fbpx
Þriðjudagur 13.ágúst 2024
Fréttir

Bekkur við Bónus og notkun hans olli ágreiningi í íbúahópi miðborgarbúa – „Yndislegur maður þótt hann eigi við áfengis- og vímuefnavanda að stríða“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 13. ágúst 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndir af heimilislausum karlmönnum með fíknivanda og færsla um bekk og óþrifnað við bekkinn sem stóð í stuttan tíma við Bónus á Laugavegi olli ágreiningi og umræðu um aðstöðuvanda einstaklinga sem glíma við fíknavanda og/eða heimilisleysi, og afskipta- og úrræðaleysi borgarinnar um málefni þeirra og óþrifnað á Laugavegi.

„Hvað er til ráða? Vil byrja á að taka fram að þetta snýst ekki um þá einstaklinga sem sitja daglangt framan við BÓNUS á Laugavegi heldur aðstöðuleysi / heimilisleysi viðkomandi. Þeir eru alls ekki með nein læti – en þarna er pissað, ælt, sprautað, drukkinn kogari o.fl og allt dótið liggur þarna og ekki þrífur Borgin þetta.. Aðkoman að matvöruversluninni er því þannig að það er varla hægt að búast við að þetta laði fólk að. Ástandið hefur farið hratt versnandi undanfarið eftir að RVK borg setti bekk þarna í hornið. Ég fór þó inn til að ræða við starfsfólkið en þau höfðu sent ábendingu til Velferðarsviðs í gær,“

skrifar kona í íbúahópinn í síðustu viku og birtir með myndir teknar um hábjrtan dag af tveimur karlmönnum sitjandi á umræddum bekk. Andlit þeirra eru hulin en annar karlmaðurinn situr og reykir og er með djúsfernu í hendi, þó óvíst sé hvort djús sé í fernunni. Hinn sefur. Mikill sóðaskapur er í kringum bekkinn. Næsta ruslatunna er inni í versluninni sjálfri. 

Ein af myndunum sem konan birti í íbúahópi miðborgarinnar. Mikið rusl og óþrifnaður í kringum bekkinn.

Færslan vakti upp umræður, mest um óþrifnað í miðborginni, en einning ástand og aðstöðuleysi mannanna og annarra sem nýtt hafa sér bekkinn í sama ástandi. 

Fyrsta athugasemd sneri að því af hverju Reykjavíkurborg væri ekki með starfsmenn til að þrífa göturnar. „Það eru starfsmenn sem tæma ruslafötur og sópa götur oftast að næturlagi.. En það er ekki það sem þarf til að leysa þennan vanda… ekki í þessu tilfelli. Þeir þurfa heimili og aðstöðu til að njóta útiveru eins og aðrir. Þetta er enginn staður til að sitja að sumbli allan daginn, nota sem klósett eða fá sér miðdegislúr,“ svaraði konan sem átti upphafsinnleggið. Önnur vildi að Bónus og önnur fyrirtæki sæu um að hreint væri fyrir framan fyrirtæki þeirra og skoraði á Bónus að koma upp ruslatunnu og baklausum bekk, slíkir biðu ekki upp á langsetu. 

„Götuþrif borgarinnar eru ekki í lagi. Reykjavík er höfuðborg Íslands og til skamms tíma eina borgin. Öllum borgum fylgir útigangsfólk og allskyns fólk, en það á að vera kappsmál borgaryfirvalda að sinna lágmarksgötuþrifum.“ Karlmaður sagði einfaldlega: „Það er minna rusl í London en Reykjavík.“

Bekkurinn horfinn daginn eftir 

Reykjavíkurborg brást hratt við athugasemdum um bekkinn sem hafði ekki verið við verslunina í langan tíma, og daginn eftir ofangreinda færslu og ábendingu verslunarinnar til Velferðarsviðs deginum á undan var bekkurinn farinn.

Hér stóð umræddur bekkur í stuttan tíma.
Mynd: DV

„Vandamálið „leyst“. Bekkurinn er farinn og partýið færðist yfir á þessar tröppur. Myndin er tekin í gær og hann var einn það augnablik en núna á sunnudags eftirmiðdegi eru þeir fjórir í sjúklegu stuði. Einhversstaðar verða vondir að vera og allt það en það er klárt að það að bekkur sé eða sé ekki þá er vandamálið til staðar,“ skrifaði kona sem rekur fyrirtæki við Laugaveg. 

Birti hún með mynd af manni sem sat í tröppum Laugavegar 53b (Bónus er að Laugavegi 59). Tröppurnar liggja upp á efri hæð hússins þar sem Hereford steikhús og íbúðir eru. Sami karlmaður sat í tröppunum um klukkan 13.30 í gær þegar blaðamaður átti leið hjá, spilaði hann tónlist úr litlum ferðahátalara, en var að öðru leyti engum til ama.

