Það er auðvitað algjör niðurlæging fyrir Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, að úkraínskar hersveitir hafi dregið úkraínska fánann að húni víða í héraðinu. Líklegt má telja að þegar Pútín er búinn að ná sér af mesta áfallinu yfir að sjá úkraínska hermenn sækja fram í landinu hans, kjarnorkuvopnaveldi og stórveldi á heimsvísu, þá muni hann grípa til harðra aðgerða til að fæla aðra frá því að leika sama leikinn.
Úkraínumenn hafa ekki látið mikið uppi um aðgerðina eða tilganginn með henni en sérfræðingar telja að þeir hafi sent mörg þúsund hermenn inn í Rússland, hafa tölur frá 1.000 til 20.000 verið nefndar.
Í umfjöllun Sky News um málið segir að aðgerðin virðist hafa verið mjög vel undirbúin og tekist hafi að halda undirbúningnum leyndum og því hafi Rússum og heimsbyggðinni verið komið á óvart með henni.
Spurningin er síðan hver tilgangurinn er með aðgerðinni? Ætla Úkraínumenn að ná fram langtímaáhrifum með því að raska ró valdhafanna í Moskvu og sýna fram á að rússnesku landamærin séu ekki örugg?
Sumir sérfræðingar hafa bent á að hugsanlega sé markmiðið að leggja rússneskt landsvæði undir sig og halda og nota sem skiptimynt fyrir úkraínskt land sem Rússar hafa lagt undir sig. Það sem mælir á móti þessu er að slík aðgerð kallar á fjölmennt úkraínskt herlið til að takast á við gagnsóknir Rússa og ekki er víst að Úkraínumenn séu með nægilega mikinn mannafla til að geta það.
Annar möguleiki er að Úkraínumenn vonist til að draga rússneskar hersveitir frá víglínunum í austur- og suðurhluta Úkraínu til að að bregðast við innrásinni. Það er þó ekki öruggt að Rússar geri þetta ef miða má við þann fjölda hermanna sem eru enn í Rússlandi og bíða þess að verða sendir á vígvöllinn.
Þriðja kenningin er að Úkraínumenn ætli að reyna að ná kjarnorkuveri í héraðinu á sitt vald til að þvinga rússneskar hersveitir frá kjarnorkuverinu í Zaporizhzhia í Úkraínu en Rússar náðu því á sitt vald í upphafi innrásarinnar. Ef þetta er markmiðið þá kallar það einnig á mikinn mannafla og eins og áður sagði er óvíst að Úkraínumenn hafi yfir honum að ráða.