fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Níu ísraelskir hermenn í haldi vegna gruns um alvarlegt kynferðisofbeldi í garð palestínsks fanga – Múgur reyndi að frelsa níumenningana

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 30. júlí 2024 15:30

Mannskarinn við fangelsið í Sde Teiman áður en hópnum tókst að brjótast inn um hliðin. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlar hafa greint frá því að níu ísraelskir hermenn séu í haldi og verði yfirheyrðir vegna gruns um að þeir hafi beitt palestínskan fanga miklu harðræði meðal annars alvarlegu kynferðisofbeldi.

Í umfjöllun AP kemur fram að að ísraelski herinn hafi greint frá þessu í gær en Palestínumaðurinn var í haldi í fangelsi í herstöð í Sde Teiman, sem er í Negev-eyðimörkinni í suðurhluta Ísraels, en maðurinn er sagður vera liðsmaður Hamas-samtakanna.

Ekki voru gefnar frekari upplýsingar um hvernig þetta harðræði lýsti sér nákvæmlega en herinn segir málið í rannsókn. Ísraelskir fjölmiðlar segjast hafa heimildir fyrir því að harðræðið hafi verið meðal annars af kynferðislegum toga og hermennirnir því brotið kynferðislega á fanganum. Times of Israel segir í frétt sinni að kynferðisofbeldið sem hermennirnir eru grunaðir um að hafa beitt palestínska fangann hafi verið alvarlegt.

Samkvæmt skýrslum mannréttindasamtaka og rannsókn AP eru aðstæður í fangelsinu afar slæmar og fangar þar beittir harðræði en fangelsið í Sde Teiman er sagt vera það stærsta í Ísrael.

Ísraelski herinn hefur yfirleitt vísað því á bug að fangar séu beittir harðræði í herfangelsum. Eftir dómsmál sem spratt af ásökunum um harðræði var tilkynnt að flestir Palestínumenn yrðu fluttir frá fangelsinu í Sde Teiman og gerðar yrðu endurbætur á því.

Eigi ekki að refsa fyrir hörku gagnvart hryðjuverkamönnum

Ljóst er að ekki eru allir Ísraelar sáttir við að hermennirnir séu í haldi og telja það ekki tiltökumál að fangar sem þeir kalla hryðjuverkamenn sæti harðri meðferð.

Þegar herlögreglumenn mættu í fangelsið í Sde Teiman til að handtaka hermennina níu mætti þeim hópur mótmælenda og til stympinga kom. Síðar um daginn braust fjöldi manns inn um hlið fangelsins, veifaði ísraelska fánanum og sagði handtöku hermannanna skammarlega en á Youtube má sjá fjölda myndbanda af atburðinum, en í hópnum eru sagðir hafa verið meðal annars þingmenn. Umræddir þingmenn eru harðlínumenn af hægri væng ísraelskra stjórnmála og hvöttu þeir hópinn eindregið til dáða.

Hernum tókst að koma hópnum út af lóð fangelsins en um kvöldið hélt mannskarinn að herstöðinni þar sem hermennirnir níu voru vistaðir. Hópurinn stækkaði og nokkur hundruð manns brutust inn á herstöðina en á fjölda myndbanda má sjá stympingar milli hermanna og fólksins en sumir í hópnum voru grímuklæddir, vopnaðir og jafnvel klæddir í einkennisbúninga hersins. Hópurinn krafðist þess að hermennirnir yrðu látnir lausir en eftir nokkurt þóf tókst hernum að koma mannskaranum út af herstöðinni.

Sá æðsti vill rannsókn

Æðsti hershöfðingi ísraelska hersins Herzi Halevi hefur fordæmt hegðun mannskarans og segist styðja rannsókn á ásökunum í garð hermannanna níu heilshugar. Slík rannsókn verndi ísraelska hermenn og þau gildi sem ísraelski herinn standi fyrir.

Ýmsir stjórnarþingmenn eru aftur á móti ekki sammála. Þeirra á meðal er Yuli Edelstein þingmaður Likud, flokks Benjamin Netanyahu forsætisráðherra. Edelstein hefur beitt sér mjög í málinu og séð til þess að yfirmenn í hernum hafi verið kallaðir fyrir þingnefnd til að svara fyrir handtöku hermannanna sem þingmaðurinn er ósáttur við og ekki síður hvernig hún fór fram. Edelstein hefur tjáð sig um málið í tveimur harðorðum færslum á samfélagsmiðlinum X. Í annarri þeirra segir hann meðal annars að það sé óásættanlegt að grímuklæddir herlögreglumenn ráðist inn í herstöð og hann muni ekki leyfa því að endurtaka sig. Síðan bætir hann við:

„Hermenn okkar eru ekki glæpamenn og þessi fyrirlitlega eftirför gagnvart þeim þykir mér vera óásættanleg.“

Vísa ásökunum á bug 

Í umfjöllun AP kemur fram að Ísrael hafi tekið þúsundir Palestínumanna til fanga eftir árás Hamas-samtakanna 7. október á síðasta ári, samkvæmt opinberum tölum. Nokkur hundruð hafi þó verið sleppt eftir að herinn komst að þeirri niðurstöðu að viðkomandi hefðu engin tengsl við Hamas. Ísraelsk mannréttindasamtök segja að flest af þessu fólki hafi verið vistað að minnsta kosti tímabundið í fangelsinu í Sde Teiman. Þau fagna rannsókn hersins en segja umkvartanir þeirra ekki snúast um þetta eina mál heldur kerfisbundið harðræði í fangelsinu.

Ísraelsk yfirvöld hafa löngum verið sökuð um að draga hermenn ekki til ábyrgðar fyrir glæpi gegn Palestínumönnum. Hert hefur á slíkum ásökunum í kjölfar yfirstandandi hernaðaraðgerða á Gaza. Stjórnvöld í Ísrael fullyrða hins vegar að herinn fari eftir lögum hernaðar og alþjóðalögum og að óháð rannsókn fari fram á öllum ásökunum um harðræði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur