið að velta þessu fyrir sér eða misst svefn yfir krossinum í merkinu. Verst þykir mér þó að okkar nýkjörni biskup skuli leggja blessun sína yfir málið.“
Birgir segir að ef kirkjan ætlar að viðhalda sinni undanlátssemi og eltast við „svokallaðan tíðaranda“ megi benda á að það geti varla talist tíðarandi þegar enginn er að velta fyrir sér merki Kirkjugarða Reykjavíkur.
„Kannski fulltrúi Siðmenntar í stjórn kirkjugarðanna hafi beitt sér fyrir að krossinn skyldi fjarlægður. Allir vita hvar Siðmennt stendur gagnvart kirkjunni og kristinni trú. Eftir stutta rannsóknarvinnu komst ég að því að á aðalfundi Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma í maí sl. var ákveðið að krossinn skyldi víkja. Ekkert stórmál í augum fundarmanna enda málið hespað af í lok fundar undir liðnum „önnur mál“. Í fundargerð segir: „Kirkjugarðarnir eru að þróast úr því að vera algjörlega formfastir út í að vera multicultural og multifunctional garðar.“ Stjórnin er orðinn svo fjölmenningarlega sinnuð að hún getur ekki einu sinni tjáð sig á íslensku,“ segir Birgir ómyrkur í máli.
Hann vísar svo aftur í fundargerðina þar sem segir að „að merkið hafi verið sýnt í nokkrum útfærslum og að merkingu í kirkjugörðunum sé ábótavant“. Segir Birgir að stjórnina hafi langað að uppfæra þær svo fólk sé „boðið velkomið í garðana“.
„Ekki veit ég til þess að almenningur hafi ekki verið velkominn í kirkjugarðana, ef svo væri þá er það saga til næsta bæjar. Þetta er hugarburður stjórnar. Kannski stjórninni hafi þótt krossinn í merkinu fráhrindandi. Lítur stjórnin ef til vill svo á að hann sé orðinn tákn um það að fólk sé yfirhöfuð ekki velkomið? Varla er hægt að skilja þetta á annan veg þótt fjarstæðukennt sé.“
Birgir segir ekkert óeðlilegt við það að á stærri stöðum sé pláss innan marka grafreits fyrir aðra en kristna.
Það er eðlilegt og þannig er það og hefur verið alveg stórmeinalaust hingað til. Það er hins vegar mikill minnihluti grafreita og réttlætir ekki að fjarlæga þurfi krossinn úr merkinu. Eigum við kannski von á því að krossinum verði skipt út á kirkjum landsins fyrir laufblað, svo þeir sem ekki eru kristnir geti einnig átt þar athvarf?“
Bendir hann á að í Gufuneskirkjugarði sé sérstakur grafreitur fyrir múslima, þá sem eru bahá’í-trúar og ásatrúar auk þess sem þar er óvígður grafreitur. Ekki sé annað vitað en að grafarró ríki í Gufuneskirkjugarði.
„Í lokin má svo minna framkvæmdastjórann og stjórn Kirkjugarða Reykjavíkur á að við erum kristin þjóð og krossinn er tákn kristninnar,“ segir Birgir að lokum.