fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Strokufanginn Gabríel kallar eftir meiri sanngirni fangavarða – „Ég er að reyna að komast út í lífið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 27. júlí 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gabríel Douane Boama vakti þjóðarathygli árið 2022 er hann strauk úr haldi lögreglu í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem mál hans var til meðferðar. Var hann handtekinn nokkrum dögum síðar. Gabríel á langan brotaferil að baki þrátt fyrir ungan aldur og var meðal annars viðriðinn blóðug átök í Borgarholtsskóla í janúar árið 2021.

Gabríel situr nú á Litla-Hrauni fyrir ýmis brot og hefur afplánað alls tvö ár og fimm mánuði af þriggja ára og tíu mánaða dómi. Á hann því eftir að afplána 17 mánuði. Í viðtali við DV greinir hann frá því að hann sé að snúa við blaðinu. Hann hefur nú verið edrú í fimm mánuði og segist hafa gert sér far um að vera fyrirmyndarfangi. En þrátt fyrir þessi umskipti lendir hann enn upp á kant við fangaverði og segir hann þar valda stífni og ófagmennska sumarstarfsmanna. Nýlega var Gabríel settur í sólarhrings einangrun fyrir agabrot og hann sviptur ýmsum réttindum. Hann segir refsinguna vera algjörlega tilhæfulausa og umsögn þess efnis að hann hafi brotið af sér vera kolranga. Vildi hann greina frá ófremdarástandi sem hann telur sig búa við og hafði þess vegna samband við blaðamann DV símleiðis frá Litla-Hrauni.

„Ég vil koma dálitlu á framfæri um hvernig fangaverðir eru að koma fram við fanga á Litla-Hrauni. Það er verið að saka mig um að hóta fangavörðum þegar ég er ekki að hóta þeim,“ segir Gabríel. Hann lýsir atviki sem varð fyrir nokkrum dögum og leiddi til þess að hann var beittur viðurlögum, ranglega að hans mati.

Hann sakar tiltekinn kvenkyns fangavörð um að skrifa rangfærslur um sig í skýrslur, m.a. það að hann hafi neitað líkamsleit, sem og að hann hafi hótað sér. Segir Gabríel að hvorttveggja sé rangt.

Vill ekki afklæða sig fyrir framan fangaverði

„Það komu fjórir fangaverðir inn í klefann hjá mér og báðu mig um að afklæða mig. Ég sagði að ef fimm manneskjur myndu biðja mig um að afklæða mig þá myndi ég frekar slást.“ Gabríel bendir á að í þau tvö og hálft ár sem hann hefur setið inni hafi hann aldrei afklæðst vegna líkamsleitar. Hana sé hægt að framkvæma með öðrum hætti.

„Það var skrifað í skýrsluna að ég hefði neitað líkamsleit, en það er rangt. Það sést í öryggismyndavélum að þeir leituðu í vösunum mínum og leituðu með líkamssnertingu. Ég opnaði klofið, teygði úr mittinu á buxunum mínum og var sokkalaus. Ég geri mér grein fyrir því að fangaverðir hafa rétt á að fá að sinna sínum störfum og ég var samstarfsfús við þá þarna.“

Gabríel segir að þessi líkamsleit hafi farið friðsamlega fram og ekkert fundist á honum. Því næst fóru fangaverðirnir að leita í klefanum. Gabríel segist hafa staðið skammt frá dyrunum og beðið fangaverðina um að ganga frá öllu eins og það hafi verið, sérstaklega fötunum hans. Við þessu hafi einn fangavörðurinn, kona, brugðist við með offorsi:

„Hún sagði mér að færa mig frá klefanum. En ég var ekki inni í klefanum, ég var nokkrum skrefum frá honum, og ég má vera viðstaddur klefaleit, það er minn réttur. Þegar ég neitaði að færa mig fór hún að hækka róminn. Þá hækkaði ég róminn á móti því ég svara fólki eftir því hvernig það talar við mig. Svo segi ég þegar hún heldur áfram að hækka róminn: „Á ég að sýna þér?“ Þetta túlka þau sem hótun, sem er ekki rétt. Það sem ég meinti var hvort ég ætti að sýna henni að ég gæti hækkað róminn meira en hún. Orðin „á ég að sýna þér“ eru ekki hótun. Það er málfrelsi á Íslandi.“

Gabríel segir að leitað hafi verið í klefanum hans þrjá daga í röð en ekkert ólöglegt fundist enda hafi hann ekki neytt fíkniefna núna í fimm mánuði. Hann segir hins vegar að ofangreint atvik hafi verið skráð sem agabrot af hans hálfu, að hann hafi neitað líkamsleit og verið með hótanir. Hvorttveggja rangt, að hans mati.

„Ég hef aldrei staðið mig svona vel í afplánun eins og núna en ég fæ ekki þann frið eða þá kurteisi sem hver maður á skilið. Þetta er í fyrsta skipti á mínum tveimur og hálfu ári í fangelsi þar sem ég er beðinn um að afklæða mig í klefaleit. Það kom ekki til greina. En ég leyfði fangaverðinum, að sinna sínu starfi og framkvæma líkamsleit án þess að ég færi úr fötunum, og það var augljóst að ég var ekki með neitt á mér og það hefur ekkert fundist ólöglegt í klefanum. Þetta er bara rangt, að óhæfir fangaverðir setji mig í einangrun fyrir eitthvað sem ég gerði ekki.“

Orðaskiptin við kvenfangavörðinn leiddu til þess að Gabríel var settur í 24 stunda aðskilnað og missti ýmis réttindi, en atvikið átti sér stað þann 20. júlí síðastiðinn. „Ég fékk heimsóknarbann í 30 daga og ég má ekki fá aukabúnað í 60 daga. Bara fyrir að segja „á ég að sýna þér,“ þar sem ég einfaldlega meinti: „Ég get hækkað róminn meira en þú.“  – Segist Gabríel hafa borið þessi orðaskipti undir varðstjóra á Litla-Hrauni sem hafi tekið undir með honum um að þetta væri ekki hótun eða agabrot.

