fbpx
Fimmtudagur 04.júlí 2024
Fréttir

Hjálmar ekki kærður en sagður sekur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 2. júlí 2024 12:46

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja ekki fram kæru á hendur Hjálmari Jónssyni fyrrum framkvæmdastjóra félagsins vegna starfshátta hans en telur þó ljóst að hann sé sekur um að minnsta kosti ámælisverða háttsemi ef ekki refsiverða.

Í tilkynningu félagsins segir að í lögfræðiáliti lögmannsstofunnar LOGOS komi fram að háttsemi Hjálmars hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð. Stjórn Blaðamannafélagsins telji hagsmunum félagsins betur borgið með því að ljúka málinu í stað þess að halda því áfram um ótilgreindan tíma með ófyrirséðum afleiðingum og kostnaði fyrir félagið.

Í tilkynningunni segir enn fremur að eftir niðurstöður úttektar KPMG á tilteknum færslum í bókhaldi félagsins, sem kynnt hafi verið félagsmönnum á aðalfundi í apríl síðastliðnum, hafi stjórn félagsins óskað eftir lögfræðiáliti frá LOGOS um mögulega refsiábyrgð Hjálmars vegna háttsemi hans í starfi. Viðkomandi lögmaður hjá LOGOS, sem sé sérfræðingur í málaflokknum, hafi byggt minnisblað sitt á úttekt KPMG og þeim ábendingum sem þar hafi komið fram við skoðun á gögnum félagsins.

Niðurstaða minnisblaðsins sé sú að Hjálmar hafi að öllum líkindum gerst sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu fyrir félagið. Meint brot hafi falist í lánveitingum sem hann veitti sjálfum sér af fjármunum félagsins án samþykkis stjórnar, greiðslu ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé umfram ástæður og til persónulegra nota.

Segir enn fremur að í minnisblaði LOGOS sé farið yfir að brotið teljist að fullu framið þó að Hjálmar hafi greitt til baka það sem hann hafi fengið að láni.

Hafi verið að minnsta kosti umboðssvik

Í tilkynningunni kemur einnig fram að í minnisblaði LOGOS segi einnig að ef ekki yrði fallist á að þessar ráðstafanir Hjálmars væru fjárdráttur yrði að öllum líkindum fallist á að sama háttsemi teldist vera umboðssvik. Kæmi til kæru og síðar ákæru yrði að líkindum ekki erfitt að sýna fram á persónulega auðgun Hjálmars. Til málsbóta yrði þó væntanlega litið til þess að hann endurgreiddi lánin.

Auk þess sé tiltekin í minnisblaðinu áhætta á misferli vegna ýmissa atriða í skýrslu KPMG sem snúi að styrkveitingum, veitinga- og ferðakostnaði o.fl., þar sem ekki hafi verið sótt heimild til stjórnar. Þau atriði feli þó ekki endilega í sér refsiverða háttsemi heldur frekar lausung á daglegum rekstri félagsins og lélega framkvæmdastjórn.

Að ráði lögmannsins sem tók saman lögfræðiálitið hafi stjórn Blaðamannafélagsins óskað eftir skýringum Hjálmars. Stjórnin hafi óskaði eftir að hann skýrði ákveðin atriði sem fram komu í úttekt KPMG. Hann hafi sent sendi stjórn skýringar sínar með bréfi þann 6. júní 2024. Stjórnin hafi falið lögmanni LOGOS að meta skýringarnar og hafi það verið niðurstaða hans að þær breyttu ekki þeirri niðurstöðu minnisblaðsins að háttsemi hans hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð.

Þrátt fyrir þetta hafi stjórn Blaðamannafélagsins ákveðið að ljúka málinu og leggja ekki fram kæru á hendur Hjálmari. Stjórnin telji að tilgangi þess að ráðast í þessa skoðun hafi verið náð. Með úttekt KPMG og lögfræðiáliti LOGOS sé málið nægilega upplýst og að vinnubrögð innan félagsins verði bætt til að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig.

Fyrirfram greidd laun

Hjálmari var sagt upp störfum í upphafi ársins. Eftir að úttekt KPMG kom út í apríl síðastliðnum neitaði hann því meðal annars í samtali við MBL að hann hafi millifært fé af reikningum félagsins á sjálfan sig í heimildarleysi en sagðist í einstaka tilfellum hafa greitt sér og öðrum laun fyrirfram sem verið jafnað út næstu mánaðamót á eftir.

Í tilkynningu Blaðamannafélagsins er vitnað í minnisblað LOGOS þar sem segir meðal annars um þá ráðstöfun fjármuna félagsins sem Hjálmar sagði fela í sér fyrirfram greiðslu á launum:

„Ljóst er að fyrrum framkvæmdastjóri millifærði á sjálfan sig tæpar 9,2 m.kr. og lét færa í bókhaldi sem fyrirframgreidd laun. Var það án heimildar og án vitneskju stjórnar félagsins. Greiðslurnar komu ekki fram á launaseðlum hjá fyrrum framkvæmdastjóra og því ekki hægt að rekja í bókhaldi að greiðslurnar tengist fyrirfram greiddum launum. Framangreind háttsemi fyrrum framkvæmdastjóra með lánveitingum til sjálfs síns án samþykkis stjórnar, greiðslur ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé verulega umfram ástæður og til persónulegra nota fellur að öllum líkindum undir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þjófagengi grunað um að stela 20 milljónum á ári frá skátunum – „Erlendir menn eru hreinlega sendir hingað í þetta“

Þjófagengi grunað um að stela 20 milljónum á ári frá skátunum – „Erlendir menn eru hreinlega sendir hingað í þetta“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Elon Musk sakar varaforseta Bandaríkjanna um lygar

Elon Musk sakar varaforseta Bandaríkjanna um lygar