fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Neita að fara með valdníðslu kerfisins í gröfina – „Það var brotið hryllilega á okkur“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 28. júlí 2024 08:36

Viktor og Sigurður Árni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjómennirnir Sigurður Árni Jónsson og Viktor Rúnar Þórðarson misstu allt sitt þegar „samtryggingarkerfi valdsins með helstu ráðamenn landsins í broddi fylkingar,“ komu að sögn í veg fyrir að nýir bátar þeirra fengju að veiða hér við land. Málið á sér langa sögu, en í ljósi nýrra endurupptökumála, vilja vinirnir að mannorð þeirra verði hreinsað og að yfirvöld viðurkenni að þeir hafi verð beittir órétti.    

Það virðist kannski vera ótrúverðugt að þáverandi ráðherra dómsmála og sjávarútvegs, umboðsmaður Alþingis, ásamt forystumönnum Hæstaréttar og smábátaeigenda hafi á sínum tíma beitt sér gegn því að ný tegund norskra plastbáta fengi leyfi til veiða við strendur Íslands, en það er í öllu falli sannfæring tveggja íslenskra sjómanna sem hafa áratugum saman reynt að fá hlut sinn bættan, en án árangurs. Þeir segjast vera sárasaklaus fórnarlömb samtryggingakerfisins og hefðbundinnar hérlenskrar spillingar, en hefndarþorsti, öfund og ótti við ríkisvaldið hafi ráðið öllu um það hvernig fór fyrir þeim – og vilja nú segja sögu sína opinberlega, svo hún fari ekki með þeim í gröfina.

Bátar sem smellpassa

Sögunni vindur aftur til ársins 1989, en þá ákveða sjómennirnir Sigurður Árni Jónsson og Viktor Rúnar Þórðarson, búsettir á suðvesturhorninu, að kaupa hvor sinn nýja Sortland-bátinn sem framleiðsla er hafin á í Norður-Noregi. Í slagtogi með þeim er Bolvíkingurinn Jakob Ragnarsson sem er öllu stórtækari, því hann festir sér tvo báta af sömu gerð, svo sannfærður sem hann er um ágæti þeirra.

Sortland-bátarnir þykja sjóvænir í meira lagi. Þetta eru kjölbátar sem rista vel, með djúpan skútulaga skrokk, og fyrir vikið stöðugir á rúmsjó. Ytra byrðið er úr harðplasti, einskonar samloka með einangrun á milli. Lengdin er rétt rífir níu metrar og breiddin tæpir þrírr  – og lestin, sem er með opnum stýjum, er ríflega hálfur annar metri á dýptina. Þá er stýrihúsið frambyggð, nokkuð stórt og rúmgott, með svefnplássi fyrir þrjá í stefni skipsins.

Íslenskur umboðsmaður bátanna á þessum tíma, Garðar Björgvinsson, sem starfar við bátasmiðju í Hveragerði þegar hér er komið sögu, segir við þá félaga að fleytur af þessu tagi „smellpassi inn í íslenska kerfið“ fyrir dagróðrabáta, enda sé rúmtak þeirra sniðið að þar til bærum reglugerðum og fullnýti heimildir sem þær kveða á um. Svo því þá ekki að slá til.

Þeir félagar halda utan til bæjarins Sortland sumarið 1990, litlu norðan við Bodö í norðurhéruðum Noregs, en bátarnir er kenndir við bæinn, og hyggjast hjálpa til við innréttingar og endanlegan frágang þeirra.

Og hefst þá harmasagan.

Sigurður Árni á skipsdekki árið 1990

Bátarnir lenda útbyrðis

Fullbyggðum er nýjum bátum þeirra Sigurðar og Viktors siglt niður til Stavanger við suðurströnd Noregs þegar komið er fram í ágúst. Íslensku kaupendurnir standa sjálfir við stýrið og kunna strax vel við kænurnar, því þótt þær séu heldur hæggengar miðað við marga sambærilega báta að heiman, þykir þeim  stöðugleikinn bæta það upp og gott betur. Þeir raskast ekki í róti hafsins.

