Stingskata sem varð ólétt í febrúar án þess að karldýr kæmi þar nærri er nú dauð. Skatan var með mjög sjaldgæfan sjúkdóm.
Huffington Post greinir frá þessu.
Sjávardýrasafnið í Hendersonville í Norður Karólínu í Bandaríkjunum tilkynnti um dauða Karlottu fyrir skemmstu. En hún var stórmerkileg skata.
Í febrúar var greint frá því að Karlotta hefði orðið ólétt þrátt fyrir að hafa ekki deilt fiskabúri með karlkyns skötu í átta ár. Vakti þetta mikla furðu og gerðar voru rannsóknir á Karlottu.
Í maí kom í ljós að hún hafði verið haldin mjög sjaldgæfum æxlunarsjúkdómi. Óléttan gekk ekki lengra og hún eignaðist ekki afkvæmi.
Talið var að um væri að ræða sérstakt ferli (parthenogenesis) þar sem afkvæmi verða til í ófrjóvguðum eggjum. Þetta afar sjaldgæfa ferli getur gerst hjá skordýrum, fiskum, froskdýrum, skriðdýrum og fuglum en ekki spendýrum. Vitað er til að þetta hafi gerst hjá til dæmis kondórum, kómódó drekum og snákum.