fbpx
Laugardagur 06.júlí 2024
Fréttir

Kristján hjólar í uppgjafaprófessor út af „helför“ RÚV – „Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að verja með kjafti og klóm þau hryðjuverk sem ég kalla hvorugkynssýki“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 3. júlí 2024 19:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Segja má að undanfarna viku hafi átt sér stað ritdeila um notkun Ríkisútvarpsins á kynhlutlausu máli. Málshefjandi var skáldið Kristján Hreinsson sem kærði Ríkisútvarpið til menningar- og viðskiptaráðuneytis og sagðist í útvarpsviðtali óttast að íslenskan eigi undir högg að sækja þegar breyta á málhefð vegna pólitísks rétttrúnaðar.

Þýðingafræðingurinn Gauti Kristmannsson skrifaði grein í tilefni kærunnar og sagðist velta því fyrir sér hvort vaki fyrir Kristjáni, ást hans til móðurmálsins eða afstaða hans til kynseginsamfélagsins.

Uppgjafaprófessorinn Eiríkur Rögnvaldsson skrifaði svo grein í gær þar sem hann sagði fullyrðingar Kristjáns, um að Ríkisútvarpinu beri að viðhafa lýtalausa íslensku, haldi ekki vatni þar sem ekkert sé til sem hægt sé að kalla lýtalausa íslensku. Kæra Kristjáns væri því „út í hött“.

Kjánaleg blekking

Kristján hóf þessar deilur og ætlar sér greinilega að ljúka þeim líka því nú ritar hann aðra grein þar sem hann sakar Eirík um strámennsku, vanþekkingu og rökvillu.

„Eiríkur Rögnvaldsson fer í saumana á kæru minni og nefnir réttilega að löggjafinn hefur búið svo um hnútana að stuðst er við hugtak sem kallast „lýtalaus íslenska“ og svo reynir Eiríkur að sanna fyrir sjálfum sér að fyrirbærið sé ekki til. Sönnun hans er sett fram af hreinni vanþekkingu og valtvennuvilla látin duga. Eiríkur gefur sér einungis tvo kosti, annað hvort er lýtalaus íslenska til eða ekki til í raunverulegu tungumáli. Í rökskekkjunni leynist kjánaleg blekking. Höfundur pistilsins gefur sér einungis þá kosti sem henta honum í leit að niðurstöðu. Hann sneiðir viljandi hjá þriðja möguleikanum sem reyndar er ljóslifandi staðreynd: Lýtalaus íslenska er til sem lagaleg skilgreining. Geta má sér þess til að hugtakið vísi í að almennar málvenjur og reglur t.d. í málfræði séu lagðar til grundvallar. Í kæru minni fer ég ekki eftir smekk Eiríks Rögnvaldssonar, heldur er það laganna hljóðan sem ríkjum ræður.

Eiríkur kemst að þeirri stórkostlegu niðurstöðu að kæra mín sé „út í hött“. Þeirri fullyrðingu, sem reist er á rökvillu, fylgir Eiríkur svo úr hlaði með því að gera mér upp skoðun.“

Kristján sakar Eirík, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, um að misskilja íslenska málfræði. Eiríkur leggi saman líffræðilegt kyn og málfræðilegt kyn.

„Að mínum dómi er til skammar fyrir allt þenkjandi fólk að uppivöðsluseggir fái að flagga þeim misskilningi sem hér er lýst. Himnesk hræsni blasir við. Þeim sem hafa fallið fyrir hinum þríþætta misskilningi þykir eðlilegt að líta á sína leið sem hina einu réttu. Kenna skal alþýðunni allt um nýstárlega kynvitund, nýtt siðferði og nýja þróunarkenningu tungumálsins. Ef ekki er hægt að breiða út fagnaðarerindið með haldbærum rökum, þá skal það gert með falsrökum, lygi og þvergirðingshætti.“

