fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Fréttir

Auðkýfingur í Trump kreðsunni svindlaði og makaði krókinn – „Ég er ríkur, ég mun sjá um ykkur“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 21. júlí 2024 19:30

Steve Bannon ráðgjafi Trump og Guo Wengui. Mynd/Instagram

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kínverskur milljarðamæringur sem flúði í útlegð til Bandaríkjanna hefur verið dæmdur fyrir fjársvik þar í landi. Hann narraði fólk til að fjárfesta í verkefnum sínum en lifði sjálfur í óhefluðum vellystingum.

Guo Wengui var sakfelldur af dómstól í New York borg á þriðjudag, 16. júlí. En honum hafði verið gefið að sök að standa í fjársvikum um meira en fimm ára skeið, frá árinu 2018 til 2023.

Með tengsl við Trump

Wengui var vel þekktur milljarðamæringur í Kína, þekktur fyrir hömlulausan lífsstíl og tengsl við æðstu menn í kommúnistaflokknum. Hann flúði Kína hins vegar árið árið 2014 eftir hafa verið sakaður um að greiða mútur, peningaþvætti, mannrán og nauðgun. Árið 2017 gáfu kínversk stjórnvöld út handtökuskipun á hendur honum.

Wengui sagðist hins vegar verða fyrir pólitískum ofsóknum. Ástæðan fyrir því að hann væri eftirlýstur væri að hann hafi hótað að afhjúpa spillingu á meðal forsprakka kommúnistaflokksins.

Síðan þá hefur hann dvalið í Bandaríkjunum og ekki setið auðum höndum heldur haldið áfram að maka krókinn, meðal annars í samstarfi við samverkamenn Donald Trump. En stuðningsmenn Trump voru hrifnir af Wengui vegna gagnrýni hans á kínversk stjórnvöld.

„Ég er ríkur“

Í mars árið 2023 var Wengui handtekinn í New York og ákærður fyrir umsvifamikil fjársvik. Upphæðin var talin vera rúmlega einn milljarður Bandaríkjadollara, eða meira en 140 milljarðar íslenskra króna.

Hluti af þessu er talinn vera í tengslum við fjölmiðlafyrirtækið GTV Media Group sem Wengui stofnaði með Steve Bannon, nánum samverkamanni og ráðgjafa Donald Trump. Var Wengui gefið að sök að hafa blekkt þúsundir fjárfesta sem fjárfestu í GTV og öðrum fyrirtækjum Wengui, sem og í rafmynt sem kallast Himalaya.

Í réttarhöldunum voru spiluð myndbönd sem Wengui notaði í auglýsingum sínum. „Ég er ríkur, ég mun sjá um ykkur,“ sagði hinn kínverski milljarðamæringur í þeim. Lítil innistæða var hins vegar fyrir loforðum hans.

Eins og segir í frétt AP um málið stóðu réttarhöldin yfir í sjö vikur og var Wengui sakfelldur í öllum tólf ákæruliðum. Dómari á eftir að ákveða refsingu hans.

Vellystingar

Wengui bjó í íbúð í New York með útsýni yfir Central Park. Hann gekk einnig í golfklúbb Donald Trump í Mar-a-Lago í Flórída.

Notaði hann hagnaðinn af fjársvikunum til að kaupa sér meðal annars ljósakrónu upp á eina milljón dollara, skartgripabox úr skjaldbökuskel sem kostar 1,1 milljón dollara, rúmdýnu upp á 36 þúsund dollara, 250 þúsund dollara teppi og 40 þúsund dollara sófaborð. Þar að auki átti hann íbúðir í New Jersey og Connecticut, snekkju og einkaþotu.

Svartur listi

Verjandi Wengui viðurkenndi að skjólstæðingur sinn lifði hátt en að það væri ekki glæpur og að saksóknari hefði ekki sýnt fram á neitt saknæmt.

„Það er ekki glæpur að vera ríkur,“ sagði Sidhardha Kamaraju, verjandi Wengui. „Það er ekki glæpur að lifa í lúxus eða eyða peningum í fína hluti. Það er ekki glæpur að eiga snekkju eða þotu eða klæðast fallegum fötum. Það er kannski ekki okkar lífsstíll. Það er kannski skrýtið. Það gæti jafn vel virkað ankannalegt á suma, en það er ekki glæpur.“

Ryan Finkel, saksóknari, sagði hins vegar að þó að Guo Wengui væri gagnrýninn á kínversk stjórnvöld þá gæfi það honum ekki skotleyfi til að ræna fólk. Fyrir utan fjársvikin benti Finkel á að Wengui hefði látið búa til svartan lista yfir óvini sína og hafi birt persónulegar upplýsingar um þá á netinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Costco reiknar ekki með að „heimsendafatan“ verði til sölu hérlendis – Aðeins ákall neytenda gæti breytt því

Costco reiknar ekki með að „heimsendafatan“ verði til sölu hérlendis – Aðeins ákall neytenda gæti breytt því
Fréttir
Í gær

Árásin á Yönu og fjölskyldu hennar – Emmanuel gekkst undir langa aðgerð í gær

Árásin á Yönu og fjölskyldu hennar – Emmanuel gekkst undir langa aðgerð í gær
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einn lítillega slasaður eftir sprengingu í Leifsstöð

Einn lítillega slasaður eftir sprengingu í Leifsstöð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Köngulóartegund nefnd eftir frú Vigdísi – „Deilir glæsileika og kænsku forsetans“

Köngulóartegund nefnd eftir frú Vigdísi – „Deilir glæsileika og kænsku forsetans“