fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Kona vann dómsmál gegn Selfossveitum – Borgaði aðeins helming heitavatnsreikningsins vegna þess að henni þótti vatnið of kalt

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 14:00

Þórey og maður hennar voru ekki sátt við breytinguna og neituðu að borga nema helming.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona að nafni Þórey Pálsdóttir hefur verið sýknuð af kröfum Sellfossveitna vegna heitavatnsreikninga sem hún neitaði að borga að fullu. Taldi hún að heita vatnið væri of kalt og því væri um gallaða vöru að ræða. Greiddi hún aðeins 15 þúsund krónur á mánuði þegar reikningurinn var tvöfalt hærri.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Suðurlands þann 24. júlí síðastliðinn en hefur nú verið birtur á vefsíðu héraðsdómstólanna.

Selfossveitur, sem eru í eigu sveitarfélagsins Árborgar, kröfðust rúmlega 445 þúsund króna auk vaxta frá árinu 2019 vegna ógreiddra heitavatnsreikninga en Þórey krafðist sýknu og málskostnaðar.

Frumbyggjar í hverfinu

Forsaga málsins er sú að Þórey og eiginmaður hennar fluttu í hús við Norðurbraut í hverfinu Tjarnarbyggð í Kaldaðarnesi, títt nefnt Búgarðabyggð, árið 2007. Voru þau frumbýlingar í því hverfi, sem er um 4 kílómetrum austrar en Selfoss.

Fyrstu sjö eða átta árin var heitavatnskostnaður áætlaður út frá kostnaði við sams konar hús á Selfossi. Var þetta gert vegna þess að hverfið var nýtt og erfiðlega gekk að tryggja nægan hita á vatninu. Uppbygging hverfisins gekk hægt, meðal annars vegna bankahrunsins. Voru heitavatnsreikningar hjónanna greiddir skilvísilega á meðan kostnaðurinn var áætlaður.

Í bréfi framkvæmdastjóra Selfossveitna frá árinu 2006 kemur fram að gert sé ráð fyrir 63 gráðu hita í hverfinu en á meðan uppbyggingu stendur lægri. „Selfossveitur munu tryggja nægan inntakshita fyrir húshitunarkerfi sem hönnuð eru fyrir 55°C, á meðan uppbyggingartíma Tjarnarbyggðar stendur,“ segir í bréfinu.

Reikningurinn tvöfaldaðist

Spólum fram til ársbyrjunar 2016 þegar Selfossveitur tilkynntu Þóreyju að breytingar yrðu gerðar á notkunargjöldum hitaveitunnar. Það er að tekin yrði upp rúmmálsmælingar, áætlaðar út frá álestri undanfarinna ára. Þessi breyting myndi taka gildi um sumarið.

Þórey mótmælti þessu strax enda þýddi breytingin tvöföldun á heitavatnsreikningnum. Sagði hún inntakshita vatnsins aðeins vera um 40 gráður og farið mun neðar nema umtalsvert vatn væri látið renna í gegnum gólfhitakerfið. Húsið stæði í botnlanga og langt væri í næstu hús. Ef Selfossveitur gætu ekki aflað heitara vatni þá yrði áfram að miða við fyrri áætlun.

Ekki forsvaranlegt að rukka rúmmál

Fóru nú fram miklar bréfaskriftir á milli hjónanna og Selfossveitna. Nefndu þau að Selfossveitur hefðu skuldbundið sig til að afhenda 55 gráðu heitt vatn. Ekki væri forsvaranlegt að rukka fyrir rúmmál. Selfossveitur töldu sig hins vegar ekki hafa lofað 55 gráðu heitu vatni, það hefðu einungis verið hönnunarviðmið.

Kom pípari frá Selfossveitum til að mæla hitann og sagði eiginmaður Þóreyjar hann hafa staðfest að hitinn væri talsvert undir 51 gráðu. Seinna voru gerðar síritamælingar sem sýndu mjög rokkandi hitastig.

Í ársbyrjun 2017 var Þóreyju tjáð að breytingar yrðu gerðar á afhendingu heits vatns á köldum stöðum í hverfinu. Það er að komið yrði fyrir hemli og notendur gætu keypt fyrir fram ákveðinn fjölda lítra. Með slíkri útfærslu væri hægt að halda hita á vatninu. Rúmmálsrukkunin gilti hins vegar áfram.

Slíkur hemill var hins vegar ekki settur upp í heimilið að Norðurbraut þar sem ágreiningur var um hversu margir lítrar skyldu vera á honum.

Neituðu að greiða nema hluta

Þegar ljóst var að ágreiningurinn var óbrúanlegur ákváðu Þórey og maður hennar að greiða mánaðarlega 15 þúsund krónur, sem væri eðlilegur upphitunarkostnaður sambærilegrar fasteignar á þjónustusvæði Selfossveitna. Í eitt skipti 75 þúsund krónur þó. Selfossveitur héldu hins vegar áfram að gefa út tvöfalt hærri reikninga.

Svona gekk þetta í nokkur ár þar til hjónin seldu fasteignina í ársbyrjun 2020. Þremur árum eftir það, í apríl árið 2023, barst Þóreyju hins vegar innheimtuaðvörun og innheimtubréf vegna ógreiddra heitavatnsreikinga. Var mál svo höfðað gegn henni í júní það ár.

Engin samskipti í fimm ár

Dómari féllst ekki á þau sjónarmið að Selfossveitur hefðu lofað að tryggja 55 gráðu inntakshita í hverfinu heldur að það hefði verið viðmið. Þá hafi samkvæmt síritamælingu, sem lögð var fram, mælst á bilinu 46,6 til 57,8 gráðu inntakshiti í húsinu, með meðalhita 52 gráður þegar veður var kalt. Taldi dómari því ekki að vatnið væri gölluð vara eins og Þórey hélt fram.

Hins vegar taldi dómari að Selfossveitur hefðu sýnt af sér tómlæti við innheimtu í málinu. Frá árinu 2018 til 2023, eða í fimm ár hafi engin samskipti verið á milli hjónanna og Selfossveitna utan sjálfvirkra reikninga. Tekið var við greiðslum til ársins 2020 en Þóreyju ekki gerð grein fyrir skuldastöðu sinni.

Eins og áður segir sýknaði dómari Þóreyju af kröfum Selfossveitna í málinu. Þá var Selfossveitum gert að greiða henni 800 þúsund krónur í málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“