Myndband úr öryggismyndavél er komið fram sem sýnir upphafið af árásinni á íslensku fjölskylduna á Krít fyrr í mánuðinum. Eins og sést á myndum er fjölskyldufaðirinn Emmanuel Kakoulakis mjög illa farinn.
Emmanuel nefbrotnaði og kjálkabrotnaði í árásinni. Auk þessi þurfti að gera aðgerð á honum til þess að koma súrefni ofan í lungun í gegnum hálsinn.
Myndirnar voru teknar af honum á Venizelio sjúkrahúsinu í Heraklion. En árásin átti sér stað á bar í borginni að morgni miðvikudagsins 17. júlí þegar Emmanuel og fjölskylda hans voru á fara þaðan.
Yana Sana, íslensk eiginkona Emmanuels, og sonur hennar Thomas voru í viðtali vð DV skömmu eftir árásina. En einnig var ráðist á aðra fjölskyldumeðlimi, þó ekki jafn alvarlega og á Emmanuel. Sagði Yana að Emmanuel hefði verið meira og minna sofandi dagana eftir árásina og gæti ekki talað mikið. Thomas sagði að árásarmennirnir hefðu verið með athugasemdir um móður sína, sem sé mjög falleg kona.
„Einn maðurinn stakk logandi sígarettu í hendi stjúpföður míns. Stjúpfaðir minn spurði hann hvers vegna hann hefði gert þetta en var ekki með neinn æsing. Þá sagði maðurinn: „Drullaðu þér burt. Veistu ekki hver ég er? Ég og fjölskylda mín erum stór hérna,“ sagði Thomas um hvernig árásin hefði byrjað.
Í myndbandinu úr öryggismyndavélakerfinu sést hvernig atvikið byrjaði. Orðaskipti áttu sér stað sem sífellt fleiri komu að og loks fóru handalögmálin að ráða. Alvarlegustu barsmíðarnar áttu sér hins vegar stað fyrir utan barinn. Þangað var fjölskyldan sótt á sjúkrabílum en árásarmennirnir forðuðu sér í burtu.
Málið hefur vakið mikla athygli, bæði í Grikklandi og á Íslandi. Hafa stjórnvöld í báðum löndum lýst áhyggjum sínum. Þá hefur kanadíski sendiherrann heimsótt Emmanuel á spítalann sem og ráðherra ferðamála í Grikklandi. En Grikkir hafa miklar áhyggjur af því að árásin muni bitna á ferðaþjónustunni í landinu.
Gagnrýnt hefur verið að enginn hafi verið handtekinn í málinu. Það þrátt fyrir að borið hafi verið kennsl á að minnsta kosti tvo af fjórum árásarmönnunum. En þeir sjást í myndbandinu úr öryggismyndavélakerfinu. Fjölskyldan gat einnig borið kennsl á þá af ljósmyndum, en þeir eru sagðir vera góðkunningjar lögreglunnar.
Þetta er ekki eina alvarlega ofbeldismálið sem komið hefur upp á Krít að undanförnu eins og segir í frétt Greek City Times um málið. Ráðist var á 16 ára dreng í bænum Anogia fyrir skemmstu og lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við.