Túristi nokkur tók réttlæti í sínar hendur á strönd á Tenerife þegar að óprúttinn vasaþjófur reyndi að nappa veskinu hans. Canarian Weekly fjallar um málið en á myndbandi sem miðillinn birtir má sjá mynd af túristanum lemja hinn meinta þjóf sundur og saman með stöng sem virðist vera af sólhlíf.
Atvikið átti sér stað á ströndinni við Los Abrigos, sem er skammt frá Reina Sofía flugvelli á suðurluta eyjunnar. Ofbeldisverkið hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum og þykir mörgum nóg um hvað túristinn, sem heyrist tala ensku í myndbandinu, gengur hart fram.
Talsvert hefur verið um vasaþjófnaði og slík brot á eyjunni fögru undanfarna mánuði. Hefur borið á því að íslenskir ferðalangar séu varaðir við og hvattir til þess að hafa augun hjá sér.