Gabríel segist ekki sjá tilganginn í því að sýna fyrirmyndarhegðun þegar hann fái svona meðferð að launum. Segir hann vandamálið vera fangaverði í sumarafleysingum sem hreinlega þurfi meiri þjálfun og þekkingu. Samskipti við reynda fangaverði gangi miklu betur.

„Ég er búinn að vera edrú núna í fimm mánuði og hef hagað mér mjög vel miðað við síðustu afplánun, ég var alltaf í agabrotum, alltaf að gera eittthvað af mér, og fangaverðirnir og varðstjórarnir segja meira að segja sjálfir að ég hafi hagað mér mjög vel, en þeir eru að koma fram við mig alveg eins og ég hagaði mér síðast. Þess vegna segi ég að þetta er ekki að hjálpa mér að bæta mig sem manneskju til að komast út í samfélagið, þegar það er ekki komið fram við mig eins og manneskju heldur alltaf reynt að niðurlægja mig. Ég er með reiðivandamál og ef það er alltaf verið að espa mig upp þá fæ ég ekki sjensinn til að bæta mig. Ég er að reyna að komast út í lífið og standa mig.“

Missti tvo vini úr ofneyslu

Gabríel segist vilja halda áfram að bæta sig en kallar eftir skilningsríkara umhverfi á Litla-Hrauni.„Ég vil klára mína afplánun með sóma og halda áfram að bæta mig. Halda áfram að mæta í ræktina og fara í körfubolta, spila tölvuleiki. En þetta er mjög erfitt þegar ég veit aldrei hvort hurðin verður opnuð klukkan ellefu og ég beðinn um að fara úr fötunum.“

Edrúmennskan er Gabríel dýrmæt og segir hann að AA-fundir inni á Litla-Hrauni hafi hjálpað. Hins vegar vegi stuðningur fjölskyldu hans mest. „Það skiptir líka miklu máli að undanfarið hafa tveir vinir mínir dáið úr ofneyslu. Af virðingu við þeirra minningu vil ég vera edrú, ég vil ekki nota efnin sem tóku vini mína frá mér,“ segir hann einlægur og alvarlegur.

Gabríel var skýrorður og rökfastur í símtali sínu við DV, kurteis og yfirvegaður. Hann segist vilja sýna öðrum virðingu og að honum sé sýnd virðing á móti.

Hann á enn eftir að afplána um 17 mánuði af refsingu sinni en er að reyna að komast í opið úrræði, t.d. hjá Vernd, enda er það góð leið út í lífið. Hins vegar er ekki hægt að njóta slíkra réttinda í þrjá mánuði eftir agabrot. Það svíður Gabríel mikið þar sem hann telur agabrot sitt ekki vera raunverulegt heldur byggt á rangfærslum.

En hvað vill hann gera í framtíðinni eftir að hann verður frjáls maður? „Ég hef verið að stússast í tónlist og langar að halda því áfram. Fyrst og fremst stefni ég á að komast á fullt í körfuboltann aftur.“ Gabríel er 22 ára gamall í dag en á unglingsaldri átti hann mjög áhugaverðan feril sem körfuboltamaður. Árið 2019 vann hann titilinn Scania-kóngur á Scania Cup í flokki 16 ára og yngri. Hann spilaði einnig með unglingalandsliðum Íslands í körfubolta.

Guðmundur Ingi staðfestir góða hegðun Gabríels

DV bar umkvörtunarefni Gabríels undir Guðmund Inga Þóroddsson, formann Samstöðu, félags fanga. Tjáði hann sig um málið bæði með almennum og sértækum hætti.

Guðmundur segir vettvangsteymi á vegum félagsins reglulega fara inn í fangelsin og hlusta þá meðal annars á aðfinnslur fanga. Í flestum tilvikum tekst að finna lausn á málum í samvinnu við Fangelsismálastofnun. „Okkar vettvangsteymi hefur reglulega hitt þennan tiltekna einstakling og það má algjörlega taka undir að hann hefur verið að standa sig vel í þessari úttekt og með mikinn og sterkan vilja til að breyta til hins betra. Það sjáum við skýrt og við höfum einmitt rætt þetta innan okkar raða og einnig rætt þetta við stofnunina.“

Guðmundur segir að þetta tiltekna mál Gabríels hafi ekki ratað inn á borð félagsins en verði skoðað í framhaldinu og mun teymið ræða við viðkomandi aðila á næstunni. Aðspurður um það hvort mál Gabríels sé lýsandi fyrir ástandið á Litla-Hrauni þessa stundina segir Guðmundur svo ekki vera. „En við tökum allar kvartanir alvarlega og reynum að greiða úr málum. Það er alveg ljóst að það er margt að í fangelsismálum og mikil undirmönnun en við deilum þeirri sýn með fangelsismálayfirvöldum að verðlauna beri fyrir bætta hegðun. Mér vitanlega hefur engin breyting orðið þar á, enda sennilega rauði þráðurinn í þeim breytingum sem unnið er með varðandi ný lög um fullnustu refsinga sem eru í heildarendurskoðun núna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti