Wild Thang, átta ára Peking hundur, hefur verið valinn ljótasti hundur í heimi. Vegna sjúkdóms uxu ekki tennur í hann og því lafir tungan út.
Breska sjónvarpsstöðin Skyn News greinir frá þessu.
Eigendur Wild Thang hafa sent hann í keppnina Ljótasti hundur í heimi fimm sinnum en þetta er í fyrsta skiptið sem hann vinnur. Hann hafði hafnað í öðru sæti þrisvar sinnum áður. Keppnin var haldin í Kaliforníu í lok júní.
Ástæðan fyrir því að Wild Thang er eins og hann er er að hann fékk vírussýkingu þegar hann var hvolpur.
„Hann lifði af en fékk varanlegan skaða,“ segir á vefsíðu sem segir frá ævi hundsins ófríða. „Tennurnar í honum uxu ekki sem veldur því að tungan á honum lafir út. Hægri framfóturinn á honum danglar líka.“
Þrátt fyrir þetta er Wild Thang heilbrigður og hamingjusamur að öðru leyti að sögn eigandans, Ann Lewis frá Coos Bay í Oregon fylki. Lewis fékk 5 þúsund dollara í verðlaunafé í keppninni. En það samsvarar tæplega 700 þúsund íslenskum krónum.
Keppnin Ljótasti hundur heims er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið haldin í næstum því hálfa öld. Eins og forsvarsmenn keppninnar segja er tilgangurinn að upphefja þá ófullkomleika sem gera alla hunda sérstaka og einstaka. Ekki sé verið að gera grín að ljótum hundum heldur að hafa gaman með þessum frábæru persónuleikum og sýna heiminum að þeir eru í raun og veru afar fallegir.
Ýmis konar hundar hafa unnið keppnina í gegnum árin, en fyrsta keppnin var haldin árið 1976. Sigurvegarinn í fyrra, sjö ára Chinese crested, var með öfugar afturlappir og þurfti að ganga um í hjólastól. Honum hafði verið bjargað úr hundahjálparstofnun í Tucson í Arizona.
Annar Chinese crested hundur frá Arizona vann keppnina árið áður. Hárlaus rakki að nafni Mr. Happy Face sem hafði verið bjargað úr heimili manneskju með söfnunaráráttu.
Í ár hlaut Wild Thang stífa samkeppni frá pug hundinum Rome og björgunarhundinum Daisy Mae, sem bæði eru orðin 14 ára gömul.