fbpx
Þriðjudagur 30.júlí 2024
Fréttir

Helgi lýsir þriggja ára taugastríði undir ofsóknum Kourani – „Maður á ekkert dýrmætara en börnin sín“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 30. júlí 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Aðalatriðið og tilefni þessa viðtals sem setti þetta allt af stað er þessi ógn sem ég og mín fjölskylda bjuggum við í þrjú ár. Auðvitað var mér mikið niðri fyrir vegna þess og kannski losnaði um einhvern pirring gagnvart þessu öllu saman. Það er kannski mannlegt, ég veit það ekki. Við skulum átta okkur á því að allt sem snýr að þessum hótunum er ekki hluti af mínum starfsskyldum. Ég hefði kannski kosið að Sigríður hefði sýnt jafnmikinn áhuga á því að sýna mér einhvern stuðning í þessu og leita einhverra ráða til að standa með mér í að verjast þessu, í stað þess að láta mig vera einan úti á berangri með þetta. Það var ekkert, bara núll. Það var ekki einu sinni skilningur á því að þetta væri óþægilegt, hvað þá meira,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í viðtali við DV.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur áminnt hann fyrir ummæli sem hann lét falla í viðtali við Vísi í kjölfar fangelsisdóms sem kveðinn var upp yfir ofbeldismanninum Mohamad Kourani. Sá hafði ofsótt Helga og fjölskyldu hans linnulítið í þrjú ár. Sigríður hefur tilkynnt áminningu sína til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Hún hefur jafnframt tilkynnt Helga að starfskrafta hans sé ekki óskað á meðan ráðherra sé með mál hans til skoðunar.

Telur vafamál að Sigríður hafi heimild til að áminna hann

Ýmsir lögmenn og þar með Helgi sjálfur hafa efasemdir um að Sigríður hafi heimild til að áminna Helga formlega. Telur Helgi og fleiri að það vald sé aðeins hjá þeim sem veitir stöðuna, það er  ráðherra. Sigríður hefur áður áminnt Helga, eða árið 2022, fyrir ummæli hans á Facebook um útlendingamál. Í tilkynningu sem Sigríður sendi frá sér í dag sagði hún að Helgi hafi ekki bætt ráð sitt eftir þá áminningu og því hafi hún vísað máli hans til dómsmálaráðherra.

„Ég tel að það geti ekki annar en sá sem veitir stöðuna veitt áminningu. Ákvörðun hennar um áminningu getur aldrei verið undanfari þess að ráðherra veiti lausn frá störfum. Ég held að það sé mikill lögfræðilegur vafi á því að þessar áminningar hafi  nokkra þýðingu. Fyrir svo utan það að lögfræðingar sem þekkja til telja að svona áminning hafi bara gildi í eitt ár,“ segir Helgi en fyrri áminning Sigríðar gegn honum var veitt fyrir tveimur árum.

Áminning Sigríðar til Helga á dögunum kom í kjölfar þess að hjálparsamtökin Solaris kærðu ummæli Helga í Vísisviðtalinu til lögreglu, á grundvelli þess að þau væru meint brot gegn meiðyrðalöggjöfinni, og tilkynntu samtökin kæruna til embættis ríkissaksóknara. Í áðurnefndu viðtali sagði Helgi að við værum að flytja inn kúltur sem væri ólíkur okkur og hingað kæmu menn sem virði ekki gildi samfélagsins. „Það eina sem stoppar þá er hnefinn, valdbeiting. Ekki er alls staðar sú sama afstaða til laga og réttar og hjá okkur. En við verðum að sætta okkur við það,“ sagði Helgi í þessu viðtali.

Helgi segir að deila megi um hvort orðalag hans í viðtalinu hafi verið heppilegt en innihaldið hafi verið sannleikanum samkvæmt og tilefni orðanna hafi verið sú ógn sem hann og hans fjölskylda hafi mátt þola af hendi Kourani.

„Menn geta velt fyrir sér hvort orðalagið hafi verið heppilegt eða ekki en kjarni málsins er sá að það sem ég var að segja er satt. Það vita allir hvað er í gangi, þetta er ekki ný vitneskja. Þetta blasir við öllum sem hafa augu og eyru og þekkja einhvern annan en sjálfan sig.“

Keypti öryggiskerfi til að vernda fjölskylduna

„Ég sá strax að það þurfti að taka þetta alvarlega því maðurinn var búinn að sýna af sér ofbeldi og búinn að sýna að hann var til alls líklegur. Maður hafði ekki efni á því að setja börnin manns í þá hættu að taka þetta ekki alvarlega,“ segir Helgi sem greip til varúðarráðstafana gegn Kourani en segist þar engan stuðning eða skilning hafa fengið hjá yfirmanni sínum, ríkissaksóknara.

