fbpx
Föstudagur 05.júlí 2024
Fréttir

Mál Kourani vekur upp spurningar um ósakhæfi – „Honum er alveg sama um fólk sem er dálítið óhuggulegt“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 3. júlí 2024 15:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur heyrt þeirri skoðun fleygt í óformlegu spjalli við lögmenn að þröskuldur fyrir ósakhæfi í sakamálum á Íslandi sé hár. Brjálæðislegir glæpir og órökrétt framkoma sakborninga vekja stundum upp þá spurningu hvort viðkomandi sé sjálfráður gerða sinna.

Sú spurning hefur vaknað varðandi Mohamad Kourani sem ákærður er fyrir manndrápstilraun og stórhættulega líkamsárás með hnífi í versluninni OK Market, og fleiri brot.

Aðalmeðferð í máli Kourani var við Héraðsdóm Reykjaness í morgun og svör sem hann gaf þar við spurningum saksóknara og dómara voru mjög sérkennileg.

Sjá einnig: Réttarhöld yfir Mohamad Kourani – Reyndi að svipta mann lífi í OK Market – „Ég gerði ekki neitt“

Kourani sagðist ekki hafa framið glæpinn í OK Market þó að í réttarsalnum væri spilað myndband úr öryggismyndavél sem sýnir hann fremja glæpinn. Sagðist hann ekki vera maðurinn á myndbandinu. Svör hans þegar hann var beðinn um að tjá sig um ákæruliði voru út í hött, t.d. þessi:

„Þú ert ekki að tala um lögmál, þú ert bara að tala um eitthvað sem þú vilt“ – „Ég er ekki ógnandi maður, ég er venjulegur maður, ef þið ætlið að halda mér lengur í fangelsi þá verður það vandamál“ –  Hann sagði að saksóknari ætti að beina spurningum sínum til Frakklands og Bretlands – Ennfremur sagði hann að blaðamenn gætu ekki skrifað um mál hans án þess að fá leyfi frá honum, það nægði ekki að fá leyfi frá dómara til að fjalla um málið. – „Við erum í umræðu sem gagnast ekki,“ sagði hann ennfremur, er saksóknari og dómari ítrekuðu beiðnir sínar um að hann tjáði sig um ákæruliði. Sagðist hann vilja fjalla um önnur mál í réttarhöldunum en ákæruna gegn sér.

DV hefur heimildir fyrir því að Kourani hafi verið lagður inn á geðdeild fyrir skömmu og hafi það valdið því að aðalmeðferðinni í máli hans var frestað.

Sjá einnig: Kourani hótaði blaðamanni DV

Í 15. grein almennra hegningarlaga segir eftirfarandi um ósakhæfi:

„Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“

Læknisfræðilegt og lögfræðilegt viðfangsefni

Ómar R. Valdimarsson lögmaður er réttargæslumaður brotaþola í málinu sem gerir miskabótakröfur á hendur Kourani. Ómar segir að í hans huga sé það „kolruglað“ að Kourani sé metinn sakhæfur en þó vilji hann í raun ekki gefa út álit sitt á því heldur styðjast við mat lækna:

„Ég vil bara eftirláta læknum það. Það er búið að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé sakhæfur, það er erfitt fyrir mig að segja nákvæmlega hvar mörkin liggja, hvað er klínískt ósakhæfi og hvað ekki.“

Ómar segir ósakhæfi vera bæði læknisfræðilegt og lögfræðilegt viðfangsefni:

„Ósakhæfi er í senn læknisfræðilegt mat og lögfræðilegt mat. Það eru læknar sem meta ósakhæfi en síðan er það alltaf dómari sem metur hvort hann telji að matið sé rétt. Þannig að dómarinn er sá sem hefur endanlegt mat á því hvort úrskurðað sé hvort einhver sé ósakhæfur eða ekki. Það hefur komið fyrir einstaka sinnum að dómari hafi dæmt þvert á niðurstöðu lækna um hvort einhver sé ósakhæfur,“ segir Ómar.

