Í færslu sem sett var inn í gær á samfélagsmiðilinn Reddit segir einstaklingur, sem segist vera á ferðalagi á Íslandi, frá nokkuð kynlegu vandamáli sem viðkomandi segir að hann hafi upplifað á tveimur mismunandi tjaldstæðum hér á landi. Vandinn sé sá að ekki sé nokkur leið að finna út hvar og hvernig eigi að greiða fyrir dvölina á tjaldstæðunum.
Ferðalangurinn segir að um sé að ræða tjaldstæðin í Ólafsvík og á Þingeyri en á báðum stöðum hafi hann ekki séð nokkra manneskju sem taki við greiðslu og tjaldstæðin sé ekki að finna á appinu Parka þar sem hægt er að greiða fyrir notkun á bílastæðum og tjaldstæðum.
Ferðamaðurinn segir í færslunni að hann hafi spurt fjölda manns um hvar og hvernig hann greiði fyrir notkun á tjaldstæðunum og hvort það sé eitthvað fólk á svæðinu sem taki við greiðslunni. Svarið hafi verið:
„Þau koma yfirleitt á morgnana og stundum á kvöldin. Borgaðu bara þegar þú sérð þau.“
Ferðamaðurinn segist hins vegar aldrei hafa séð „þau“ hvorki í Ólafsvík né á Þingeyri. Hann segist hafa áhyggjur af því að vera rukkaður um hærra gjald en ella fyrir að hafa ekki greitt fyrir vistina á tjaldstæðunum þrátt fyrir að hafa lagt sig allan fram við að vera heiðarlegur og borga. Auk þess að spyrjast fyrir hafi hann leitað að einhverjum sem taki við greiðslum í þjónustuhúsunum á tjaldstæðunum og víðar á báðum svæðum.
Í færslunni óskar hann eftir ráðleggingum um til hvaða ráða sé best að grípa. Einn aðili sem svarar segir að ef hann hafi verið í meira en hálfan sólarhring á tjaldsstæðunum og enginn hafi komið til að rukka hann eigi hann bara að líta svo á að dvölin hafi verið ókeypis. Annar segist hafa lent í sviðuðum aðstæðum á íslensku tjaldstæði þegar hann hafi vaknað að morgni og farið í þjónustuhúsið til að fara í sturtu þá hafi enginn verið til staðar til að taka við greiðslu og heldur ekki þegar viðkomandi kom aftur í húsið eftir að hafa tekið föggur sínar saman. Viðkomandi hafi því einfaldlega farið án þess að borga.
Ferðamanninum er í svörum við færslu hans einnig bent á að yfirleitt sé til staðar símanúmer sem hægt sé að hringja í til að spyrjast fyrir um greiðslur. Við stutta leit á upplýsingasíðum fyrir ferðamenn finnast ekki upplýsingar þar sem tekið er beinlínis fram hvernig skuli greiða fyrir dvöl á tjaldstæðunum á Þingeyri og í Ólafsvík en skýrt er tekið fram að vistin sé ekki ókeypis og gefin eru upp símanúmer og netföng sem hægt er að hafa samband við.