fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Gömul viðskipti við Nettó setja framtíðaráform grindvískra hjóna í uppnám

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 14. ágúst 2024 17:03

Mynd: Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Lögbirtingablaðinu í dag er birt nokkuð löng og ítarleg stefna tveggja hjóna úr Grindavík vegna gamalla viðskipta fyrirtækis við Samkaup hf. sem eiga og reka verslanir undir merkjum Nettó. Varðar málið veðskuldabréf sem hjónin vilja að verði gert ógilt með dómi en veðskuldabréfið var upphaflega gefið út vegna viðskipta fyrirtækis, sem eiginmaðurinn var áður eigandi að, við Nettó og var tryggt með veði í fasteign hjónanna í Grindavík. Hjónin hafa eftir jarðhræringarnar þar í bæ komið sér fyrir í Garðabæ en segja að veðskuldabréfið geri þeim illmögulegt að ganga frá kaupum á nýja heimilinu.

Skuldabréfið var upphaflega gefið út árið 2019 vegna viðskipta fyrirtækisins Netgengið  við Samkaup en eiginmaðurinn var einn eigenda Netgengisins þar til hann seldi hlut sinn árið 2022. Fólust viðskiptin í því að Netgengið sem rekur vefsíðuna aha.is tók að sér að reka vefverslun fyrir Nettó og keyra út vörur, gegn gjaldi. Netgengið tók við greiðslum viðskiptavina í gegnum vefsíðu sína og ók vörunum til þeirra. Netgengið gerði svo reglulega upp við Samkaup en þóknun vegna útkeyrslu var dregin frá. Um þetta var gerður sérstakur samningur.

Þar sem ljóst þótti að þessi viðskipti myndu fela í sér að Netgengið yrði á hverjum tíma með mikla fjármuni í sinni vörslu sem tilheyrðu eiganda Nettó, Samkaupum, gáfu hluthafar Netgengisins út fleiri en eitt tryggingarbréf til Samkaupa til að tryggja skilvísar efndir samningsins af þeirra hálfu. Það kemur ekki fram í stefnunni hversu mörg þau voru. Eitt þessara bréfa var bréfið sem var tryggt með veðrétti í fasteign hjónanna í Grindavík.

Gleymdu bréfinu

Í stefnunni er gangur málsins eftir útgáfu bréfsins rekinn áfram. Eiginmaðurinn seldi hlut sinn í Netgenginu 2022 og hætti alfarið afskiptum af félaginu, að hans sögn. Segir hann að á þeim tímapunkti hafi Samkaup ekki átt neinar kröfur á Netgengið og raunar það síðarnefnda talið sig eiga kröfur á það fyrrnefnda. Samkaup hafi verið upplýst um þessar breytingar á eignarhaldi Netgengisins og að allir hluthafar síðarnefnda fyrirtækisins hafi verið sammála um að eiginmaðurinn grindvíski myndi alfarið hætta afskiptum af félaginu og það án nokkurra frekari skuldbindinga.

Í stefnunni segir hins vegar að gleymst hafi þegar þessar breytingar áttu sér stað 2022 að tryggingabréfið umrædda hvíldi á fasteign hjónanna i Grindavík, enda hafi aldrei reynt á það, Netgengið hafi aldrei verið í vanskilum við Samkaup. Viðskiptasambandinu hafi lokið árið 2023 þegar Samkaup hafi komið á fót sinni eigin vefverslun fyrir Nettó.

Finni ekki frumritið og svari ekki lengur

Í stefnunni segir að hjónin hafi ekki búið í Grindavík síðan í nóvember 2023 og hafi ákveðið að selja fasteignafélaginu Þórkötlu, sem er í eigu ríkisins, eign sína í bænum. Ætlunin hafi verið að flytja allar áhvílandi veðskuldir á eigninni í Grindavík þar með talið veðskuldabréfið umrædda yfir á fasteignina í Garðabæ sem þau ætla sér að kaupa í staðinn. Samkvæmt lögum um Þórkötlu eru áhvílandi veðskuldir dregnar frá því verði sem eigendur fasteigna í Grindavík fá greitt fyrir eignir sínar kjósi þeir að selja félaginu þær.

Í stefnunni segir enn fremur að hjónin hafi snúið sér til Samkaupa með ósk um að flytja veðið milli fasteignanna og ekki hafi verið gerð athugasemd við það. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir veðflutningi við sýslumann, sem hafi gert þá athugasemd að leggja þyrfti fram frumrit bréfsins með áritun um veðflutning. Hafi þá komið í ljós að frumrit tryggingarbréfsins finnist ekki hjá Samkaupum og þar af leiðandi hvorki hægt að flytja bréfið af eigninni í Grindavík og yfir á aðra eign né aflýsa því.

Stefnendur segjast hafa ítrekað erindið nokkrum sinnum við Samkaup og hafi félagið hætt að svara erindum þeirra. Verði þar með að ganga út frá því að frumrit bréfsins sé glatað, en Samkaup hafi ekki gert athugasemdir við yfirlýsingar hjónanna um að höfðað verði ógildingarmál vegna bréfsins.

Í vanda vegna bréfsins týnda

Í stefnunni er staða hjónanna vegna veðskuldabréfsins týnda rakin nokkuð ítarlega. Þar segir að á meðan frumritið sé glatað og að bréfið hvíli enn á fasteigninni í Grindavík sé nauðsynlegt að aflétta veðinu svo salan á eigninni í Grindavík geti gengið í gegn og að þau gæti klárað kaup á eigninni í Garðabæ. Síðarnefnda eignin sé sú fimmta sem þau búi í síðan þau yfirgáfu Grindavík eftir rýmingu bæjarins í nóvember 2023.

Hjónin segjast hafa neyðst til að taka hátt yfirdráttarlán vegna kaupanna á nýju eigninni á meðan gengið er frá sölunni á eigninni í Grindavík. Af yfirdráttarláninu greiði þau háa vexti og óttist að geta ekki staðið við greiðslur á kaupverði nýju eignarinnar. Þau segja á meðan staða þeirra sé þessi ætli Samkaup bersýnilega ekki að veita atbeina sinn að því að finna frumritið að veðskuldabréfinu margumrædda.

Í stefnunni segja hjónin að þau viti ekki hversu há skuld kunni að búa að baki veðskuldabréfinu í dag en upphafleg fjárhæð þess við útgáfu árið 2019 var 5 milljónir króna. Losa hafi átt eiginmanninn undan öllum skuldbindingum sem tengdust Netgenginu þegar hann seldi hlut sinn árið 2022 en gleymst hafi að gera ráðstafanir vegna veðskuldabréfsins sem hér um ræðir. Samkaup græði ekkert á að hafa veð í fasteigninni í Grindavík þar sem nauðungarsöluverðmæti hennar sé ekkert en frumritið sé týnt og fyrirtækið hafi ekki framvísað því þrátt fyrir áskoranir hjónanna.

Ógildingarmálið verður tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjaness í næsta mánuði. Segir í stefnunni að mótmæli enginn kröfum hjónanna fyrir dómi megi búast við því að veðskuldabréfið verði ógilt.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu