Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur kveðið upp úrskurð í kærumáli sem snýst um fjölbýlishúsið að Rofabæ 43-47 í Reykjavík. Íbúi og íbúðareigandi í Rofabæ 47 krafðist þess að nefndin myndi ógilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að leyfa að ný klæðning yrði sett á húsið sem og ný svalahandrið á fjölda íbúða. Nefndin varð hins vegar ekki við því.
Í úrskurðinum segir að klæðningin, sem er úr áli, hafi verið sett á suðurhlið hússins og einnig ný handrið á allar svalir á þeirri hlið hússins. Ákvörðun byggingarfulltrúans var tekin í maí síðastliðnum en eigandinn kærði hana í júní.
Á fundi húsfélagsins í húsinu í mars á síðasta ári var samþykkt að taka tilboði í framkvæmdir sem fólu í sér að allar svalir á suðurhlið hússins yrðu brotnar niður og byggðar upp með léttum handriðum úr áli og gleri í staðinn fyrir steypt handrið og að sömuleiðis yrði sett álklæðning á suðurhliðina. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar lagðist hins vegar gegn umsókn húsfélagsins um framkvæmdaleyfi á þeim grundvelli að framkvæmdirnar gengju gegn gildandi hverfisskipulagi sem kvæði á um að halda ætti í upprunalegan byggingarstíl og að ekki hefðu verið færð rök fyrir nauðsyn þess að klæða suðurhliðina með álklæðningu.
Erindi húsfélagsins var lagt fyrir skipulagsfulltrúa að nýju en ekki tekið fyrir fyrr en í apríl á þessu ári. Þá var lagt til að umsókn um framkvæmdaleyfi yrði samþykkt. Það var gert á þeim grundvelli að samskonar lausn á svalahandriðum og og klæðningu hefði verið samþykkt árið 2021 fyrir fjölbýlishúsið að Hraunbæ 96-100. Á þessum tímapunkti var framkvæmdum við klæðinguna þegar lokið og eldri svalahandriðin höfðu verið brotin niður. Lagði skipulagsfulltrúi því til að framkvæmdaleyfi yrði veitt í ljósi aðstæðna og að heimilt yrði að setja upp þau nýju svalahandrið sem sótt var um og veita heimild til að setja nýju klæðninguna á suðurhliðina ef ástand hússins væri metið þannig að ekki væri hægt að gera við skemmdir þess. Í kjölfarið veitti byggingarfulltrúi leyfi fyrir framkvæmdunum.
Íbúinn ósátti sem kærði framkvæmdirnar vísaði til gildandi hverfisskipulags og sagði það ekki leyfa að breyta ásýnd og byggingarstíl hússins eins og raunin væri með álklæðningu og svalahandriðum úr áli og gleri í stað steyptra handriða. Hann vildi einnig meina að brotið hafi verið í bága við lög um byggingar sem kvæðu á um að allir eigendur fjöleignarhúss yrðu að samþykkja jafn verulegar breytingar og hér væri um að ræða.
Reykjavíkurborg vísaði í sínum rökum til þess að ástand steyptu svalahandriðanna hafi verið orðið slæmt og einnig hafi verið nauðsynlegt að setja álklæðninguna á suðurhliðina eftir að búið var að gera við helstu skemmdir á útveggjum. Samkvæmt ástandsskýrslu frá 2016 hafi þó nokkrar skemmdir verið á útveggjunum og svölum á suðurhliðinni.Framkvæmdirnar hafi verið samþykktar á löglega boðuðum húsfundi og að samkvæmt lögum um fjöleignarhús þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda fyrir meiriháttar framkvæmdum eins og þarna hafi verið um að ræða og einnig þar sem þetta hafi ekki falið í sér verulegar breytingar á útliti hússins. Það hafi legið fyrir samþyki 2/3 þeirra eigenda sem mætt hafi á fundinn og að yfir helmingur allra eigenda hafi mætt.
Húsfélagið hélt fram sams konar rökum og Reykjavíkurborg. Það sagði kærandann ekki hafa mætt á húsfundinn og að í lögum um fjöleignarhús kæmi fram að enginn geti hindrað að eignir annarra fari forgörðum með því að hindra nauðsynlegt viðhald. Fyrir hafi legið úttekt þess efnis að ekki dyggði annað vegna steypuskemmdanna en að setja álklæðinguna á suðurhliðina. Þar að auki hafi framkvæmdum við klæðninguna verið lokið.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er tekið undir með húsfélaginu og Reykjavíkurborg um að framkvæmdirnar feli ekki sér svo mikla breytingu á sameigninni að samþykki allra eigenda hafi þurft en ekki eingöngu 2/3 þeirra. Nefndin vísaði einnig til þeirra upplýsinga sem lágu fyrir um bágt ástand hússins og til ítarlegs rökstuðnings skipulagsfulltrúa fyrir því að framkvæmdirnar samræmdust hverfisskipulagi Árbæjar, þótt það kvæði á um að raska skyldi sem minnst frumgerð húsa, þar sem ástand hússins hafi verið metið þannig að ekki væri hægt að gera við það án hinna umdeildu breytinga.
Kæru íbúans ósátta var því hafnað og framkvæmdirnar fá að hafa sinn gang.