Bátunum er komið um borð í flutningaskipið Hvassafell, sem gert er út af Samskipum, og njörvaðir niður á lestarlúgu þess. Svo er siglt út til Íslands í september, og í fyrstu komið við á Akureyri, þar sem losa þarf bátana vegna affermingar annars varnings, en því næst á Hvassafellið að halda yfir á Sauðárkrók.

Það gerir aftur á móti afleitt veður í mynni Eyjafjarðar. Nýju bátarnir frá Noregi byrja að ramba á lúgunni. Og á endanum bregðast böndin, sem reynast ekki þola nema fimm tonna átak, og þeir hafna báðir í sjónum. Skeljarnar laskast við volkið, sérstaklega önnur þeirra, en vél hennar fyllist af sjó. Bátunum er þó báðum bjargað af nærstöddum sjómönnum sem draga þá til hafnar í Ólafsfirði.

Það kemur í hlut Sigurðar og Viktors að greiða hvor sína hálfu öðru milljónina í björgunarlaun, og eftir viðgerð þeirra í Bátalóni í Hafnarfirði þurfa þeir hvor um sig að punga út fimm milljónir króna.

En vitaskuld héldu vinirnir að Samskip ábyrgðist tjónið. En svo var þó ekki þegar til kastanna kom. Starfsmanni skipafélagsins í Noregi yfirsást að tryggja bátana í flutningi, svo sem honum bar, að sögn nýju eigendanna. Lögfræðiæfingar skiluðu engu nema skeytasendingum, að sögn Sigurðar og Viktors. Og þeir sátu á endanum uppi með tjónið.

En lengi getur vont versnað.

Skráningu hafnað

Og kemur nú til kasta kerfisins, sem kallar ekki allt ömmu sína, eins og vinirnir komast að orði, en þeir voru þá í þann mund að fá yfir sig mesta pusið.

Ríkjandi smábátakerfi þessa tíma gerði ráð fyrir fimmtán metra hámarkslengd. Sortland-bátarnir voru vel undir því viðmiði, nákvæmlega níu metra og tuttugu og tveggja sentimetra langir. Reglum um leyfilegt rúmtak er aftur á móti breytt fyrir veiðarnar 1991 og kveða á um að hámarki 9,99 brúttótonna báta. Sortland-bátarnir, sem höfðu verið mældir rétt ríflega 13 brúttótonn samkvæmt norskum reglum og útreikningum, reynast aftur á móti mælast 9,45 brúttótonn í íslenska kerfinu. Svo þeir eru líka innan marka hvað burðargetuna varðar í íslenskri lögsögu.

En þá er því ekkert til fyrirstöðu, telja vinirnir, að skrásetja bátana í tíma svo þeir fái leyfi til veiða um sumarið. Þeir vita sem er að skráningin þarf að liggja fyrir um miðjan maí, og sjá því til þess að búið sé að forskrá þá hjá Siglingastofnun 12. maí 1991. Þar er þeim tjáð sama dag að bátarnir séu komnir inn í kerfið og fái fullgild haffærisskírteini í ljósi forskráningarinnar.

En það reynast orðin tóm.

„Kerfið neitaði að viðurkenna forskráninguna,“ segir Viktor. „Það fann tylliástæðu til að fella okkur,“ bætir hann við. „En sú fiskisaga flaug að bátarnir væru of stórir fyrir íslenska kerfið, þótt allar mælingar sýndu annað.“

„Það líður fram á sumar,“ segir Sigurður „og við sitjum uppi með báta sem við megum ekki hreyfa til veiða, en því er haldið fram að skráning þeirra hafi borist of seint til þar til bærra aðila,“ segir hann enn fremur.

„Þetta er með öllu óskiljanlegt,“ segir Viktor. „Skráning og stimpill fara ekki saman, ekki frekar en hljóð og mynd í þessu máli öllu saman. Og auðvitað fauk í okkur, þó það nú væri. Ég segi við Sigga, eigum við ekki bara að ganga á fund Vigdísar forseta?“

Sem þeir og gerðu og benda á að forsetinn hafi bænheyrt þá – og gott betur, því Vigdís hafi beitt sér gagnvart ráðherra á framhaldi af fundum þeirra. Svo augljóst sem ósamræmið hafi verið í augum hennar.

Viktor með einn dröttung

Valdið sýnt!

Sigurður og Viktor verða þess snemma áskynja um þetta leyti að rík andstaða er innan Samtaka smábátaeigenda við norsku bátana. Þar hafi framámenn haldið því fram að Sortland-bátarnir væru bæði of stórir og rúmtaksfrekir til að standast samjöfnuð við aðra dagróðrabáta í kerfinu. „Þessir bátar ykkar verða aldrei samþykktir,“ heyra þeir forkólfa samtakanna segja opinberlega.

Þeir halda því jafnframt fram að innan sjávarútvegsráðuneytisins hafi líka verið andstaða við bátana. Og hún hafi stafað af persónulegri heift. „Garðar Björgvinsson, umboðsmaður Sortland-bátanna hafði staðið í persónulegu hnútukasti við Halldór Ásgrímsson, sjávarútvegsráðherra á þessum árum, sem var litlu áður líka dómsmálaráðherra“ rifja þeir upp. „Garðar hafði eins og frægt varð verið dæmdur fyrir að rassskella lögmann og óskaði eftir því við ráðuneyti dómsmála að fá að sitja af sér refsinguna þegar hvað minnst var við að vera í starfi hans. Hann fékki persónulega og prívat andsvar við þeirri málaleitan frá Halldóri, sem sagði málaleitan Garðars ekki koma til greina – og urðu af þessu máli miklar krytur á milli þeirra, svo ekki sé meira sagt,“ bæta þeir við að segjast líka hafa það eftir Garðari að Halldór hafi hótað honum þegar deila þeirra reis hvað hæst, með þeim orðum að hann skyldi sýna honum hver hefði völdin!

Bátamálið endaði fyrir Héraðsdómi þar sem það vannst sumarið 1995 með þeim dómsorðum að ríkið væri skaðabótaskylt. Ráðuneytið áfrýjaði því til Hæstaréttar þar sem það tapaðist tveimur árum síðar á þeim forsendum að bátarnir hefðu ekki verið komnir á skipaskrá á tilsettum tíma fyrir ársbyrjun 1991.

Sigurður og Viktor telja það óskiljanlegan dóm. „En sjálfsagt sátu þar menn sem vildu ekki rugga bátnum,“ segja þeir, að vonum svekktir – og vísa þar til baráttu dómaranna við réttinn um forsetatignina innan hans á árinu sem fór í hönd.

„Svo við skutum því til Umboðsmanns Alþingis og þaðan var því vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu.“ En þar hafi mál þeirra loks dagað uppi. Það féll með öðrum orðum á tíma, að sagt var.

„Umboðsmaður og einn dómara við MDE er einn og sami maðurinn á þessum árum, Gaukur Jörundsson, og það styrkti okkur í þeirri trú að pólitíkin væri okkur fjötur um fót. Gaukur var nefnilega vel tengdur inn í Framsóknarflokkinn og návinur Halldórs nokkurs Ásgrímssonar,“ segja þeir félagar.

Í öllu falli er eina skýringin sem þeir hafa á málsmeðferðinni sem þeir sættu,  alsaklausir sjómennirnir, og smápeð í samfélaginu, að pólitíkin hafi sett þeim stólinn fyrir dyrnar. „Vegna heiftar og ótta,“ segir Sigurður. „Við urðum fórnarlömb samtryggingakerfisins,“ bætir Viktor við. „Bátum sem kerfið samþykkti, og það alveg klárlega, var hafnað af sama kerfi,“ segir Viktor, og segir það óskiljanlegt. „Það er bara pólitískur óþefur af þessu – og hann finnst enn þá, svona mörgum árum síðar,“ segir Sigurður.

