Hvergi í gjörvallri Evrópu er bjórinn dýrari á bar en í Reykjavík. Aðeins í hinum ríku Persaflóaborgum er bjórinn dýrari.
Hálfpottur (pint) af bjór kostar í Reykjavík að meðaltali 1.477 krónur á veitingastað eða bar. Þetta kemur fram í greiningu á vefsíðunni Finder. En þar er hægt að finna bjórverðið í höfuðborgum flestra landa heimsins.
Meðalverð á hálfpotti á bjór í heiminum er 488 krónur. Það er innan við þriðjungur af því sem bjór kostar í Reykjavík. Hafa ber í huga að skemmtistaðir og veitingastaðir í Reykjavík eru víða hættir að selja hálfpotta og selja í staðinn bjór í 400 millilítra eða jafn vel smærri glösum.
Eina Evrópuborgin sem kemst nálægt Reykjavík er Osló, höfuðborg Noregs. Þar kostar hálfpotturinn 1.434 krónur. Fyrir tveimur árum síðan var bjórinn dýrastur í Osló.
Í Kaupmannahöfn kostar hann 1.090 krónur, í Stokkhólmi 978, í Helsinki 1.236, í London 1.202, í París 1.158, í Berlín 688, í Róm 757 og í Madríd 565 krónur svo að nokkur dæmi séu nefnd.
Ódýrasta bjórinn í Evrópu má finna í Minsk í Hvíta Rússlandi, 237 krónur, en almennt er bjórinn mun ódýrari í austurhluta álfunnar en í vesturhlutanum. Í hinni þekktu bjórborg Prag í Tékklandi kostar einn kaldur á krana 326 krónur.
Þegar litið er yfir allan heiminn má sjá að dýrasti bjórinn finnst í hinum ríku olíuborgum við Persaflóa. Í efsta sætinu er Dóha í Katar þar sem bjórinn kostar 1.780 krónur. Þar á efir koma Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 1.680 og Manama í Barein 1.575 krónur.
Sé fólk á höttunum eftir ódýrasta bjórnum verður að fara langt frá Íslandi. Alla leið til Maseru, höfuðborgar Lesótó í suðurhluta Afríku þar sem hann kostar aðeins 112 krónur. Svipað verð er að finna í Lilongwe í Malaví og Lusaka í Sambíu.
Í Washington kostar bjórinn 1.286 krónur, í Brasilíuborg 315, Í Tókíó 509, í Peking 260 og í Canberra í Ástralíu 987 krónur.
Ýmsir þættir hafa áhrif á verðlag bjórs. Meðal annars mismunandi skattheimta, verðbólga og almennt verðlag, húsnæðis og leiguverð, launakostnaður og fleira.
Á þessu korti er hægt að sjá bjórverðið í höfuðborgum heimsins. Verðin eru reiknuð í breskum pundum.