„Aðalatriðið og tilefni umrædds viðtals er þessi ógn sem ég og fjölskylda mín höfum búið við. Það er ekkert til að hafa í flimtingum. Þetta er töluvert álag, þegar maður í þrjú ár er alltaf að tékka á myndavélinni hvort það heyrist eitthvert píp vegna þess að öryggismyndavélarnar sem ég keypti hafa látið mig vita hvort einhver væri að sniglast í kringum húsið heima hjá mér. Það var aðferðin sem ég hafði til að fylgjast með því hvort einhver bankaði upp á hjá börnunum mínum. Þetta er veruleikinn í málinu, en það er búið að blása upp aukaatriði, um það hvort einhver móðgist yfir einhverju orðalagi. Ég veit eiginlega ekki hvert við erum að fara.“

Sjálfur telur Helgi að innihald þess sem hann sagði hafi verið bæði sannleikanum samkvæmt og yfirvegað, þó að deila megi um orðalag. „Ég hef aldrei haft neitt á móti því að fólk sé ósammála mér og það má segja sína meiningu á mér, en að það sé orðið aðalatriði að einhverjum hafi sárnað það sem ég sagði, það þykir mér skrýtið.“

Varðandi þá gagnrýni sem sett hefur verið fram, að Helgi hafi með ummælum sínum gert sig vanhæfan til að fjalla um mál tilekinna þjóðfélagshópa, segir Helgi:

„Málið er að það það er til sérstakt hæfi og almennt hæfi. Almennt hæfi er bara það sem þú þarft að uppfylla til þess að fá starf. Sérstakt hæfi snýst um hvort þú sért hæfur til að afgreiða ákveðin mál. Þú heyrir um það nánast á hverjum degi að einhver dómari segir sig frá eða telst vanhæfur til að dæma í tilteknu máli – það er ekki brottrekstrarsök. Það er gengið ansi langt þegar því er haldið fram að ég sé vanhæfur vegna þess að ég lýsi yfir skoðun á framgöngu Kourani, sýrlenskum flóttamanni sem er að hóta mér og fleirum og brýtur af sér hérna. Að skoðun mín á þeirri framgöngu geri mig vanhæfan gagnvart öllum Sýrlendingum sem leita til ákæruvalds eða lögreglunnar. Ágætur lögmaður sagði að sýrlensk kona sem hefði verið nauðgað þyrfti að geta treyst kerfinu. Guð minn góður! Það er nú mitt hlutverk að taka á brotamönnum og ef það er orðin einhver vanhæfisástæða að ég hugsi ekki nógu hlýlega til harðsvíraðra ofbeldismanna þá finnst mér vera fokið í flest skjól.“

Gífurlegur stuðningur almennings

Aðspurður segist Helgi hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá almenningi vegna málsins. „Alveg gríðarlegur stuðningur. Bláókunnugt fólk hefur verið að stöðva mig í Bónus og víðar til að stappa í mig stálinu og þakka mér fyrir að segja sannleikann og lýsa yfir stuðningi við mig. Ég er ekki í pólitík og þetta hefur kannski enga þýðingu en það er samt augljóst hvaða augum almenningur lítur þessi mál –  þeir sem eru ekki í lobbíisma fyrir einhverja hagsmuni.“

Helgi bendir á að það hafi ekki verið hluti af hans starfsskyldum sem vararíkissaksóknari að bregðast við þeim hótunum sem Kourani beitti hann og fjölskyldu hans. „Það er nú kannski kjarninn í þessu. Hvaða áhrif þessar ofsóknir, sem hafa ekkert með starfsskyldur mínar að gera, hafa haft á mig og mína fjölskyldu. Mér þykir það vera aukaatriði að eitthvað hafi ekki verið nógu vel orðað af minni hálfu. Stundum er ég dálítið hvass og það gefur fólki færi á því að lesa eitthvað ljótt út úr því sem maður segir. En ég held að fólk viti hvar það hefur mig, veit ekki hvort það er kostur. Í þessu sem ég sagði var ég engan veginn að sirka út ákveðinn hóp út frá trúarbrögðum, þjóðerni eða litarhafi, það var ekki neitt slíkt.“

Helgi er sem stendur í sumarfríi vestur á Þingeyri. Hann fékk ekki vitneskju um áminningu ríkissaksóknara gegn sér fyrr en allir starfsmenn embættisins höfðu fengið veður af henni. Stuttu síðar var málið komið til fjölmiðla. „Ég sá ekki tölvupóstinn til mín fyrr en það var komin tilkynning um hann til alla starfsmanna. Það var enginn aðdragandi að neinu.“ Átelur Helgi þessi vinnubrögð yfirmanns síns. Hann ítrekar að ástæðan fyrir því að hann var hvassorður um málefni Kourani liggi í því mikla álagi sem hann hafi þurft að þola vegna hótana brotamannsins í garð sín og fjölskyldu sinnar:

„Maður áttar sig kannski ekki á því fyrr en á einhverjum tímapunkti hvaða áhrif svona hótanir hafa á mann, þegar þær beinast gegn fjölskyldunni. Skítt veri með það þó að maður lendi í einhverju sjálfur en maður getur ekki hugsað þá hugsun til enda að börnin manns lendi í einhverju út af störfum manns. Maður á ekkert dýrmætara en börnin sín. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig manni líður í slíkum kringumstæðum. Það að ég hafi ekki verið nógu blíðmæltur í einhverju blaðaviðtali finnst mér vera algjört aukaatriði, eða að einhver hafi hugsanlega móðgast fyrir hönd sinna samtaka. Ég segi, horfið á efnið og gleymið ykkur ekki í einhverri vandlætingu og móðgun. Við gerum mikið af því að hneykslast á náunganum en við skulum samt reyna að koma auga á kjarna málsins. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Ferðamenn lýsa undarlegri tilfinningu eftir að hafa heimsótt Ísland 

Ferðamenn lýsa undarlegri tilfinningu eftir að hafa heimsótt Ísland 
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Myndband: Þjófur handtekinn með peningakassa eftir innbrot í verslun í Kópavogi

Myndband: Þjófur handtekinn með peningakassa eftir innbrot í verslun í Kópavogi