Veðurstofan hefur sent frá sér nýja tilkynningu vegna þróunar jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Í tilkynningunni segir að skjálftavirkni síðustu daga hafi aukist lítillega og að aukin smáskjálftavirkni hafi mælst snemma í morgun. Einnig kemur fram að kvikusöfnun og landris haldi áfram á jöfnum hraða og að áfram sé gert ráð fyrir nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu tveimur vikum.
Sérstaklega er tekið fram að kvikuhlaup án eldgoss geti skapað hættu og valdið tjóni í Grindavík.
Í tilkynningunni segir ennfremur að í morgun upp úr klukkan átta hafi mælst aukin smáskjálftavirkni á Sundhnúkgígaröðinni. Virknin hafi staðið yfir í um 50 mínútur og sé að öllum líkindum merki um að þrýstingur sé að aukast í kerfinu. Ekki hafi mælst marktækar breytingar á aflögun eða borholuþrýstingi samhliða skjálftavirkninni. Sambærilega kvikuhreyfingar hafi mælst í aðdraganda fyrri atburða á svæðinu.
Veðurstofan segir að lokum í tilkynningunni að hún muni senda frá sér uppfært hættumat í lok dags á morgun, að öllu óbreyttu.