Í myndbandi á Facebook-síðu Viðreisnar segir Sigmar Guðmundsson þingmaður flokksins sorgarsögu af ungri konu sem var tveggja barna móðir og glímdi við fíknisjúkdóm en var sett á biðlista á meðferðarstöðinni Vík, vegna sumarlokana. Í kjölfarið lést móðirin unga.
Vík, sem er staðsett á Kjalarnesi, er rekin af SÁÁ en á vef samtakanna segir meðal annars um þessa meðferðarstöð að meðferð þar taki við eftir að afeitrun á Vogi sé lokið og lágmarksjafnvægi náð. Þar sé boðið upp á sérhæfð meðferðarúrræði.
Sigmar Guðmundsson hefur látið málefni einstaklinga með fíknisjúkdóma sig varða og gagnrýnt mjög að dæmi sé um að þjónusta meðferðarstofnana sé skert á sumrin. Hefur þingmaðurinn meðal annars minnt á að fíknisjúkdómar fari ekki í sumarfrí.
Í myndbandinu segir Sigmar:
„Síðasta haust þá dó ung kona úr fíknisjúkdómnum. Hún átti tvö börn undir 6 ára aldri. Hún var að bíða eftir því að komast í eftirmeðferð á Vík. Hún var fórnarlamb sumarlokana. Sumarlokanir lengja biðlista og fólk deyr á biðlistum.“