Tröppurnar við Laugaveg 53.
Mynd: ja.is

„Hvernig væri að hætta með boð og bönn og tala um lausnir. Að taka þennan bekk var ekki að leysa neitt fyrir þá sem gerðu sér að góðu að sitja þar. Við ætlumst til þess að samfélagið taki börnunum okkar eins og þau eru en við ætlum ekki að takast á við þarfir fullorðna einstaklinga með allskonar vanda. Það er svo mikil þversögn og allskonar rugl í gangi í þessu samfélagi. Og já, ég hef búið við hliðin á gistiskýli og var það fólk ekkert meira til vandræða en aðrir íbúar í kring. Þetta eru manneskjur en ekki dýr,“ skrifar kona nokkur. Konan sem birti mynd af manninum í tröppunum tekur undir þau orð og segist búa við hliðina á svona húsnæði á vegum borgarinnar og það sé núll ónæði. Nákvæmlega ekkert.

„Þessar tröppur hafa verið notaðar í mörg ár, það þarf sárlega stærra gistiskýli og breyta opnunartímanum,“ segir íbúi við Laugaveg. 

Gistiskýlið sem lokað er yfir daginn skammt frá

Gistiskýlið á Lindargötu sem er um 200 metrum frá ofangreindum tröppum er lokað milli klukkan 10 og 17 á daginn. Karlmenn sem þar gista um nætur hafa því í engin hús að venda yfir daginn, kaffistofa Samhjálpar, sem brátt missir húsnæði sitt í Borgartúni og er opin milli kl. 11-14, og Borgarbókasafnið í Grófinni eru tveir staðir sem þeir sjást oft á. Bekkir á Austurvelli eru einnig mikið notaðir, en þar sem og annars staðar utanhúss er ekki gott að vera þegar kalt og blautt er í veðri.

„Þetta er bara ljóslifandi og gott dæmi um það þegar við festumst í að reyna að leysa birtingamynd vandans en köfum ekki í rót hans,“ segir Diljá Ámundadóttir Zoëga, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík og íbúi í miðbænum.

„Vá hvað er ógeðslega ljótt að segja einhvers staðar verða vondir að vera. Stórlega efast að allir heimilislausir séu vondir. Veit vel að þetta er máltæki sem er notað. Því miður hefur fólk með fíknivanda í fá skjól að leita. Þetta er klárlega vandamál sem borgin þarf að leysa hins vegar þurfa þau hjálp frá ríkinu líka því önnur sveitarfélög senda Reykjavík fólkið sem það getur ekki sinnt. Vandinn er mjög stór og það þarf að vera staður sem fólk með fjölþættan vanda getur verið á daginn líka. Skýlin þurfa auðvitað að þrífa á daginn til að gera tilbúið fyrir kvöld og nótt. Þú ert ekki að segja borginni neinar fréttir með að pósta þessum myndum hérna inn,“  skrifar kona nokkur.

Hjólahvíslarinn vill aftur dagsetur fyrir heimilislausa

Önnur kona segir umræddan bekk og þá sem þar sátu ekki hafa angrað sig. Segir hún að í raun séu of fáir bekkir á Laugaveginum, hún þiggi alveg að tylla sér af og til.

„Þetta er yndislegur maður þótt hann eigi við áfengis og vímuefnavanda að stríða. Mér sárnaði að sjá þennan póst. Þetta er fólk eins og þú. Það er 2024 fordómar eiga ekki að vera til. Þú ert hálfri öld aftur í hugsun. Vonadi lendir þú eða einhver sem þér er kær aldrei í því að verða heimilislaus og eiga við fíkniefnavanda ofan í allt,“  segir karlmaður nokkur. Konan segist sammála því, hún hafi oft talað við umræddan karlmann og eigi vin sem þarna hangir einnig. Með færslu sinni vilji hún benda á að bág staða þessa hóps breytist ekki með að fjarlægja einn bekk.

Bjartmar Leósson, Hjólahvíslarinn, leggur til að dagsetur fyrir heimilislausa verði opnað að nýju. „Finnst það mætti alveg opna aftur dagsetur fyrir heimilislausa. Hjálpræðisherinn rak þannig og virtist gefa góða raun. Skýlin loka klukkan 10 og menn verða bara að mæna göturnar þangað til það opnar aftur. Nema milli 11-14 þegar Kaffistofan er opin. Þess á milli hefur þeim bara verið sagt að fara á bókasafnið. Og auðvitað vilja menn vera útivið á góðviðrisdögum, skiljanlega. Dagsetur með góðu útisvæði væri kannski eitthvað sem mætti fara að skoða.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Háttsettir ísraelskir stjórnmálamenn verja hrottalega hópnauðgun á palestínskum fanga í Sde Teiman-herstöðinni

Háttsettir ísraelskir stjórnmálamenn verja hrottalega hópnauðgun á palestínskum fanga í Sde Teiman-herstöðinni
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Skjálftavirkni heldur áfram að aukast: „Getur ekki verið mjög langt í að eitthvað fari í gang“

Skjálftavirkni heldur áfram að aukast: „Getur ekki verið mjög langt í að eitthvað fari í gang“