Töpuðu öllu sínu

Í ljósi þeirra mála sem á síðustu árum hafa verið endurupptekin í íslensku dómskerfi finnst þeim vinum tími til kominn að þeir fái líka bætt sitt tjón. „Það var brotið hryllilega á okkur,“ segir Viktor. „Það er betra seint en aldrei að bæta okkur mannorðsmissinn,“ segir Sigurður.

Viktor kveðst hafa tapað öllu sem hann átti á þessum tíma, húsi sínu á Skólavegi í Keflavík, bátnum sjálfum og kvóta. „Það tók mig tíu ár að jafna mig á þessu fjárhagslega, en seint eða aldrei andlega,“ segir hann.

„Báðir töpuðum við náttúrlega heilli sumarvertíð, en í mínu tilviki gat ég selt Sortland-bát minn upp í skuldir,“ segir Sigurður, en kveðst ætla að beint fjárhagstjón hans af völdum þessara ófara hafi verið um fjórtán milljónir á þessum tíma.

Þá tapaði Jakob félagi þeirra í Bolungarvík báðum sínum bátum.

„Það er alveg ljóst að kerfið hér heima, ásamt hagsmunaklíku smábátasjómanna, var bara búið að bíta það í sig að þessir norsku bátar ættu ekki heima á miðunum við Ísland, þótt þeir uppfylltu öll skilyrði til þess. Það gilti einu þótt lengd þeirra og burðargeta rímaði við þáverandi lög og reglugerðir. Kerfið sagði bara nei, takk, við viljum ekki sjá ykkur,“ segir Viktor.

Hann stundar núna strandveiðar af kappi , kominn fast að sjötugu, og þekkir vart annað en sjómannslífið, hefur verið búsettur í Hafnarfirði, Keflavík og nú síðast í Garði með konu sinni Hrafnhildi Ósk, en saman eiga þau þrjú börn.

Nálega fimmtíu ár eru liðin frá því hann kynntist Sigurði – og auðvitað var það til sjós, á vetrarvettíð 1975 þegar þeir réru báðir á Jóni Helgasyni ÁR 12 sem gerður var út frá Þorlákshöfn.

Félagarnir Viktor og Sigurður Árni

Þrettánda barnið á leiðinni

Sigurður er öllu eldri en Viktor, kominn fast að níræðu, en hann kveðst hafa flúið Ísland eftir mótlætið á tíunda áratug síðustu aldar og komið sér fyrir í Hanstholm á vesturströnd Jótlands. Að vísu reyndi hann aftur fyrir sér á Íslandi um aldamótin, og fór þá að keyra strætó, en hélt aftur utan fimm árum síðar með þeim orðum að „ekkert skánar á skerinu.“

Sigurður er þríkvæntur, bjó í tuttugu ár með norskri konu, þá íslenskri bekkjarsystur Viktors og loks filippeyskri konu að nafni Vismin. En með þessum konum og fleirum til á hann samtals tólf börn „og það þrettánda er á leiðinni,“ upplýsir Sigurður sem fagnar 90 ára afmæli á þessu ári, en það er einmitt að koma í ljós um þessar mundir að strákur sem kom í heiminn í Noregi fyrir tæpum fjörutíu árum er eftir allt saman sonur Sigurðar sjómanns af Íslandi.

Svona er lífið.

„En ég ætla ekki að fara með þetta mál okkar Viktors í gröfina. Svo mikið er víst,“ segir Sigurður. „Það á ekki að liggja í þagnargildi þegar valdið fer með offorsi á hendur almúganum eins og í þessu tilviki. Þvílík óhæfa má aldrei fyrnast,“ segir hann að lokum, sáttur mjög við að sagan rati seint og um síðir til sinna.

-SER

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus

Ristaðar möndlur og jólasveinar í Bónus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“

Sigurði Árna lögreglumanni ekki gerð refsing fyrir ofbeldi gegn fanga – „Við verðum skelkaðir í aðstæðum og gerum mistök“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar