fbpx
Fimmtudagur 25.júlí 2024
Fréttir

Guðmunda hefur aldrei gleymt ungu stúlkunni sem sagði henni leyndarmál – „Oft fellt tár hennar vegna“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 25. júlí 2024 07:00

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hún var lágvaxin og grönn, rautt sítt hár og svo ótal margar glettnar freknur, fallega djúpblá augu full af gleði og gáska, snögg í hreyfingum og snögg og hnyttin í svörum, alltaf stutt í grínið, ein af þessum fallegu sálum sem sum okkar erum svo heppin að fá að kynnast og eiga samleið með, þó hún hafi aðeins stoppað stutt hjá okkur hef ég aldrei gleymt henni,“

segir  Guðmunda G. Guðmundsdóttir um unga stúlku sem hún vann með í Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR) árin í kringum 1983 til 1985. Guðmunda segir hópinn hafa unnið eins og þrælar og djammað allar helgar, en oftast verið góð, hafi verið ung og átt heiminn, eins og segir í grein hennar á Vísi.

Guðmunda segist hafa setið einn mánudaginn ein að reykja á ganginum þegar stúlkan settist hjá henni. „Ég sá strax að það var eitthvað breytt, glampinn í augunum hennar var ekki eins „hreinn“ og áður, það hafði eitthvað hent,“  segir Guðmunda sem var hissa á að stúlkan vildi tala við hana þar sem þær höfðum aldrei talað tvær saman áður.

„Hún var ekkert að málalengja þetta neitt en sagði beint: „Mér var nauðgað um helgina.“ 

Orðin lágu þarna í loftinu, þung, óyfirstíganleg. Guð minn góður sagði ég, tók utan um hana og við grétum saman þarna tvær í langaganginum í Bæjarútgerð Reykjavíkur. Allt í einu ranka ég við mér, kærðirðu ekki? Jú, fór á slysó í skoðun og myndatöku og talaði svo við lögguna, þeir sögðu að ég gæti sjálfri mér um kennt að klæða mig svona og þeir tóku ekki skýrslu eða neitt. Það þýddi ekkert fyrir svona druslu að kæra.“ 

Stúlkan sagðist ekki vilja neitt vesen

Guðmunda segist hafa reiðst, enda rík af réttlætiskennd. Stúlkan hafi hins vegar sagt að hún vildi ekkert vesen, þurfti bara að segja einhverjum frá, og fór svo til vinnu sinnar.

„Mér verður oft hugsað til hennar, og oft fellt tár hennar vegna, mér til skammar man ég ekki hvað hún heitir, en ég hef aldrei gleymt henni.

Hún var 18 ára þá, hún var í hálfsíðu svörtu leðurpilsi, hvítri skyrtu, leðurjakka og háum leðurstígvélum, þetta kvöld sem henni var nauðgað. Þeir kölluðu hana druslu og hún fékk ekki að kæra.

Ég hef aldrei sagt neinum þetta áður, vona að mér sé fyrirgefið að koma upp um leyndarmálið þitt, leyndarmál sem þú áttir aldrei að þurfa að burðast með. Vonandi hefur það hjálpað að ég hlustaði þennan dag. Ég hef aldrei gleymt þér.“

Lesa má grein Guðmundu í heild sinni hér.

Druslugangan gengin í tólfta sinn

Á laugardag þann 27. júlí verður Druslugangan gengin í tólfta sinn. Gengið verður frá Hallgrímskirkju kl. 14, niður Skólavörðustíg og Bankastræti og lýkur göngunni við Austurvöll með samstöðufundi, ræðuhöldum og lifandi tónlist.

 Facebookviðburður hér.

Á sama degi verður Druslugangan haldin að venju á Borgarfirði eystra, á Bræðsludeginum, þar sem hist verður við Bakkagerðiskirkju kl. 12.30 og gengið af stað kl. 13. Eftir göngu verður svo varningssala á tjaldsvæðinu frá kl. 16.00 – 18.00. 

Druslugangan er jafnréttisganga sem gengin hefur verið á hverju ári síðan árið 2011 (að COVID undanskildu). Með því að koma saman, öskra og ganga sýnum við samstöðu okkar með þolendum kynferðisofbeldis í verki og skilum skömminni sem hefði aldrei átt að vera okkar.

Fólk af öllum kynjum, á öllum aldri og úr öllum áttum kemur saman einu sinni á ári til þess að taka afstöðu gegn ofbeldi og neita að samþykkja kynferðisofbeldi, áreiti og kerfislægt misrétti sem ásættanlegan hluta samfélagsins. Í ár er að sögn skipuleggjenda einblínt á grunngildi göngunnar og mikilvægi þess að sofna ekki á verðinum – „jafnréttisvitund ungs fólks fer dalandi, gerendameðvirkni grasserar og við finnum fyrir raunverulegu og áþreifanlegu bakslagi í málaflokknum. Höldum umræðunni á lofti og tökum afstöðu gegn ofbeldi með því að fjölmenna á Druslugönguna.“

Peppkvöld verður haldið á Lemmy í kvöld, fimmtudaginn 25. júlí. Facebookviðburður hér.

Hægt er að styrkja gönguna með því að kaupa varning á viðburðinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Myndband sýnir hvernig árásin á Krít byrjaði – Emmanuel þurfti að fá súrefni í gegnum hálsinn

Myndband sýnir hvernig árásin á Krít byrjaði – Emmanuel þurfti að fá súrefni í gegnum hálsinn
Fréttir
Í gær

Rússar hyggjast banna ættleiðingar til Íslands þó þær séu engar

Rússar hyggjast banna ættleiðingar til Íslands þó þær séu engar
Fréttir
Í gær

Flugstjórinn sá eini sem komst lífs af

Flugstjórinn sá eini sem komst lífs af
Fréttir
Í gær

Baráttumaðurinn Unnar Karl Halldórsson fallinn frá

Baráttumaðurinn Unnar Karl Halldórsson fallinn frá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjölskyldufaðir ósáttur við að vera kallaður flugdólgur

Fjölskyldufaðir ósáttur við að vera kallaður flugdólgur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gleðifréttir fyrir líffæraþega – Sjúkratryggingar Íslands munu greiða allan kostnað við bólusetningar

Gleðifréttir fyrir líffæraþega – Sjúkratryggingar Íslands munu greiða allan kostnað við bólusetningar