Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér álit vegna ágreinings milli tveggja nágranna í fjöleignarhúsi. Eigandi kjallaraíbúðar í húsinu krafðist þess að viðurkennt væri að eigandi íbúðar á fyrstu hæð ætti að gera úrbætur á högghljóðum sem bærust frá íbúð hans niður í kjallaraíbúðina. Vildi hann meina að högghljóðin hefðu mikil áhrif á daglegt líf heimilisfólks og að úrbætur sem eigandi íbúðarinnar á fyrstu hæð hefði þegar gert dygðu ekki til og væru sýndarleikur einn. Nefndin tók hins vegar ekki undir það.
Auk fyrrnefndrar kröfu gerði eigandi kjallaraíbúðarinnar kröfu um að viðurkennt væri að eigandanum á fyrstu hæð bæri að gera úrbætur á gólfefni á baðherbergi og að sérhannað undirlag verði sett undir gólfefni þar til að koma í veg fyrir óþarfa högghljóð milli íbúðanna.
Eigandi kjallaraíbúðarinnar sagði að úrbætur nágrannans hefðu ekki borið árangur. Há högghljóð hafi enn áhrif á daglegt líf í kjallaraíbúðinni og rýri verðgildi hennar. Við umgang í íbúðinni á fyrstu hæð hristist loftljós í kjallaraíbúðinni og allar tilfærslur á húsgögnum, fótatök og hlutir sem falli í gólf valdi högghljóði sem heyrist hátt um alla íbúðina í kjallaranum. Heimilisfólk hrökkvi upp af svefni komi þessi hljóð að nóttu til. Eigandinn á fyrstu hæð hafi sett nýtt undirlag sem dragi ekki nægjanlega úr hljóðburði högghljóðs milli hæða. Þá hafi ekki verið gerðar úrbætur á hljóðbærni úr baðherbergi og gólfefni þar sé óbreytt.
Vildi eigandi kjallaraíbúðarinnar þar með meina að úrbætur nágrannans væru sýndarleikur. Þær hafi ekki leyst vandann þrátt fyrir að mælingar sýni lækkun á hljóðstyrk í desibelum. Eigandinn á fyrstu hæð hafi valið ódýrasta kostinn sem á blaði virðist leysa málið. Hefði eigandinn á fyrstu hæð til að mynda sett höggdempandi undirlag neðst, þ.e. undir það undirlag sem sett hafi verið, hefði það tekið á vandamálinu.
Eigandinn á á fyrstu hæð tjáði nefndinni að hún hefði keypt íbúðina 2016 og hafi ekki vitað betur en að þá hafi gólfefni verið upprunalegt en húsið var byggt 1988. vegna ítrekaðra kvartana eiganda kjallaraíbúðarinnar hafi hún fallist á að leggja undirlag og parket á íbúðina þó ekki síst til að losna undan áreiti frá honum. Undirlagið sem sett hafi verið dempi 18 desibela hljóð samkvæmt gæðavottun, auk þess sem að 12 millimetra harðparket hafi verið sett ofan á, sem hljóðeinangri enn frekar. Þetta tvennt hafi verið lagt ofan á það gólfefni sem hafi verið fyrir, sem sé vínildúkur. Samkvæmt mælingum og viðmiðunum verkfræðistofu hafi þurft að dempa 17 desibel hljóðs. Þannig megi gera ráð fyrir að verðgildi kjallaraíbúðarinnar hafi aukist en ódýrasta lausnin hafi ekki orðið fyrir valinu heldur sú sem talin hafi verið best.
Vildi eigandinn á fyrstu hæð meina að fram að þessum deilum hafi ekkert bent til að hljóðburður milli íbúðanna hafi verið vandamál umfram það sem geti talist eðlilegt í fjöleignarhúsi. Samtal við fyrri eigendur kjallaraíbúðarinnar hafi raunar staðfest það. Allar ráðstafanir í hennar íbúð hafi verið í samræmi við tilmæli verkfræðistofunnar og ráðleggingar byggingarverktaka, sem hafi tryggt að gæðastaðlar og skilyrði reglugerða hafi verið uppfyllt.
Kærunefnd húsamála tekur í niðurstöðu sinni ekki afstöðu til hvort gólfefni íbúðarinnar fullnægi kröfum byggingareglugerðar, eins og eigandi kjallaraíbúðarinnar krafðist, þar sem slíkt heyri ekki undir verksvið nefndarinnar. Nefndin segir óumdeilt að eigandinn á fyrstu hæð hafi gert úrbætur á hljóðvist eftir að mælingar verkfræðistofunnar hafi leitt í ljós að hún væri ófullnægjandi samkvæmt byggingarreglugerð. Þótt eigandi kjallaraíbúðarinnar sé á því að hljóðvist sé enn ófullnægjandi, þrátt fyrir úrbætur af hálfu nágrannans, liggi ekkert fyrir um það. Þá verði ekki ráðið af gögnum málsins að eigandi kjallaraíbúðarinnar eða húsfélagið hafi óskað eftir að hljóðmælingar yrðu aftur gerðar í íbúðinni á fyrstu hæð og eigandi hennar þá neitað því. Því sé ekki hægt að fallast á kröfur eiganda kjallaraíbúðarinnar.