fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

Ingólfur Valur stefnir ríkinu og krefst miskabóta vegna ólöglegrar handtöku

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 17. júlí 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingólfur Valur Þrastarson, sem vakti athygli fyrir nokkrum árum fyrir birtingu erótísks myndefnis á vefnum OnlyFans, hefur stefnt ríkinu vegna lögregluaðgerða gegn honum. Kært er vegna atviks sem átti sér stað árið 2019 en lögmaður Ingólfs hefur allar götur síðan reynt árangurslaust að ná sátt við ríkið í málinu. Krafist er 600 þúsund króna í miskabætur.

Málsatvik eru þau að Ingólfur var á leið í vinnu sína á Keflavíkurflugvelli er lögregla stöðvaði för hans og handtók hann, vegna gruns um akstur undir áhrifum ólöglegra vímuefna. Í stefnu málsins, sem lögmaður Ingólfs, Gunnar Gíslason, ritar, kemur fram að Ingólfi hafi ekki verið boðið að undirgangast munnvatnssýni á vettvangi en það hefði verið rétt á grundvelli þágildandi umferðarlaga.  Var hann færður á lögreglustöðina í Keflavík, þar sem tekin var þvagprufa af honum. Þvagprófið skilaði neikvæðri niðurstöðu og því ljóst að Ingólfur hafði ekki ekið undir áhrifum fíkniefna. Engu að síður haldlagði lögregla bíllykla Ingólfs og keyrði hann í vinnuna. Segir í stefnunni að það hafi vakið mikla undrun og forvitni vinnufélaga hans að hann skyldi mæta til vinnu í lögreglufylgd.

Í stefnunni segir að handtakan hafi valdið Ingólfi miklum óþægindum og mikilli andlegri vanlíðan í kjölfarið. Hafi hann upplifað afskipti lögreglunnar sem niðurlægjandi og þau enda vakið mikið umtal á vinnustað hans.

Segir bótaábyrgð vera ótvíræða

Byggt er á því að samkvæmt lögum um meðferð sakamála eigi maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður. Fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Ingólfur hafi hins vegar ekki með nokkrum hætti stuðlað að þessum lögregluaðgerðum.

Ríkislögmaður hefur hafnað bótaskyldu m.a. á þeim forsendum að handtakan og þvagprufan á Ingólfi hafi verið gerð á grundvelli umferðarlaga en ekki laga um meðferð sakamála. Þessu hafnar lögmaður Ingólfs með öllu í stefnunni og segir:

„Handtaka grunaðs manns að ósekju leiðir alltaf til bótaskyldu, hvort sem verið sé að handtaka hann á grundvelli meintra umferðarlagabrota eða annars, nema þegar sá handtekni hafi hreinlega stuðlað að handtöku sinni með með afgerandi hætti. Það gerði stefnandi ekki.“

Bent er á að grundvöllur bótaréttar sé stjórnarskráin sem sé æðri umferðarlögum og lögum um meðferð sakamála. „Stjórnarskráin veitir ávallt ákveðin grundvallarréttindi sem ákvæði sérlaga geta ekki fellt úr gildi eða afmáð,“ segir í stefnunni.

Þá hafnar lögmaður Ingólfs því með öllu að aðgerðir lögreglu í málinu hafi verið lögmætar. Um þetta segir meðal annars í stefnunni:

„Stefnandi hafnar alfarið því að aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar. Stefnandi mótmælir að svo hafi verið, enda hafi skort á skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í ákvæðinu er að finna handtökuheimild sem jafnan er kölluð hin almenna heimild lögreglu til að taka mann höndum. Ákvæðið áskilur að rökstuddur grunur leiki á því að viðkomandi hafi framið brot sem sætt getur ákæru. Nákvæma merkingu þessa orðalags er erfitt að festa hendi, en ganga má út frá því að meira þurfi að koma til heldur en grunsemdir einar saman. Að auki þarf að gæta að meðalhófi við handtöku. Í máli þessu hefur ekki verið sýnt fram á að rökstuddur grunur hafi legið fyrir handtöku stefnanda umrætt sinn. Huglægar grunsemdir einar saman sem lögreglumaður eða lögreglumenn hafa geta ekki talist rökstuddur grunur. Lögreglan í máli þessu hafði ekki neitt sem tengdi stefnanda við brot á umferðarlögum. Enda vægari úræði tiltæk fyrir lögregluna eins og að taka munnvatnssýni á vettvangi, enda heimild fyrir því í 47. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987, sem hefði verið í anda meðalhófsreglunar og leitt hefði til þess að handtaka hefði ekki farið fram í málinu. Þess í stað virti lögreglan meðalhófsregluna að vettugi umrætt sinn með afar grófum hætti.“ 

Ríkið hafnar kröfunni og krefst sýknu

Í greinargerð lögmanns ríkisins er kröfum Ingólfs hafnað og krafist sýknu fyrir dómi. Er bent á að Ingólfur hafi ekið langt yfir hámarkshraða er hann var handtekinn, eða 134 km á klst. þar sem hámarkshraði var 90 km á klst. Einnig leiddi skoðun á ökuskírteini hans í ljós að það var útrunnið.

Er það jafnframt mat lögmannsins að Ingólfur hafi ekki verið handtekinn og bíllyklar hans ekki haldlagðir. Segir að Ingólfur hafi farið sjálfviljugur með lögreglumönnum á lögreglustöðina og gefið þvagsýni. Þessu hafnar lögmaður Ingólfs með öllu og segir hafið yfir allan vafa að hann hafi verið handtekinn og lögregla haldlagt bíllykla hans. Lögmaður ríkisins hafnar því með öllu að lögreglumenn hafi brotið lög er þetta atvik átti sér stað.

Harmar að málið þurfi að fara fyrir dóm

Gunnar Gíslason, lögmaður Ingólfs, segist í samtali við DV harma að málið hafi þurft að fara fyrir dóm. Reynt hafi verið að ná fram sættum en án árangurs. Hann hafnar þeim lagaskilningi ríkislögmanns að skilgreina aðgerðir lögreglu í málinu sem umferðareftirlit, augljóslega hafi verið um handtöku að ræða:

„Ég gerði allt sem ég gat til að reyna að sætta málið áður en dómstólaleiðin var farin. Því miður, þá hefur embætti Ríkislögmanns undanfarið eitt ár hafnað öllum bótakröfum er varða þvingunaraðgerðir lögreglu ef þær stafa af umferðareftirliti, með þessum sömu rökum; að aðgerðirnar eigi sér stoð í ákvæðum umferðarlaga og séu því ekki þvingunaraðgerðir í skilningi sakamálalaga. Þessu hafa dómstólar þegar hafnað með þeim rökum að þó ákvæði umferðarlaga hafi að geyma sérreglur um heimildir lögreglu, þá gildi engu að síður 1. gr. sakamálalaga fullum fetum um öll mál lögreglu. Það að færa menn á lögreglustöð – sem er ekkert annað en frelsissvipting og því handtaka, er í þessum málum framkvæmd á grundvelli 90. gr. sakamálalaga og því þvingunaraðgerð í skilningi þeirra laga,“ segir Gunnar.

Gunnar bendir á að óheimilt sé að færa menn á lögreglustöð til sýnatöku nema þeir gefi áður öndunar- eða munnvatnssýni á vettvangi sem reynist jákvætt:

„Þá verður einnig að hafa í huga að lögreglu er ekki heimilt að færa menn niður á lögreglustöð til líkamsrannsókna nema þeir gefi öndunar- eða munnvatnssýni á vettvangi sem reynist jákvætt. Því miður virðist farið ansi sparlega með þessi sýni og vaðið oftar en ekki beint í handtökur, í stað þess að nýta umrædd sýni, sem gengur þvert á allt meðalhóf. Íslenska ríkið hefur í vörnum sínum í þessu máli umbjóðanda míns m.a. borið fyrir sig að lögreglan hafi almennt ekki fyrr en nú nýlega haft í verkfærakistu sinni munnvatnssýni til að prófa fyrir fíkniefnum, en þó liggja fyrir dómar allt frá 2008 þar sem þeim hefur verið beitt. Ég held að þessu sögðu að enginn almennur borgari myndi sætta sig við að þurfa að sæta handtöku og blóðprufu vegna gruns um ölvunarakstur, án þess að fá að blása fyrst, bara vegna þess að lögreglumenn fengju ekki öndunarmæla til að nota í sínum störfum. Að það skuli hafa fengið að viðgangast um áraraðir í málum er varða meintan fíkniefnaakstur er afar aðfinnsluvert, svo ekki sé harðar að orði kveðið.“

Aðalmeðferð verður í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 20. ágúst næskomandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Langar biðraðir hjá Fjölskylduhjálpinni – „Yfirvöld virðist ekki gefa þessu nokkurn einasta gaum“

Langar biðraðir hjá Fjölskylduhjálpinni – „Yfirvöld virðist ekki gefa þessu nokkurn einasta gaum“
Fréttir
Í gær

Segir bikblæðingar ekki réttlætanlegar og Vegagerðina ábyrga – Ákveðnir vegir hreinlega hættulegir

Segir bikblæðingar ekki réttlætanlegar og Vegagerðina ábyrga – Ákveðnir vegir hreinlega hættulegir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Raðmorðingi játar á sig morð 42 kvenna á tveimur árum

Raðmorðingi játar á sig morð 42 kvenna á tveimur árum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vísaði frá máli gegn Donald Trump varðandi stuld á leynilegum skjölum – Skipaði sjálfur dómarann í embætti

Vísaði frá máli gegn Donald Trump varðandi stuld á leynilegum skjölum – Skipaði sjálfur dómarann í embætti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómarinn rifjaði upp langan brotaferil Kourani – Hefur aldrei stundað vinnu á Íslandi

Dómarinn rifjaði upp langan brotaferil Kourani – Hefur aldrei stundað vinnu á Íslandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingin fræga á Laugaveginum að hverfa – „Hræðilegt það er verið að byrja að mála yfir þetta“

Auglýsingin fræga á Laugaveginum að hverfa – „Hræðilegt það er verið að byrja að mála yfir þetta“