Guðna líst ekki vel á verkefnið eins og glögglega kemur fram í aðsendri grein eftir hann í Morgunblaðinu í dag.
„Hvert erum við Íslendingar komnir og hvert ætlar græðgin að leiða okkur? Á Ísland að taka við CO2 frá verksmiðjum í Evrópu og dæla hér ofan í jörðina? Nú eru stjórnvöld í Hafnarfirði sögð ginnkeypt fyrir því að flytja hingað þrjár milljónir tonna af C02 og dæla ofan í móður jörð við Hafnarfjörð,“ segir Guðni sem bætir við að sjálfsagt séu miklir peningar í boði fyrir að taka við þessum úrgangi og farga honum. Hann veltir þó fyrir sér áhrifunum af verkefninu.
„Hver verða umhverfisáhrifin, verði þetta verkefni að veruleika? Hvaða áhrif hefur það á grunnvatnsstöðuna, lífríkið og jarðskjálftavirkni frá borholunum sem verða alls 80 þegar verkefnið er komið í fulla virkni? Verður lífi og heilsu fólks ógnað? Risahöfn mun rísa í Straumsvík, mengandi risatankskip verða í flutningum með úrganginn til förgunar í Hafnarfjörð frá Evrópu. Verkefnið þarfnast rafmagns og jarðhita í stórum stíl. Hverjum leyfist að taka svona ákvörðun og hvað mun fylgja í kjölfarið? Verður Ísland kannski einn stór ruslahaugur sé landið opið fyrir hverju sem er?“
Guðni segir að Ísland sé einstakt, hafið í kringum landið hreint og landið á allt öðru stigi en öll önnur lönd heimsins þegar kemur að hreinleika.
„Vatnsleysuströndin ber nafn með rentu; hún leysir vatn fram og ferskvatnsárnar sem renna til sjávar neðanjarðar eiga ekki sinn líka. Verður þessari auðlind fórnað? Sams konar ferskvatnsár renna neðanjarðar um Ölfusið í Selvoginn til sjávar, þar er hafin sala og nýting á vatninu, þúsund ára gömlu.“
Guðni spyr hvort íbúar Hafnarfjarðar eigi að taka þessu þegjandi þegar enginn veit hver langtímaáhrifin af svona raski verða. „Málið er svo alls ekki einkamál Hafnarfjarðar, þetta er mál þjóðarinnar. Hver verður næsta krafa um að taka við úrgangi í okkar hreina land? Er allt falt fyrir peninga,“ spyr hann.
Guðni segist telja að ekkert fyrirtæki, enginn einstaklingur og engin sveitarstjórn geti tekið svona ákvörðun.
„Þetta mál er svo stórt að bæði ríkisstjórn og Alþingi ber að fjalla um verkefnið. Þessu verkefni fylgir áhætta og það leiðir af sér enn stærri náttúruspjöll og miskunnarleysi gagnvart okkar einstaka landi, verði það að veruleika,“ segir Guðni sem beinir eftirfarandi spurningu að lokum til Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar: „Hvað fær Hafnarfjörður fyrir að taka þessa áhættu?“
Rósa sagði í viðtali við RÚV í byrjun þessa mánaðar að ekki væri tímabært að boða til íbúakosningar um Coda Terminal-verkefni Carbfix að svo stöddu. Hún segir að enn sé margt óútkljáð í verkefninu og kvaðst skilja umræðuna sem farið hefur af stað um verkefnið. „Þeir þurfa að sannfæra okkur um að þetta sé hættulaust og á meðan þau skilaboð komast ekki skýrar til skila en raun ber vitni þá skilur maður að umræðan sé á þessum stað.“