fbpx
Mánudagur 29.júlí 2024
Fréttir

Ferðamaður sem heimsótti Ísland nýlega segir þetta hafa breyst til hins verra frá síðustu heimsókn árið 2015

Ritstjórn DV
Mánudaginn 29. júlí 2024 20:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ferðamaður sem kom til Íslands nýlega segir að eitt hafi breyst sérstaklega frá síðustu heimsókn hans hingað til lands árið 2015. „Í ferðinni árið 2015 rakst ég vitanlega á fjölda ferðamanna en það var ekkert í líkingu við fjöldann árið 2024,“ segir maðurinn.

Hann birti færslu um þetta í Reddit-hópnum Visiting Iceland um helgina.

Maðurinn segist hafa ferðast til Íslands árið 2015 eftir að hafa lesið bók um landið í framhaldsskóla árið 2007 og orðið yfir sig ástfanginn af landinu.

Kvíðavaldandi aðstæður

Í færslunni ber hann saman muninn á þessum tveimur heimsóknum og virðist hann vera þeirrar skoðunar að ferðamenn hér á landi séu orðnir aðeins of margir.

„Árið 2015 gat maður rúllað eftir þjóðveginum og stoppað í hvert skipti sem maður sá eitthvað forvitnilegt, tekið myndir og varið smá tíma í að drekka í sig umhverfið áður en haldið var af stað aftur. Í þetta skiptið ákváðum fyrir að yfirgefa suðurströnd landsins því þetta var of kvíðavaldandi,“ segir maðurinn.

Hann tekur fram í færslunni að hann sé með einhverfu og kunni alla jafna ekki vel við sig í miklum mannfjölda. Það sem einhverjum finnst hæfilegur fjöldi sé kannski of mikill fjöldi fyrir hann. Hann nefnir samt nokkur dæmi um óþægileg augnablik í ferðinni.

„Það kom nokkrum sinnum fyrir að bílum var ekið fyrir aftan okkur þar sem ökumenn blikkuðu háu ljósunum á okkur, jafnvel þó veðurskilyrði væru erfið og ökutæki væru fyrir framan okkur. Fólk lagði jafnvel bílum sínum á sjálfum vegunum til að taka myndir og einn hópur lá á miðjum þjóðvegi til að taka myndir,“ segir hann og bætir við að þetta hafi boðið hættunni heim.

Sóðaskapur og slæm hegðun

Hann segir að við Gullfoss hafi verið mikill sóðaskapur; blautar samlokur, bananahýði, umbúðir og plastflöskur þó að margar ruslatunnur væru á svæðinu. „Í nokkur skipti tíndi ég upp rusl og henti því í tunnuna sem var innan við einum metra frá.“

Hann nefnir einnig að hegðum sumra ferðamanna hafi verið hræðileg. „Ég sá fólk ýta öðru fólki, foreldra draga börn sín inn á hættuleg svæði og fólk sem komst ekki út af svæðum vegna troðnings. Svo voru dæmi um ferðamenn sem misstu stjórn á skapi sínu vegna annarra ferðamanna sem voru fyrir þeim að þeirra mati.“

Maðurinn segist hafa talið að hann myndi komast hjá þessum troðningi með því að ferðast um Vestfirði og Snæfellsnes. „En því miður þá virðist þetta vera gegnumgangandi um alla eyjuna.“

Dásamar Íslendinga

Maðurinn segir að þetta sé sorglegt og reynsla hans af heimamönnum sé ekkert annað en frábær. „Við höfum kynnst fólki á Íslandi sem við lítum á sem vini okkar og það var hrein unun að tala við hvern einasta heimamann.“

Maðurinn segir að ekki megi misskilja hann, ferðin hafi heilt yfir verið frábær og hann hafi notið þess að heimsækja Ísland. „En þegar við vorum á leiðinni heim hugsaði ég að ég myndi sennilega ekki koma aftur nema til að vera í litlum bæ eða þorpi þar sem ekki er höfn fyrir skemmtiferðaskip.“

Hann nefnir að Selfoss, Seljalandsfoss og Ísafjörður hafi verið boðið upp á verstu reynsluna en staðan hafi verið óvenju góð í Reykjavík. „Kannski eru innviðir þar sem ráða bara betur við þennan fjölda.“

Ætlar að koma næst á öðrum árstíma

Færsla ferðamannsins vakti töluverða athygli og benda sumir á að hann ætti frekar að koma til landsins utan háannatímans sem er yfir sumarmánuðina. Þá gagnrýna sumir manninn fyrir hræsni, hann sem túristi sé að kvarta yfir öðrum túristum.

„Þið ykkar sem segið að ég sé hræsnari þá er það alveg rétt hjá ykkur. Mér líður illa yfir því að hafa tekið þátt í að stuðla að þessum troðningi. Ég mun klárlega heimsækja landið yfir á öðrum árstíma og hef núna lært mína lexíu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stjórnlausir ungir menn handteknir af lögreglu

Stjórnlausir ungir menn handteknir af lögreglu
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Skortur á vinnuafli er stórt vandamál í Rússlandi

Skortur á vinnuafli er stórt vandamál í Rússlandi