fbpx
Fimmtudagur 25.júlí 2024
Fréttir

Eigendur lúxusíbúða skoruðu sigur gegn vinsælum pílustað – Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fær á baukinn

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 25. júlí 2024 18:30

Eigendur lúxusíbúða við Geirsgötu höfðu sigur í þessari lotu gegn pílustaðnum Skor.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Opnunartími pílustaðarins Skor við Geirsgötu 2-4, sem nýtur mikilla vinsælda, verður takmörkunum háð eftir nýfallinn úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að fella úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, frá því í febrúar á þessu ári, þar sem staðnum var veitt heimild til þess að vera með opið til kl.23.00 á virkum dögum og til kl.01.00 um helgar. Er athyglisvert að þetta er í annað skiptið sem úrskurðarnefndin slær á fingur eftirlitsins með þessum hætti.

Verður staðnum því gert að starfa við takmarkaðri opnunartíma, til kl.22.00 á virkum dögum og til kl.23.00 um helgar.

Heilsuspillandi hávaði

Málið á sér langa sögu en eigendur lúxusíbúða við Kolagötu 1 hafa nánast frá fyrstu tíð verið afar ósáttir við hávaða frá rekstri staðarins. Í ágúst 2022 gaf Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út starfsleyfi til Skor til að reka veitingastað í flokki II til 12 ára. Sú ákvörðun var kærð til áðurnefndrar úrskurðanefndar sem kvað upp þann dóm sinn í mars 2023 að starfsleyfið skyldi fellt úr gildi því vinnubrögð eftirlitsins voru ekki fullnægjandi.

Því svaraði Heilbrigðiseftirlitið í mars 2023 með því að gefa út tímabundið þriggja mánaða leyfi þar sem rekstraraðilum Skor var gert að bregðast við og bæta hljóðvist staðarins. Í apríl árið 2023 stóðu yfir hljóðmælingar í einni íbúð í stigaganginum og voru niðurstöðurnar þær að hávaðinn frá Skor væri heilsuspillandi, dúndrandi tónlist og öskur og læti úr karókíherbergi. Það tímabundna leyfi var framlengt nokkrum sinnum en virtust rekstraraðilar Skor vera þó í mestu vandræðum með að laga hljóðmengunina.

„Frá apríl 2023 til 15. nóvember 2023 bárust 45 kvartanir frá íbúum Kolagötu 1 vegna starfsemi Skors,“ segir í úrskurðinum.  Að endingu, um miðjan nóvember 2023, ákvað þó Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að að gefa út starfsleyfi til 12 ára með takmörkunum. Að undangengnum úrbótum á Skor voru þær takmarkanir svo felldar úr gildi að hluta og staðnum heimilt að vera með opið til kl.23.00 á virkum dögum og til kl.01.00 um helgar.

Vildu að skoðuð yrðu tengsl milli Skor og Heilbrigðiseftirlitsins

Við þessa ákvörðun voru íbúar allt annað en sáttir og endaði málið því inni á borði úrskurðanefndar að nýju.

„Óskað sé eftir að skoðuð verði tengsl heilbrigðiseftirlitsins við umræddan stað og hvers vegna, allt frá opnun staðarins, hafi ítrekað verið gefin út bráðabirgðaleyfi, þrátt fyrir urmul kvartana íbúa og ekkert aðhafst fyrr en seint og um síðir og þá vegna fyrrum úrskurðar nefndarinnar vorið 2023. Heilbrigðiseftirlitið sé ítrekað að brjóta á rétti kæranda um að þurfa ekki að lifa við heilsuspillandi aðstæður svo árum skiptir og þurfi kærandi reglulega að flýja eigið heimili til að vernda eigin heilsu. Frá staðnum berist stanslaus bassataktur sem ómi upp í íbúð kæranda ásamt öskrum, stappi og öðrum hljóðum frá gestum staðarins,“ segir í kærunni til nefndarinnar.

Aðilar máls skiluðu ítarlegum gögnum varðandi sína hlið málsins en að endingu var það niðurstaða úrskurðanefndarinnar að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefði ekki staðið sig í stykkinu við að undirbúa þá ákvörðun að aflétta takmörkunum af starfsemi Skor. Sú ákvörðun var því felld niður af úrskurðanefnd.

Hér má kynna sér ítarlegan úrskurð nefndarinnar

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Guðmunda hefur aldrei gleymt ungu stúlkunni sem sagði henni leyndarmál – „Oft fellt tár hennar vegna“

Guðmunda hefur aldrei gleymt ungu stúlkunni sem sagði henni leyndarmál – „Oft fellt tár hennar vegna“
Fréttir
Í gær

Túristi lúbarði meintan þjóf á strönd á Tenerife

Túristi lúbarði meintan þjóf á strönd á Tenerife
Fréttir
Í gær

Flugstjórinn sá eini sem komst lífs af

Flugstjórinn sá eini sem komst lífs af
Fréttir
Í gær

Baráttumaðurinn Unnar Karl Halldórsson fallinn frá

Baráttumaðurinn Unnar Karl Halldórsson fallinn frá