Helför Ríkisútvarpsins

Kristján fer svo mikinn og segir Ríkisútvarpið stunda kynhreinsun á íslenskri tungu sem hann kallar „helför starfsmanna“ ríkismiðilsins. Kristján segist vorkenna Eiríki, svo barnalegur sé málflutningur hans. Eiríkur sé að réttlæta það að Ríkisútvarpið brjóti lög, enda komi skýrt fram í lögum um Ríkisútvarpið að miðlinum beri að viðhafa „lýtalausa íslensku.“

„Það sem upp úr stendur er að Eiríkur Rögnvaldsson ætlar að verja með kjafti og klóm þau hryðjuverk sem ég kalla hvorugkynssýki. Hann ætlar einkum að beita rökvillum og gervivísindum, jafnvel smjörklípu um enskuslettur og átyllurökum um fordóma, þar eð haldbær rök og vísindi finnast ekki í vopnabúri þeirra sem verja vilja lögbrot og ósóma.“

Fyrir þá lesendur sem ekki kunna utanbókar Lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013 þá segir þar vissulega að miðillinn skuli leggja áherslu á að „allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku“. Þetta kemur fram í 1. mgr. 6. gr. laganna en þar er þó fjallað um textun og táknmálstúlkun. Þar segir að efni á erlendu máli skuli fylgja íslenskt tal, íslensk talsetning eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Slíkt skuli gert með áherslu á „lýtalausa íslensku“.

Hvað segja lögin?

Eiríkur vísaði í grein sinni til 1. gr. laganna þar sem segir að markmið þeirra sé m.a. að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi. Um er að ræða markmiðsgrein sem þýðir að lögin ber að túlka í samræmi við þau markmið sem þau stefna að.

Svo segir í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum um Ríkisútvarpið að á miðilinn séu lagðar þær skyldur að gera sitt ýtrasta til að miðla íslensku máli þannig að hlustendur, lesendur og áhorfendur geti treyst því að tal og texti sé ávallt á lýtalausri íslensku. Sérstaklega er þó tekið fram í þessu samhengi að gert sé ráð fyrir að málstefna Ríkisútvarpsins sé í stöðugri endurskoðun og í henni einnig sett fram viðmið um mismunandi málsnið eftir tegundum dagskrárefnis.

Eins er tekið fram í frumvarpinu að Ríkisútvarpið hafi sérstöku hluti að gegna og sé ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna í dagskrá og allri annarri starfsemi.

Málstefna RÚV, sem miðillinn hefur sett sér í samræmi við frumvarpið, vísar til þjónustusamnings við ráðuneytið. Kristján gefur lítið fyrir þennan samning sem hann telur að geti ekki trompað lögin. Rétt er þó að geta þess að lögin eru túlkuð meðal annars út frá greinargerð með frumvarpi og þar er gert ráð fyrir að miðillinn seti sér málstefnu. Lögin ber einnig að túlka í samræmi við þjónustusamninginn enda sækir hann grundvöll sinn til 4. mgr. 2. gr. laganna þar sem segir „Ráðherra gerir samning við Ríkisútvarpið um fjölmiðlun í almannaþágu til fjögurra ára í senn“.

Lögin kveða í engu á um hvað telst sem „lýtalaus íslenska“ heldur gera ráð fyrir að Ríkisútvarpið sé með puttann á púlsinum, með málstefnu sem sé endurskoðuð með reglulegum hætti, sem stuðli að markmiðið laganna og að Ríkisútvarpið geri samning við ráðherra sem kveður nánar um markmið, hlutverk, skyldur og umfang starfseminnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stórsigur Verkamannaflokksins – Starmer verður forsætisráðherra

Stórsigur Verkamannaflokksins – Starmer verður forsætisráðherra
Fréttir
Í gær

Hryðjuverk í Kákasus sýnir veikleika Rússa á svæðinu

Hryðjuverk í Kákasus sýnir veikleika Rússa á svæðinu
Fréttir
Í gær

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl

Alvarlegt umferðarslys við Gígjukvísl
Fréttir
Í gær

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk