Skemmtiferðaskipið Regal Princess sendi út neyðarkall við strendur Bretlands. Ástæðan var að farþegi þurfti nauðsynlega á læknishjálp að halda strax.
Breska blaðið Southern Daily Echo greinir frá þessu.
Skipið var á leið frá Southampton í Bretlandi til Cork í Írlandi. Skipið hefur reglulega komið til Íslands og íslenskar ferðaskrifstofur hafa boðið upp á ferðir með því hérlendis.
Skipið, sem er 330 metra langt og tekur 3 þúsund farþega, lagði af stað á sunnudag. Var það nálægt ströndum Cornwall í suðvesturhluta Bretlands þegar atvikið kom upp. Var björgunarbátur sendur frá borginni Falmouth til að ná í farþegann.
„Tveir sjúkraflutningamenn fóru um borð í skemmtiferðaskipið ásamt tveimur skipverjum af björgunarbátnum til að flytja hinn veika í björgunarbátinn,“ segir í tilkynningu RNLI, björgunarbátastofnun Bretlands. Var hann svo fluttur á sjúkrahús.
Er þetta í annað skipti sem neyðarkall berst frá skipum í eigu skipafélagsins Princess Cruises á aðeins einni viku. Caribbean Princess sendi út neyðarkall á leið sinni frá Southampton til Íslands á sunnudag og fékk aðstoð frá björgunarmönnum í Falmouth.