fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Telja óheppilegt að bæjarstjórinn og einn æðsti yfirmaður Seltjarnarnesbæjar séu hjón – Þór kemur af fjöllum og segir að ekki verði hróflað við eiginkonunni

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 09:00

Þór og María Björk eru með aðstöðu í tveimur stóru hornskrifstofunum í rýminu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil óánægja er sögð krauma undir hjá starfsfólki bæjarskrifstofu Seltjarnarnes vegna þeirrar staðreyndar að tveir æðstu yfirmenn bæjarins eru hjón. Þór Sigurgeirsson tók við sem bæjarstjóri Seltjarnarness fyrir tveimur árum en þar hitti hann fyrir eiginkonu sína, Maríu Björk Óskarsdóttur, sem gegnir stöðu sviðsstjóra þjónustu og samskiptasviðs. Fyrir utan mögulega hagsmunaárekstra að tvær æðstu stöðurnar séu skipaðar hjónum þá hefur það haft neikvæð áhrif á vinnustaðamenningu skrifstofunnar.

DV bárust ábendingar um að gert hafi verið samkomulag um að María Björk myndi að loknum aðlögunartíma hverfa til annarra starfa eftir kosningarnar en það hafi ekki raungerst. Bæjarstjórinn vísar því alfarið á bug að slíkt samkomulag hafi verið til staðar og segir að ekki verði hróflað við eiginkonunni úr starfi.

Samkomulag með aðlögunartíma

María Björk var ráðinn inn í stöðu sviðsstjóra fyrir sjö árum síðan. Það var í tíð Ásgerðar Halldórsdóttur sem sat í 20 ár sem bæjarstjóri en gaf ekki kost á sér í síðustu bæjarstjórnarkosningum, í maí 2022.

Það gerði hins vegar Þór Sigurgeirsson, eiginmaður Maríu Bjarkar, sem leiddi lista Sjálfstæðismanna til sigurs í kosningunum. Eins og undanfarna áratugi fékk Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta.

Strax varð ljóst að hagsmunaárekstur yrði þegar Þór tæki við sem bæjarstjóri. Það hafi aðrir í meirihlutanum séð fyrir. DV bárust upplýsingar um að handsalað hefði verið samkomulag um að María Björk hyrfi til annarra starfa en þó yrði gefinn aðlögunartími, um sex mánuðir. Starfsfólk bæjarskrifstofunnar hafi verið  meðvitað um þetta.

Nú eru hins vegar liðin tvö ár og þrír mánuðir og ekkert fararsnið virðist á Maríu Björk. Staða sviðsstjóra hefur aldrei verið auglýst á þessum tíma. Kemur þetta starfsfólki á óvart og hermt er, eins og áður segir, að neikvæðra áhrifa sé farið að gæta á vinnustaðamenninguna.

Vinnustaðamenningin gjörbreytt

Samkvæmt heimildum DV hefur óánægjan verið viðvarandi hjá starfsfólki allan þennan tíma. Þyki ástandið ekki eðlilegt og ekki sé auðvelt að starfa á opinberum vinnustað þar sem hjón eru í tveimur æðstu stöðunum.

Þór og María Björk eru með aðstöðu í tveimur stóru hornskrifstofunum í rýminu. Hlutir eins og kaffistofumenning og menning á vinnustaðnum almennt hefur gerbreyst. Það er hvernig fólk þorir að tala og við hvern. Starfsfólk er ringlað yfir því hvernig það eigi að snúa sér þegar mál koma upp. Ekki sé lengur hægt að tala við bæjarstjóra þegar eitthvað mál komi upp tengt sviðsstjóra.

Einn starfsmaður nefnir að hann finni stundum fyrir pirringi á milli hjónanna þegar þau mæti til vinnu, ef þau eru þannig stemmd. Þá verður öðruvísi stemning og vandræðalegri á vinnustaðnum þann daginn. Annað starfsfólk eigi ekki að þurfa að vera með nefið ofan í svona hlutum. Það yrði strax skárra ef skrifstofa Maríu Bjarkar yrði færð úr rýminu.

Þá er nefnt að það sé einnig meiri losarabragur á hlutunum núna en í bæjarstjóratíð Ásgerðar. Viðvera sé minni og meiri hentisemi höfð á hlutunum.

Bera harm sinn í hljóði

Kvartanir hafa borist til bæjarstjórnar vegna þessa máls en það hefur þó ekki verið rætt fyrir opnum tjöldum á fundum. Bæði fulltrúar meirihlutans og minnihlutans eru meðvitaðir um óánægju starfsfólksins.

Þykir fulltrúum meirihlutans ástandið ekki þægilegt en virðast frekar ætla að bera harm sinn í hljóði en að taka skrefið og þrýsta á Þór um efndir samkomulagsins.

Einnig þykir málið viðkvæmt út frá kynjasjónarmiði. Það er að eiginkonan þurfi að hætta sínum ferli innan embættismannakerfi Seltjarnarnesbæjar vegna þess að karlinn sé mættur á svæðið.

Ekkert út á fyrirkomulagið að setja

Þór Sigurgeirsson segist koma af fjöllum varðandi óánægju á meðal starfsfólks eða að ástandið sé nokkuð óeðlilegt.

„Ég hef ekki heyrt af því. Það er ágætismórall hér og ekkert út á þetta fyrirkomulag að setja,“ segir hann.

Hafnar hann því algerlega að nokkuð samkomulag hafi verið gert um starfslok Maríu Bjarkar eftir kosningarnar 2022.

„Hún er embættismaður hjá bænum og það má ekkert hrófla við því,“ segir Þór.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!