fbpx
Laugardagur 06.júlí 2024
Fréttir

Læknir sem var laminn fyrir að neita manni um morfínlyf fær ekki bætur – „Ertu að kýla mig helvítið þitt?“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 4. júlí 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimilislæknir fær ekki bætur á grundvelli aukinnar slysatryggingaverndar kjarasamnings eftir að hann varð fyrir líkamsárás í starfi sínu á heilsugæslu. Maður sem vildi komast í morfínlyf en fékk ekki réðst á lækninn og kýldi hann niður. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. júní.

Heimilislæknirinn var að störfum á síðdegisvakt á ónefndri heilsugæslu dag einn árið 2021 þegar atvikið átti sér stað. Samkvæmt málsatvikum hafði gerandinn komið deginum áður á heilsugæsluna og vildi fá ávísað morfínslyfjum. Læknirinn ræddi við manninn og sagði honum að þar sem maðurinn væri með smitsjúkdóm og í meðferð hjá smitsjúkdómadeild Landspítala bæri honum að leita þangað eftir lyfjum. Maðurinn sneri aftur degi síðar og vildi þá aftur fá ávísað morfínlyfjum. Læknirinn bað móttökuritara að greina manninum frá því að ekkert hefði breyst, honum bæri að snúa sér til smitsjúkdómadeildar. Læknirinn var svo að kalla inn síðasta sjúkling vaktarinnar þegar hann sá að maðurinn hafði stillt sér upp með ógnandi hætti í dyragætt að biðstofunni. Maðurinn hótaði lækninum og sagði að ef hann fengi ekki lyf þá myndi hann bíða læknisins fyrir utan heilsugæsluna, eða koma heim til hans, og „berja hann í klessu“.

Læknirinn ítrekaði að maðurinn fengi engu ávísað hjá honum. Þá steig maðurinn að lækninum með brjóstið fram og „frussandi“, læknirinn setti við það flatan lófa á milli þeirra og við það snöggreiddist maðurinn og spurði : „Ertu að kýla mig helvítið þitt?“. Næsta sem læknirinn vissi var að hann fékk bylmingshögg á hægra eyrað, hentist á vegg og skall í framhaldi í gólfið. Hann vankaðist og þegar hann gat aftur séð var maðurinn farinn. Læknirinn lá eftir á gólfinu og fann strax hátíðnisuð í hægra eyranu. Hann lauk svo við að sinna síðasta sjúklingi dagsins og leitaði svo á Læknavaktina.

Læknirinn greindi frá því að ekki væri óalgengt að menn með fíknisjúkdóma leiti á heilsugæsluna. Flestir séu rólegir og þá sinni heilsugæslan þjónustu á borð við sýkingar tengdum neyslum. Oftast eru engin læti og enginn til vandræða. Þennan mann kannaðist læknirinn þó ekki við þegar hann kom fyrst. Í kjölfarið var ákveðið að ekki yrði lengur tekið á móti téðum manni og var öryggisvörður ráðinn á heilsugæsluna.

Læknirinn kærði árásina til lögreglu og var gefin úr ákæra skömmu síðar. Árið 2023 var maðurinn dæmdur í 60 daga fangelsi og til greiðslu miskabóta.

Læknirinn taldi íslenska ríkið skaðabótaskylt í málinu á grundvelli ákvæðis í kjarasamningi og lagði fram kröfu í september 2021. Greindi læknirinn frá því að atvikið hefði haft áhrif á störf hans og afköst. Hann þoli álag verr en hafi framtíðarhorfur hans í starfi breyst til hins verra. Enn er verið að meta varanlegar afleiðingar árásarinnar. Taldi læknirinn ljóst að árásin hafi átt sér stað í tengslum við störf hans fyrir íslenska ríkið og þar með hefði stofnast til bótaskyldu.

Ríkið hafnaði því þó. Heimilislæknirinn hafi ekki verið að sinna gerandanum þegar árásin átti sér stað og þar með ekki stofnast til bótaskyldu fyrir ríkið. Árásarmaðurinn hafi að auki ekki verið skráður sjúklingur á téðri heilsugæslu og þar með ekki þegið læknisþjónustu frá heimilislækninum þar. Hér sé um mál að ræða þar sem einstaklingur ryðst inn af götunni og krefst lyfja með hótunum um ofbeldi. Þó að læknirinn hafi verið við störf þegar þetta átti sér stað breyti það engu.

Dómari taldi óumdeilt að læknirinn hafi orðið fyrir tjóni í starfi sínu sem heilsugæslulæknir. Enn sé verið að meta varanlegt tjón og eftir það geti læknirinn sótt bætur samkvæmt almennu slysatryggingaákvæði kjarasamnings. Hér sé þó til álita önnur grein sem fjalli um hlutlæga bótaábyrgð ríkisins þegar læknar verða fyrir tjóni við störf af hendi skjólstæðinga sem geta ekki stjórnað gerðum sínum vegna andlegra annmarka eða viðvarandi alvarlegs andlegs ástands. Dómari taldi að forsendur ríkisins, að um eiginlegan skjólstæðing sem er að þiggja þjónustu læknis, þurfi að vera um að ræða. Hér hafi læknir verið að sinna umræddum manni í skilningi kjarasamningsákvæðisins. Maðurinn var þó dæmdur sekur fyrir árásina og ekkert kom fram í því máli að hann hafi ekki haft stjórn á gerðum sínum á verknaðarstund. Þar með væru skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt.

Var ríkið því sýknað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stórsigur Verkamannaflokksins – Starmer verður forsætisráðherra

Stórsigur Verkamannaflokksins – Starmer verður forsætisráðherra
Fréttir
Í gær

Hryðjuverk í Kákasus sýnir veikleika Rússa á svæðinu

Hryðjuverk í Kákasus sýnir veikleika Rússa á svæðinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Taldar verulegar líkur á að Reykjanesbær hafi brotið lög

Taldar verulegar líkur á að Reykjanesbær hafi brotið lög
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir vonar að sonur hans nái tvítugsafmælinu í sumar – „Hann er á götunni að hanga með versta fólki í Reykjavík og er að gera ógeðslega hluti“

Faðir vonar að sonur hans nái tvítugsafmælinu í sumar – „Hann er á götunni að hanga með versta fólki í Reykjavík og er að gera ógeðslega hluti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur miður sín eftir erfiðan fund í morgun og óttast um framtíð Akraness – Sorgardagur fyrir Skagamenn og 128 missa vinnuna

Vilhjálmur miður sín eftir erfiðan fund í morgun og óttast um framtíð Akraness – Sorgardagur fyrir Skagamenn og 128 missa vinnuna