fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Fréttir

Réðst ítrekað á sambýliskonu sína sem vildi fella málið niður

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 2. júlí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr í dag var birtur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem var ákærður fyrir að hafa í alls sjö skipti ráðist á eða hótað sambýliskonu sinni. Af dómnum má ráða að mikið hefur gengið á í sambúðinni og oft þurft að kalla til lögreglu, ekki síst vegna ofbeldis mannsins í garð konunnar. Maðurinn var sakfelldur fyrir fimm af sjö ákæruliðum en fram kemur í dómnum að konan hafi óskað eftir því að málið gegn manninum yrði fellt niður en ákæruvaldið varð ekki við því.

Atvikin sjö sem maðurinn var ákærður fyrir áttu sér stað frá júlí 2022 fram í júní 2023. Í ákærunni var hann sagður hafa í fyrsta skiptið tekið um úlnliði konunnar og snúið upp á þá þar til hana fór að verkja og á sama tíma öskrað á konuna og verið ógnandi í framkomu. Í annað skiptið var maðurinn sagður hafa slegið konuna í bakið og klórað með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið rispur, bólgur og eymsli. Í þriðja tilvikinu var maðurinn ákærður fyrir að slá konuna ítrekað í andlitið og snúa upp á handleggi hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut ýmsa áverka meðal annars sár sem þurfti að sauma.

Nefbraut konuna

Í fjórða ákærulið var maðurinn ákærður fyrir að slá konuna ítrekað í andlit og líkama ásamt því að hafa að reynt að fingurbrjóta hana og haldið henni niðri. Við þetta hlaut konan nefbrot hægra megin á nefinu.

Í fimmta ákærulið var maðurinn ákærður fyrir að slá konuna nokkrum sinnum í andlitið og rífa í hár hennar.

Í sjötta lið var maðurinn ákærður fyrir að hafa kastað kössum fullum af dóti sem tilheyrðu dóttur konunnar út um glugga og hótað konunni um leið sem hafi óttast um líf sitt.

Í sjöunda og síðasta ákærulið var maðurinn sagður hafa rifið í hár konunnar tvisvar með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið.

Lýsingar á tilvikunum sjö eru mjög ítarlegar í dómnum. Af honum má ráða að sambúð fólksins hafi einkennst af háværum deilum þeirra á milli og ofbeldis af hálfu mannsins. Fram kemur að sambúð mannsins og konunnar hafi byrjað 2021 og standi enn að undanskildu tæplega tveggja mánaða tímabili þar sem upp úr sambandinu slitnaði en síðan tók fólkið saman aftur. Það kemur einnig fram í dómnum að maðurinn eigi við áfengisvandamál að stríða og að hann hafi fullyrt að konan glímdi við geðræn veikindi.

Vildi fella málið niður

Konan hafði óskað eftir því að málið gegn manninum yrði fellt niður en hún sagðist glíma við kvíðaröskun og hafa ráðist nokkrum sinnum á manninn. Ákæruvaldið varð hins vegar ekki við þessari beiðni konunnar ekki síst þar sem að maðurinn var ákærður á grundvelli lagaákvæða sem krefjast þess ekki að brotaþoli veiti samþykki sitt fyrir ákæru. Eins og áður segir sakfelldi héraðsdómur manninn í fimm af sjö ákæruliðum. Var það meðal annars gert á grundvelli játninga mannsins í sumum tilvikanna, framburðar vitna – meðal annars lækna, félagsráðgjafa, lögreglumanna og nágranna, – læknisvottorða, framburðar brotaþola og að auki vegna þess að framburður mannsins þótti um margt ótrúverðugur.

Þriðja ákærulið þar sem maðurinn var ákærður fyrir að slá konuna ítrekað í andlitið og snúa upp á handleggi hennar var hins vegar vísað frá dómi. Lögregla hafði fellt rannsókn á því máli niður en hafið hana að nýju. Segir í dómnum að samkvæmt lögum sé slíkt ekki heimilt nema að ný gögn séu komin fram eða líklegt sé að þau komi fram. Gögn málsins hafi borið með sér að óskað hafi verið eftir læknisvottorði áður en rannsóknin var felld niður og því hafi lögreglunni ekki verið heimilt að taka rannsóknina upp aftur þegar læknisvottorðið barst.

Engar hótanir og konan hafi sýnt af sér áreitni

Maðurinn var sýknaður í sjötta ákærulið sem snerist um að hann hafi hent kössum með dóti dóttur konunnar út um glugga og hótað konunni um leið. Í dómnum segir að af myndum frá vettvangi megi dæma að maðurinn hafi borið kassana út um dyr en ekki hent þeim út um glugga. Við mat á þessari háttsemi verði að horfa til þess að fram hafi komið að maðurinn hefði verið ósáttur við að umrætt dót hefði verið geymt í íbúð hans og hefði hótað því að henda dótinu út. Það sé ekki hægt að telja að með þessu hafi maðurinn hótað konunni og fram hafi komið að hún hafi ekki skilið hann þannig að um hótun í hennar garð væri að ræða.

Í sjöunda ákærulið þótti sannað að maðurinn hefði rifið í hár konunnar en þó ekki í tvígang eins og ákæran kvað á um. Fram kom í framburði mannsins og konunnar að þetta hafi hann gert í kjölfar þess að konan tók síma hans af honum. Var það metið manninum til refsilækkunar og konan sögð með þessu hafa sýnt af sér áreitni eða ertni.

Á móti var það metið manninum til refsiauka að í þeim tilvikum þar sem maðurinn var sakfelldur hafi hann valdið konunni áverkum og í fjórða og fimmta ákærulið hafi atlaga mannsins að konunni verið gróf.

Því þótti hæfilegt að dæma manninn í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dóminn í heild sinni er hægt að lesa hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“

„Við getum öll verið einmana innan um fullt af fólki og maður getur verið mjög lítið einmana einn“
Fréttir
Í gær

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“

Ingibjörg sýnir hvernig sagan er að endurtaka sig og hvað getur „leitt okkur út úr þessum ógöngum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega

Hryllingur á Vesturlandsvegi eftir að veðrið versnaði skyndilega
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“

Höfundur ísraelska lagsins sem sakar VÆB um lagastuld hefur sett málið í hendur lögmanna sinna – „Hreinn og beinn stuldur á minni vinnu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar

Móðir lét umskera lim sonar síns í heimahúsi – Endaði í lífshættulegri aðgerð á Sjúkrahúsi Akureyrar