fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Helgi vísar ásökunum um rasisma á bug og sakar Odd um atvinnuróg og dylgjur – „Þetta er lygi“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. júlí 2024 20:00

Helgi Magnús Gunnarsson og Oddur Ástráðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, er allt annað en sáttur við Odd Ástráðsson, lögmann, og sakar hann um atvinnuróg og dylgjur. Þetta kemur fram í færslu embættismannsins á Facebook en þar svarar hann fyrir ásakanir Odds um að Helgi Magnús hafi gerst sekur um hatursorðræðu.

Forsaga málsins er sú að Sýrlendingurinn Mohamad Kourani var á dögunum dæmdur í átta ára fangelsi. Helgi Magnús hafði nokkru áður stigið fram og greint frá því að Kourani hefði um árabil hrellt hann og fjölskyldu hans með hótunum um að drepa þau og beita þau ýmiskonar ofbeldi. Í ljósi niðurstöðunnar hafði blaðamaður Vísis samband við Helgi Magnús og leitaði álits hans á dómnum. Kvaðst vararíkissaksóknarinn ánægður með niðurstöðuna og tjáði sig svo almennt um stöðu mála í innflytjendamálum svo gustaði af.

Oddi var ofboðið vegna málflutnings embættismannsins og sagði orð hans ala á sundrung og fordómum. Þá gerði hann athugasemdir við að maður í stöðu Helga Magnúsar tjáði sig með slíkum hætti og sagði það hafa áhrif á trúverðugleika hans í starfi.

„Það er bara þannig að við get­um ekki verið með emb­ætt­is­menn sem dreg­ur fólk í dilka eft­ir því hvernig það er á lit­inn,“ sagði Odd­ur meðal annars.

„Ef hann er að leita að vanhæfni þá er hann að fara yfir lækinn eftir vatninu,“

Eins og áður segir er Helgi Magnús allt annað en sáttur við Odd og vísar meintum rasisma sínum alfarið á bug.

„Að halda því fram eins og þessi lögmaður gerir að kona frá múslímaríki sem vilji kæra nauðgun geti ekki treyst því að hún fái lögboðna meðferð sinna mála hjá ákæruvaldinu vegna afstöðu minnar er ekkert minna en dylgjur og atvinnurógur,“  skrifar Helgi Magnús.

Hann bendir á að Oddur er sonur Svandísar Svavarsdóttur, ráðherra VG.

„Og virðist kippa í kynið varðandi afstöðu til innflytjendamála og mun, samkvæmt því sem mér er sagt, hafa afkomu sína að nokkru eða öllu undir vinnu fyrir eða í kring um innflytjendamál þar á meðal í þágu Solaris sem berst hörðum höndum fyrir nær óheftum aðgangi fólks frá miðausturlöndum að Íslandi, að því er virðist án þess að láta sig varða bakgrunn þess fólks og hugsanleg tengsl við öfga- og hryðjuverkasamtök. Kippir honum því nokkuð í kynið þegar kemur að viðhorfum til innflytjendamála. Ef hann er að leita að vanhæfni þá er hann að fara yfir lækinn eftir vatninu,“ skrifar embættismaðurinn.

Aldrei upplifað aðra eins framkomu í tæpa þrjá áratugi

Segir hann af og frá að ummæli hans flokkist undir hatursorðræðu. Hafi hann þvert á móti bent „á þekktar staðreyndir sem allir þekkja, sem fylgjast með opinberri umræðu, eða þekkja vegna tengsla við fólk sem hefur lent í einhverju misjöfnu. Það virðist ekki skipta lögmanninn máli að ég minnist ekki á neinn tiltekinn hóp fólks, hvorki út frá kynþætti, litarhafti, trúarbrögðum né landsvæðum. Ég vísa einfaldlega til þess sem allir vita að við erum að upplifa árekstra mismunandi menningarheima sem hafa mismunandi viðhorf til laga og mannréttinda. Lesið fréttir! Telur einhver að það séu allsstaðar sömu viðhorf til jafnréttis kynjanna, trúfrelsis, og réttinda samkynhneigðra, og eru höfð í hávegum víðast hvar í Evrópu?“ skrifar Helgi Magnús.

Segist hann í áðurnefndu viðtali hafa vísað til leigubílsstjóra af erlendum uppruna og því sem innkomu þeirra hefur fylgt.

„Þarf eitthvað að fjölyrða um það? Þá hef ég upplýst að í mínum 26 árum sem ákærandi hef ég aldrei upplifað svona framkomu eins og af hendi þessa Kourani og í raun bara kurteisi frá fólki sem ég hef þurft að hafa afskipti af í starfi. Þannig að já þetta er nýnæmi. Höfum í huga að þessi maður er sakhæfur, hann er ekki geðsjúkur, bara siðblindur og eitthvað fleira. Ef það er einhver sem hefur komið óorði á Sýrlendinga hér er það Kourani sjálfur og þar átti ég engan þátt að máli og ekkert í þessu stutta viðtali styður þetta. Ég vil líka taka fram að ég minntist ekki á þjóðerni Kourani en um hann hefur verið fjallað í fjölda greina á liðnum vikum. Reyndar bendi ég á að það sé fullt af góðu fólki í þessum hópi þannig að það er ekki verið að alhæfu um neitt,“ skrifar Helgi Magnús ennfremur.

„Þetta er lygi“

Sakar hann Odd um sleggjudóma og tilgangur hans sé „augljóslega… að sleikja höndina sem fæðir hann eins og gengur meðal hans líka, líta algerlega fram hjá tilefni þessa viðtals sem eru víðtæk ofbeldisverk þessa Kourani. Það virðist ekki vera að lögmaðurinn hafi mikla samúð með löndum sínum og þar á meðal innflytjendum, sem hafa þurft að þola hann. Slíkt er kannski bara sjálfsagður fylgifiskur þess að hann þurfi að afla fjár.“  bætir Helgi við.

Ljóst er að embættismanninum er nóg boðið og hann telur Odd flagga þessum gífuryrðum til að’ þagga niður í sér.

„Ég held að við sem þjóð þurfum að fara að svara svona fólki sem í hvert sinn sem einhver er ósammála þeim grípa til gífuryrða um hatursorðræðu eða kynþáttahatur í því skyni að þagga niður umræðu sem er ekki í samræmi við þeirra hagsmuni. Flokkur móður hans VG reyndi í þessu skyni að koma á heilum lagabálki á síðasta þingi um hvað megi segja og hvað ekki byggt á þeirra eigin pólitísku mælikvörðum. Fásinna sem George Orwell ritaði um bók sinni 1984 fyrir margt löngu og enginn trúði að gæti orðið raunveruleiki. Segir það meira en flest orð um frændgarð og bakgrunn þessa lögmanns,“ skrifar Helgi Magnús.

Hann klikkir svo út með því að saka Odd um að ljúga upp á sig að hann hafi flokkað fólk eftir litarhafti í viðtalinu á Vísi.  „Þetta er lygi, ég minntist ekki á litarhaft,“ segir embættismaðurinn að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið

Var látin í fimm daga á heimili sínu – Pug hvolpar byrjaðir að éta líkið
Fréttir
Í gær

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump

Svona mikið þarf Ísland að borga til að verða við kröfu Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“

Vinslit hjá Margréti og Ingu Sæland: „Hún hefur ekki látið í sér heyra eftir að hún komst í ríkisstjórn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“

Diljá íhugar formannsframboð: „Ég hef þung­ar áhyggj­ur af stöðu flokks­ins“