Geðlæknirinn hefur einnig greint frá því að Kourani hafi lent í skelfilegri lífreynslu í heimalandi sínu, Sýrlandi.

Óhugnanlegar upplýsingar frá geðlækni

Ómar greinir DV frá því að geðlæknirinn sem mat ástand Kourani, Kristinn Tómasson, hafi metið hann siðblindan og með persónuleikaröskun, en þó alls ekki ófæran um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. „Þarf aðallega aðstoð en vegna viðhorfa hans er það erfitt. Honum finnst eiginlega allar aðgerðir leyfilegar til þess að réttlæta það sem honum finnst rétt,“ hefur Ómar eftir geðlækninum.

Geðlæknirinn segir enn fremur: „Honum er alveg sama um fólk sem er dálítið óhuggulegt.“ – Segir Ómar jafnframt að geðlæknirinn hafi lýst geðrofseinkennum hjá Kourani sem virðast stopul og líða hjá.

Ómar bendir á að geðlæknirinn hafi tekið viðtal við Kourani undir sérstökum viðbúnaði lögreglu til að tryggja öryggi hans. Sé þetta í fyrsta skipti sem viðkomandi geðlæknir taki viðtöl við aðila við þær aðstæður.

Brotið missir merkingu við ósakhæfi

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að oft og iðulega séu brotamenn sem fremja vitfirringslega glæpi metnir sakhæfir. Frægt dæmi um það sé norski fjöldamorðinginn Anders Breivik.

Blaðamaður hefur þann skilning á sakhæfi að viðmiðið sé að gerandi geri sér grein fyrir verknaðinum og afleiðingum hans á verknaðarstundu. Helgi segir þessa skilgreiningu rétta: „Já, það er málið.“ Helgi segir að brot missi merkingu við það að gerandinn sé metinn ósakhæfur:

„Þegar gerandi brots er dæmdur ósakhæfur verður að sýkna hann. Brotið missir því í raun alla merkingu, athæfi framið af einstaklingi sem gerði sér ekki grein fyrir gjörðum sínum eða afleiðingum brotsins. Á verknaðarstundu er lykilatriði. Brotið verður þá eins og hvert annað slys eða náttúruhamfarir, í raun er enginn ábyrgur. Stundum er erfitt að sætta sig við slík málalok eins og mörg dæmi sanna.“

Helgi segir að ósakhæfi sé ekki alltaf eftirsóknarverð niðurstaða fyrir hinn ákærða:

„Ósakhæfi lætur menn samt ekki alltaf sleppa vel. Þá er viðkomandi undir mati sérfræðinga um hvort hann sé hættulegur sér eða öðrum og það mat getur jafnvel verið óbreytt ævilangt á viðeigandi stofnun.“

Helgi bendir einnig á að áhrif áfengis- eða vímuefna gefi engan afslátt af sakhæfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk
Fréttir
Í gær

Kristinn Jens lagði Þjóðkirkjuna sem verður að greiða honum skaðabætur – Atvinnulaus og tekjulaus eftir að embættið var lagt niður

Kristinn Jens lagði Þjóðkirkjuna sem verður að greiða honum skaðabætur – Atvinnulaus og tekjulaus eftir að embættið var lagt niður
Fréttir
Í gær

Anna þurfti í sex verslanir til að kaupa inn vörur sem heilbrigðisráðuneytið segir aðgengilega í venjulegum matvöruverslunum – „6210 kr. fyrir 20 pylsubrauð“

Anna þurfti í sex verslanir til að kaupa inn vörur sem heilbrigðisráðuneytið segir aðgengilega í venjulegum matvöruverslunum – „6210 kr. fyrir 20 pylsubrauð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Það er þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt að við byggjum upp íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga“

„Það er þjóðhagslega gríðarlega mikilvægt að við byggjum upp íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Handtekinn vegna líkamsárásar

Handtekinn vegna líkamsárásar