fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Yana og fjölskylda hennar urðu fyrir hrottalegri árás á Krít – „Ástand hans er alvarlegt og við biðjum öll fyrir honum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 18. júlí 2024 15:25

Yana Sana ásamt eiginmanni sínum, Emmanuel Kakoulakis. Hjónin og börn þeirra urðu fyrir hrottalegri árás á Krít.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yana Sana, kona sem ásamt fjölskyldu sinni varð fyrir hrottalegri árás óþokka á Krít fyrir skömmu, segir að ástand manns hennar, Emmanuel Kakoulakis, sé mjög alvarlegt eftir árásina, en hann missti meðvitund á staðnum. Segir hún að hann þurfi að gangast undir skurðaðgerð á morgun. „Ástand hans er alvarlegt og við biðjum öll fyrir honum,“ segir Yana í viðtali við DV.

Yana er með íslenskan ríkisborgararétt og bjó á Íslandi árum saman. Hún býr núna í Kanada með Emmanuel, síðari manni sínum. Yana er upprunalega frá Úsbekistan en hún flúði til Íslands ásamt þáverandi eiginmanni sínum og barnsföður, Ramin Sana. Ramin er frá Afganistan en hann flúði fyrst til heimalands Jönu út af ofsóknum talibana. Þar fékk hann þó ekki dvalarheimild né atvinnuleyfi og í mars 2003 ákvað fjölskyldan því að halda til Íslands og sækja um hæli sem flóttamenn. Það var þó ekki veitt heldur aðeins dvalarleyfi af mannúðarástæðum til eins árs. Hjónin höfðuðu því mál gegn íslenska ríkinu til að fá stöðu sína viðurkennda sem vakti nokkra athygli og var talsvert fjallað um í fjölmiðlum. Fjórum árum síðar bar barátta þeirra loks ávöxt þegar fjölskyldan hlaut íslenskan ríkisborgararétt.

Yana ól upp þrjú börn á Íslandi, þar á meðal soninn Thomas, sem talar íslensku, og ræddi árásina við DV. Býr hann í Danmörku. Yana og eiginmaður hennar búa núna í Kanada en voru í orlofsferð á Krít í Grikklandi er árásin var framin. Höfðu þau dvalist í Grikklandi síðan 5. júlí en hafa verið í bænum Heraklion, þar sem árásin var framin, síðan 15. júlí.

„Hann hefur meira og minna verið sofandi og getur ekki talað mikið,“ segir Yana um ástand Emmanuels. „Dóttir mín og eldri sonur urðu líka fyrir áverkum en ekki eins alvarlegum,“ segir Yana. Hún greinir jafnframt frá því að íslenskur sendifulltrúi hafi haft samband við hana og haldi henni upplýstri um gang mála.

Áreittu Yönu vegna fegurðar hennar

„Hvernig get ég sagt þetta? Móðir mín er mjög falleg kona og mennirnir voru með slíkar athugasemdir,“ segir Thomas Sana, ungur sonur Yönu, sem varð einnig fyrir ofbeldi árásarmannanna.  Thomas ræddi við DV á íslensku, hann býr í Danmörku en gekk í skóla á Íslandi í æsku. Móðir hans Yana, talaði ensku stuttlega við DV og vísaði síðan á Thomas varðandi frekari upplýsingar.

Þessi fimm manna fjölskylda, Yana og Emmanuel, Thomas, yngri bróðir hans og yngri systir, voru að njóta máltíðar í friðsemd á veitingahúsi, þegar mennirnir byrjuðu að áreita Yönu með athugasemdum um útlit hennar. Þeir létu síðan til skarar skríða þegar fólkið var á leiðinni út af staðnum.

„Einn maðurinn stakk logandi sígarettu í hendi stjúpföður míns. Stjúpfaðir minn spurði hann hvers vegna hann hefði gert þetta en var ekki með neinn æsing. Þá sagði maðurinn: „Drullaðu þér burt. Veistu ekki hver ég er? Ég og fjölskylda mín erum stór hérna.“

Thomas segist hafa ýtt við einum mannanna og þá hafi allt farið í bál og brand. Í fjölmiðlum hefur verið greint frá því að árásarmennirnir hafi verið fjórir og búið sé að handtaka einn. Thomas segist vona að allir mennirnir verði handteknir en mennirnir hafi verið fleiri, átta til tíu. Fjórir til fimm hafi ráðist á fólkið en aðrir hafi fylgst með. Enginn á veitingastaðnum hafi komið þeim til hjálpar en yngri systir hans og yngri bróðir öskruðu stanslaust á hjálp.

Thomas og stjúpfaðir hans, Emmanuel. Aðsend mynd.

Thomas segir að mennirnir hafi slegið móður hans en yngri systkini hans hafi orðið fyrir litlum sem engum áverkum. Þau hafi hins vegar orðið fyrir miklu andlegu áfalli.  Hann segir að tveir menn hafi ráðist á hann á meðan tveir til þrír menn réðust á stjúptföður hans. Thomas fékk minniháttar áverka víðsvegar um líkamann, t.d. skurð á höfuðið, en slasaðist þó ekki alvarlega. Stjúpfaðir hans lá hins vegar rænulaus í blóði sínu þegar lögregla kom á vettvang, um tíu mínútum eftir að átökunum lauk.

„Það er svo undarlegt að fólk frá öðru veitingahúsi var að hjálpa okkur þarna en enginn á staðnum hjálpaði okkur. Það var allt út í blóði þarna og stjúpfaðir minn rotaður.“

Hann segir að hvorki hann né stjúpfaðir hans hafi getað slegið frá sér eða getað komið við neinum vörnum og þeir hafi brugðist friðsamlega við áreitni og árásargirni mannanna. „Ég var bara að reyna að róa mannskapinn en ég ýtti við einum manni og þá réðust þeir á okkur.“

Thomas lýsir árásinni sem mjög óvenjulegu atviki, flest fólk þarna um slóðir sé friðsamt. Á því séu þó undantekningar. „Stjúpfaðir minn er frá Kanada og Grikklandi, hann er frá þessari eyju og við komum hingað á hverju ári. Hér er yfirleitt gott fólk en það eru vafasamir menn sem búa í fjallaþorpunum hér og eru viðriðnir kókaínviðskipti. Þess vegna var þessi maður að spyrja hvort við vissum ekki hver hann væri og segja að fjölskylda hans væri stór hér.“

Thomas og fjölskylda hans bíða núna milli vonar og ótta eftir því að aðgerðin á Emmanúel á morgun takist vel og hann nái fljótt bata. „Ég vil ekki að neinn þurfi að upplifa svona og þetta var hræðlileg sjokk fyrir yngri systkini mín,“ segir hann.

Thomas og móðir hans, Yana. Aðsend mynd.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni